Það góða í lífinu glatar síður verðmæti sínu en hið hverfula á tímum efnahagskreppu. Því máli til sönnunar má benda á að ein besta fjárfesting síðasta áratugar var í eðalvíninu Lafite Rothschild, nánar tiltekið 1982 árganginum.
Það góða í lífinu glatar síður verðmæti sínu en hið hverfula á tímum efnahagskreppu. Því máli til sönnunar má benda á að ein besta fjárfesting síðasta áratugar var í eðalvíninu Lafite Rothschild, nánar tiltekið 1982 árganginum. Samkvæmt könnun Liv-ex Fine Wine hækkaði verð á tólf flöskum af þessu fágæta víni úr 2.613 pundum í desember árið 1999 í 25 þúsund pund í desember í ár. Um er að ræða 857% ávöxtun á áratugnum. Ljóst er að fáir fjárfestingakostir hafa skilað betri ávöxtun á þessum undarlega áratug sem senn rennur í aldanna skaut. Samkvæmt könnun Live-ex var ávöxtun á hlutabréfum neikvæð um 17,5% á þessu tímabili. Þrátt fyrir að frímerkjasöfnun virðist ekki njóta sömu hylli og áður gátu séðir fjárfestar ávaxtað pund sitt ágætlega með því að kaupa fágæt frímerki. Samkvæmt könnuninni hækkaði verðmæti safns fágætra frímerkja um 61% á þessum áratug. Þrátt fyrir að fjárfestar sem vilja verja sig gegn verðbólgu kaupi oft listaverk gafst það ekkert sérstaklega vel á þessum áratug en verð þeirra hækkaði aðeins um 9% að meðaltali. Í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph um könnun Live-ex kemur meðal annars fram að eðalvín séu í auknum mæli talin til góðra fjárfestingakosta og velti markaðurinn nú um 3 milljörðum Bandaríkjadala á ári hverju.