Jóna Valdimarsdóttir fæddist 21. apríl 1919, á Hvítanesi á Akranesi. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða 20. desember 2009.

Foreldrar hennar voru Rannveig Þórðardóttir, f. 8.5. 1895, d. 20.3. 1925, frá Leirá í Borgarfirði, og Valdimar Eyjólfsson, f. 19.8. 1891, d. 6.6. 1976, frá Hábæ á Akranesi. Eftir lát Rannveigar ólust Jóna og alsystkini hennar upp á Hvítanesi hjá móðurömmu sinni Guðnýju Stefánsdóttur, f. 7.11. 1869, d. 26.11. 1951, og móðurbróður Þórði (Steina), f. 23.8. 1899, d. 22.11. 1989, maka hans Sigríði Guðmundsdóttur, f. 4.1. 1910 og börnum þeirra.

Jóna átti 2 alsystkini, Þórð, f. 23.7. 1916, d. 20.12. 2008, og Ársæl Ottó, f. 2.10. 1921, d. 20.12. 2003; og 4 hálfsystkini, Geir, f. 5.6. 1927, Rannveigu Önnu, f. 22.10. 1928, Valdimar, f. 15.9. 1931, og Jón Valdimar, f. 10.4. 1935, sem öll eru látin.

Jóna giftist 8. júlí 1939 Þórði Egilssyni, vélstjóra og síðar pípulagningameistara, f. 14.9. 1916, fæddum á Skarði í Snæfjallahreppi í Ísafjarðardjúpi, d. 4.12. 1998 á Akranesi. Foreldrar hans voru Egill Jónsson, f. 6.5. 1887, d. 14.5. 1958, og Guðrún Ingibjörg Þórðardóttir, f. 26.3. 1886, d. 9.4. 1964. Jóna og Þórður bjuggu allan sinn búskap á Akranesi ef frá er talið 17 ára tímabil er þau bjuggu í Kópavogi og á Seltjarnarnesi. Jóna bjó á Höfða frá janúar 2008. Börn Jónu og Þórðar eru: 1) Guðni, f. 6.9. 1939, framkvæmdastjóri Borgarplasts hf., maki Sjöfn Guðmundsdóttir, f. 17.5. 1935. Dætur þeirra eru: a) Hulda Rós, f. 13.6. 1973, dóttir Esja Rós, f. 12.11. 2008; b) Sunna Jóna, f. 15.7. 1975, dóttir Líf, f. 23.11. 2003; c) Brynja Þóra, f. 9.9. 1976, maki Andri Pálsson, f. 7.9. 1974, börn Dýrleif Sjöfn, f. 26.4. 2002, og Úlfur Páll, f. 16.4. 2004. 2) Rannveig, f. 13.4. 1941, d. 8.8. 1941. 3) Gylfi, f. 5.12. 1944, framkvæmdastjóri Spalar ehf, maki Marta Kristín Ásgeirsdóttir, f. 18.8. 1956. Börn þeirra eru: a) Ása Björg, f. 13.5. 1982, maki Garðar Axelsson, f. 15.7. 1979, börn Gylfi Kristinn, f. 9.8. 2005 og Arnar Már, f. 25.1. 2008, b) Þórður Már, f. 7.9. 1985; c) Birkir Örn, f. 14.1. 1987; d) Harpa Lind, f. 29.5. 1991.

Jóna starfaði sem húsfreyja mestan hluta ævinnar en vann einnig ýmis störf utan heimilisins. Sem ung kona starfaði hún í síld á Siglufirði og í mötuneyti hjá Halldóru Hallsteinsdóttur á Akranesi, þar sem hún kynntist manni sínum. Eftir að hún gifti sig og eignaðist börn vann hún á haustin við síldarsöltun en einnig á Prjónastofunni Evu í nokkur ár. Síðar starfaði hún á Borgarspítalanum í Reykjavík einnig í nokkur ár. Frá því að barnabörnin byrjuðu að fæðast helgaði hún sig að mestu húsfreyjustörfunum.

Útför Jónu fór fram í kyrrþey.

mbl.is/minningar