Pétur Stefánsson lítur yfir farinn veg og yrkir í léttum dúr í árslok: Fátækt jókst, og það er þekkt, það er ei málum blandið. Árið var sumum ömurlegt, aðrir flúðu landið. Ýmsir hlutu sálarsjokk af sínu fjárhagstjóni.

Pétur Stefánsson lítur yfir farinn veg og yrkir í léttum dúr í árslok:

Fátækt jókst, og það er þekkt,

það er ei málum blandið.

Árið var sumum ömurlegt,

aðrir flúðu landið.

Ýmsir hlutu sálarsjokk

af sínu fjárhagstjóni.

– Vont er að hafa vinstri flokk

að völdum hér á Fróni.

Fátt er það sem gleður geð

þó gamla árið líði,

ef annað birtist okkur, með

ennþá verra stríði.

Mannlífið er mikið breytt,

margur er þrautum hlaðinn.

Þó við kveðjum árið eitt,

annað kemur í staðinn.

Ekki batnar ástandið

ýmsir fyllast bræði.

Fólkið þarf að venjast við

verri lífsins gæði.

Á nýju ári hljómar hér

hávær mæðustuna.

– Þessar vísur þykir mér

að þjóðin ætti að muna.

Svo bætir hann við innan sviga:

Sárlegt tjón ég sjálfur hlaut

síst það þarf að fela.

– Svo að linist sálarþraut

sýp ég á vodkapela.

Loks Friðrik Steingrímsson:

Skammdeginu burt er bægt

birtan völdin þrífur.

Blessuð sólin hægt og hægt

himnastigann klífur.