„Mér finnast ljóðabækur Matthíasar Jóhannessen og Sigurðar Pálssonar einkum standa upp úr af því sem ég hef verið að lesa. Þá er Harmur englanna eftir Jón Kalman Stefánsson afbragðs gott verk,“ segir Gauti Kristmannsson, bókmenntarýnir og þýðandi. Hann segir mikinn skáldskap í Harmi englanna. „Stíllinn er skáldlegur og heimspekin sem tjáð er í verkinu stendur undir þeim listrænu kröfum sem ég geri til prósans. Mér finnst sérkennilegt þegar höfundar setja fram mikilvægar hugsanir í einhverjum staccato-stíl. Hann hentar í greinaskrif í blöðum, en er ekki það sem ég vil sjá í skáldskap.
Síðustu ár hefur borið nokkuð á þeirri kröfu að ekki megi vera mikill skáldskapur í skáldskap. Það finnst mér skrýtið.
Eins og sést í skrifum Jóns Kalman láta sumir höfundar það sem vind um eyru þjóta.“
Gauti segir að hrunið hafi eðlilega komið inn í bókmenntirnar en það hafi ekki alltaf lukkast vel. „Mér þótti ágætlega tekið á því hjá Sindra Freyssyni og Sigurði Pálssyni í ljóðunum, og hjá Guðmundi Óskarssyni í Bankster. Guðmundur tekur óbeint á hruninu með því að fjalla ekki um orsakirnar heldur afleiðingarnar hjá manni sem var innanbúðar í fjármálakerfinu. Merkasta bókin í ár og þótt lengur væri leitað finnst mér hins vegar vera Ummyndanir Óvíds í þýðingu Kristjáns Árnasonar og reyndar eru eins og venjulega margar bestu bókanna í ár þýðingar.“