Eftir Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
FRAM kemur í bréfi bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya að Svavar Gestsson sendiherra hafi ákveðið að fjarlægja ákveðna hluta úr gögnum stofunnar áður en Össuri Skarphéðinssyni var afhent skýrsla um gang mála.
Í trúnaðarbréfi lögmannsstofunnar Mishcon de Reya, undirrituðu af Mike Stubbs, frá í gær til fjárlaganefndar Alþingis segir fyrst að stofan sé að fara vandlega yfir öll skjöl sín sem snerti Icesave-málið og bera þau saman við það sem birt hafi verið á vefsíðunni www.island.is, bæði þau sem séu öllum opin og einnig þau sem falli undir gr. 82 og Alþingi haldi leynilegum.
„Þetta mun taka nokkurn tíma en við getum strax afhent ykkur eftirfarandi skjöl sem ekki virðast vera tilgreind á vefsíðunni www.island.is:
1. Athugasemd frá Matthew Collings lögmanni þar sem fjallað er um hugsanlega málshöfðun vegna aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar, afhent hr. Svavari Gestssyni, formanni Icesave-nefndarinnar, dagsett 25. mars 2009.
2. Icesave – málefni og lausnir, kynning frá Mishcon de Reya til hr. Svavars Gestssonar, formanns Icesave-nefndarinnar, dagsett 26. mars 2009.
3. Þriðja leiðin, athugasemd til bráðabirgða sem fylgiskjal með kynningu frá Mishcon de Reya til hr. Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, dagsett 31. mars 2009.
Við höfum ennfremur fundið fjölda annarra skjala sem ekki virðast heldur vera tilgreind á vefsíðunni www.island.is, þ. á m. (i) innanbúðarminnisblað fyrri ríkisstjórnar Íslands um Icesave, (ii) bréfasendingar til alþjóðlegra stofnana eins og Eftirlitsstofnunar Efta og Ecofin, (iii) nokkur skjöl viðvíkjandi Landsbankanum og tillögur hans um Þriðju leiðina, og (iv) bréfasamskipti okkar við Icesave-nefndina og fjármálaráðuneytið, þ. á m. tölvuskeyti.“
Búist sé við að hægt verði að senda þessi gögn og önnur til þingsins síðar sama dag [þriðjudag]. Minnt er á að ráðgjöf lögmannsstofunnar hafi tekið mið af þeim markmiðum sem Icesave-nefndin hafi kynnt stofunni, það er að gera sem auðveldast að ná samningi við Breta og Hollendinga sem þjóðin réði við fjárhagslega og hægt væri að fá hana til að samþykkja.
Pólitískt viðkvæm málshöfðun fyrir Breta
Mishcon de Reya segir að í áðurnefndum skjölum sé minnst á hugsanlega málshöfðun vegna aðgerða breskra stjórnvalda. „Eins og við sögðum Icesave-nefndinni og fjármálaráðuneytinu um þetta leyti gæti slík málshöfðun gegn FSA [breska fjármálaeftirlitinu] verið pólitískt viðkvæm fyrir bresku ríkisstjórnina og gæti því ef til vill orðið gagnlegt tæki til að ná viðspyrnu gagnvart breskum stjórnvöldum í endanlegum samningum um Icesave.Þessi viðkvæma staða olli því að formaður Icesave-nefndarinnar ákvað að þetta atriði í kynningu okkar frá 26. mars 2009 yrði ekki með í seinni kynningu okkar frá 29. mars til hr. Össurar Skarphéðinssonar en hann fékk hana afhenta 31. mars á fundi í London. Þar sem formaður Icesave-nefndarinnar var skjólstæðingur okkar var það að sjálfsögðu hans að ákveða hvaða fyrirmæli við fengjum um innihald kynninganna. Urðum við og hr. [Svavar] Gestsson sammála um að meðhöndla skyldi þetta atriði málsins með geysilegri varúð og gæta algers trúnaðar þar sem það gæti dregið úr gildi hugsanlegrar viðspyrnu sem [málshöfðunin] gæti haft í för með sér í samningaviðræðum síðar við bresku stjórnina ef innihaldið læki út.
Við vitum að sjálfsögðu ekki hvort þessi viðspyrna var í reynd notuð í samningaviðræðum síðar um Icesave þar sem við tókum ekki þátt i þeim. Við vitum ekki heldur hvort gerð var einhver efnahagsleg eða fjárhagsleg greining eða hún notuð af hálfu Icesave-nefndarinnar í tengslum við þessar samningaviðræður og sú spurning er auðvitað býsna mikilvæg þegar túlka skal ráðgjöf okkar til fjárlaganefndar frá 19. desember 2009. Ef umrædd viðspyrna var ekki notuð á sínum tíma og sé það enn vilji Alþingis að hefja aftur viðræður við Breta, eins og við fjöllum um hér á eftir, myndum við sem fyrr mæla sterklega með því að þessar upplýsingar yrðu áfram trúnaðarmál. En ef Alþingi hins vegar vill ekki hefja aftur samningaviðræður við Breta og vill samþykkja Icesave-samninginn eins og hann liggur fyrir er það Alþingis að ákveða hvort það vill aflétta leynd á þessum upplýsingum.“
Lögmannsstofan segir að gagnlegt geti verið að fresta niðurstöðu í málinu um hríð „innan hóflegra takmarka“ til að ná fram „lagalegri fullvissu um nákvæma merkingu og áhrif Icesave-samningsins sem við álítum sem stendur að sé óskýr“ og kanna til hlítar hve mikill sveigjanleiki sé fyrir hendi til að semja á ný.
Samið verði aftur á „uppbyggilegum“ nótum
Fulltrúi Mishcon de Reya, Mike Stubbs, sem er einn af meðeigendum stofunnar, minnir á bréf sem stofan sendi fjárlaganefnd 19. desember að beiðni minnihluta nefndarinnar.„Við lögðum áherslu á það í ráðgjöf okkar að þetta mætti kynna og meta svo af hálfu beggja að um væri að ræða nánari útleggingu á ákveðnum smáatriðum og það yrði því hugsanlega ekki jafn erfitt og pólitískt viðkvæmt og ella, þ.e. að um sé að ræða uppbyggilega tillögu um að horfa fram á við (ekki aftur á bak) með það í huga að tryggja niðurstöðu sem væri árangursrík og endanleg.“
Stofan var fyrst kölluð til ráðgjafar af hálfu íslenskra stjórnvalda í upphafi kreppunnar í október 2008. Stubbs segir að lokum í bréfinu í gær að lögmannsstofan hafi ákveðnar hugmyndir um það hvernig best mætti nálgast stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi á ný ef reynt yrði að semja á ný. Hafi stofan þá í huga reynslu sína af samskiptum við fulltrúa frá ríkjunum tveim fram til þessa.