„ÉG er allur að koma til en er ekki orðinn alveg nógu hress til þess að stökkva út í djúpu laugina,“ sagði Þórir Ólafsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska 1. deildarliðsins TuS N-Lübbecke.

„ÉG er allur að koma til en er ekki orðinn alveg nógu hress til þess að stökkva út í djúpu laugina,“ sagði Þórir Ólafsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska 1. deildarliðsins TuS N-Lübbecke. Þórir reif kálfavöða á æfingu fyrir þremur vikum og hefur ekki leikið síðan. Vonir stóðu til að hann gæti e.t.v. spilað einn til tvo síðustu leiki Lübbecke fyrir áramót. Ljóst er að af því verður ekki en Lübbecke tekur í kvöld á móti Rhein-Neckar Löwen sem Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson leika með.

„Það eru liðnar þrjár vikur frá því að þetta gerðist og það er sá tími sem læknir sagði mér að það myndi takast að jafna sig á þessu. En þar sem ég hef ekkert tekið alvarlega á kálfanum síðustu vikur þá er engin ástæða til þess að taka áhættu með því að leika gegn Löwen. Með því að sleppa leiknum þá næ ég viku hvíld í viðbót áður en undirbúningur landsliðsins hefst fyrir Evrópumeistaramótið í næstu viku,“ sagði Þórir sem fyrr í gær fékk staðfestingu á því með samtali við Guðmund Þórð Guðmundsson landsliðsþjálfara að hann væri í EM-landsliðshópnum sem kemur saman til æfinga á mánudagsmorguninn.

„Það getur vel verið að ég taki því rólega á fyrstu æfingum landsliðsins í næstu viku en vonandi heldur kálfinn þannig að ég komist með á EM,“ sagði Þórir sem ekki hefur tekið þátt í stórmóti með íslenska landsliðinu frá því á EM í Sviss fyrir nærri fjórum árum.

iben@mbl.is