Guðlaugur Eyjólfsson
Guðlaugur Eyjólfsson

Guðlaugur Eyjólfsson fæddist í Merkinesi í Höfnum 1. nóvember 1918. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 19. desember sl. Foreldrar hans voru hjónin Eyjólfur Símonarson, f. 22.8. 1851, d. 22.8. 1931, og Helga Gísladóttir, f. 7.9. 1881, d. 29.12. 1957. Guðlaugur var yngstur af átta systkinum. Þau eru Páll, f. 22.9. 1901, d. 4.4. 1986, Helgi Gísli, f. 8.7. 1903, d. 24.8. 1995, Guðmundur, f. 13.1. 1905, d. 26.3. 1968, Björg, f. 13.6. 1907, d. 1.7. 1981, Ketill, f. 20.4. 1911, d. 11.10. 2006, Símon, f. 3.11. 1913, d. 11.12. 1982, Sigurveig, f. 18.11. 1915, d. 13.3. 2009.

Guðlaugur kvæntist 27.11. 1948 Margréti Sigríði Jónsdóttur, f. 13.6. 1925. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Sveinbjörn Pétursson, f. 18.2. 1894, d. 12.10. 1968, og Katrín Guðmundsdóttir, f. 3.1. 1896, d. 20.6. 1979. Margrét ólst upp í Stykkishólmi. Börn þeirra eru 1) Helga Eygló, f. 9.4. 1948, hún er gift Reyni Garðarssyni, f. 19.8. 1947, börn þeirra eru a) Margrét Reynisdóttir, f. 15.1. 1981, sambýlismaður hennar er Aðalsteinn Líndal Gíslason, f. 22.12. 1971. b) Sólveig Reynisdóttir, f. 15.9. 1982. 2) Jón Sveinbjörn, f. 30.6. 1949, hans kona var Jóhanna Bjarnadóttir, f. 22.1. 1950, d. 14.10. 1995, sambýliskona hans er Þórkatla Þórisdóttir, f. 9.4. 1952. Börn hans eru a) Guðlaugur Jónsson, f. 21.12. 1975, giftur Eygló Margréti Hauksdóttur, f. 16.4. 1976, þau eiga eina dóttur og fyrir á hún tvo syni. b) Guðrún Helga Jónsdóttir, f. 15.2. 1982. c) Pétur Jónsson, f. 10.12. 1986. d) Bjarni Þór Lúðvíksson, f. 26.2. 1973, sambýliskona hans er Elísabet Jónsdóttir, f. 24.8. 1982, þau eiga eina dóttur, fyrir á Bjarni tvo syni og eina dóttur.

Guðlaugur starfaði við sjómennsku til þrítugs, fyrst í Höfnum á Reykjanesi og í Vestmannaeyjum, síðan vann hann í sælgætisiðnaði, fyrst í Sælgætisverksmiðjunni Víkingi og síðan í Sælgætisgerðinni Opal, þar sem hann lauk starfsævi sinni.

Útför Guðlaugs fer fram frá Seljakirkju í dag, miðvikudaginn 30. desember, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku afi minn, minningarnar um þig eru miklar. Þú varst svo góður afi. Við gerðum svo margt saman. Við fórum í ferðalög saman bæði innanlands og til útlanda og svo má ekki gleyma öllum ferðunum okkar í kirkjuna okkar, Seljakirkju.

Afi minn, mig langar að minnast þess hvað þú varst duglegur. Garðurinn í Akraselinu var alltaf svo fallegur, þú hugsaðir svo vel um hann. Þú vannst lengi í Sælgætisgerðinni Ópal og ég gleymi því ekki þegar þú komst heim úr Ópal, allur bleikur á höndunum. Þá hafðir þú verið að drassera möndlur. Afi minn, þú bjóst til besta sælgætið og þá sérstaklega var brjóstsykurinn þinn góður. Þegar ég var 13 ára fórum við til Austurríkis með lúðrasveitinni sem Sólveig og Guðrún Helga voru í. Ég, mamma, pabbi og þú fengum að fara með í tónleikaferð til útlanda. Það var svo spennandi að fara fyrsta skipti til útlanda með afa. Þær áttu eftir að verða fleiri. Þegar þú varst 85 ára fórum við til Danmerkur, það var skemmtileg ferð, en mér er svo minnisstæð ferðin heim í flugvélinni. Þegar flugfreyjan kom með matarbakkann til þín, þá sagðir þú við hana: „Fyrirgefðu, ég borða ekki svona hænsni. Áttu ekki brauð handa mér?“ Ég hló mig máttlausa. Nei, það þýddi ekki að gefa þér kjúkling að borða, en það var eini maturinn sem þú vildir ekki. Haustið 2007 fórum við til Tenerife. Þú hafðir mjög gaman af þeirri ferð, við gengum mikið í þeirri ferð en þú hefur alla tíð verið duglegur að fara í gönguferðir. Árið 2008 var skemmtilegt hjá okkur en þá fórum við í stóra reisu til Parísar í ágúst. Þér þótti gaman að fara í Eiffelturninn, skoða fallegu kirkjurnar og hoppa í allar lestarnar, 89 ára gamall. Þú talaðir oft um hvað þessi ferð var skemmtileg. Hinn 1. nóvember 2008 varðst þú 90 ára gamall. Þá hélstu stóra veislu í Seljakirkju. Það komu mjög margir og þú varst glaður að hitta alla vinina og frændfólkið. Það var svo gaman að fara með þér og ömmu á æskuslóðir þínar í Hafnirnar. Ég fór oft með þér og ömmu þangað. Þá förum við niður að sjó í fjöruna og niður í Snoppu. Þú elskaðir að vera nálægt sjónum. Við sjóinn varstu alinn upp og vannst lengi á sjó svo hann þekktirðu vel. Fyrir rúmum mánuði fórum við saman í Hafnirnar og þú þekktir ennþá öll örnefnin og alla staðina.

Elsku afi minn, það var skrítið að fara í jólamessuna í Seljakirkju á aðfangadag og enginn afi sat mér við hlið. Við höfum alltaf farið í jólamessu saman frá því að ég man eftir mér, bæði í Seljakirkju og Grensáskirkju. Þú varst trúaður maður og fórst alltaf í kirkju á sunnudögum og ég kom oft með. Eftir messu fórum við oft í heimsókn til Lilla frænda í Kópavoginn og síðar í Miðskógana. Lilli var alltaf glaður að sjá frænda sinn en hann fékk líka alltaf appelsín og sælgæti í hverri heimsókn. Hann saknar þín mikið.

Elsku afi minn, mig langar að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og Steina. Amma saknar þín mikið en þú varst henni svo góður. Elsku afi, ég passa hana ömmu mína fyrir þig og Lilla frænda.

Guð blessi minninguna um þig.

Þín afastelpa,

Margrét Reynisdóttir.

Afi minn, hann Guðlaugur Eyjólfsson, var gull af manni sem hugsaði fyrst og fremst um fjölskylduna sína. Hagur fjölskyldumeðlima var í forgangi hjá honum og hann var alltaf með á hreinu hvað var að gerast í lífi allra afkomenda hvort sem það sneri að atvinnumálum, dagsdaglegu stússi eða veseni með hitt kynið. Kannski lagði hann þetta mikla áherslu á fjölskylduna vegna þess hvernig hann fór á mis við föður sinn og systkini vegna fátæktar á sínum yngri árum.

Guðlaugur hafði nú gaman af því að bregða á leik og gerðist það ósjaldan að hann hoppaði um á öðrum fæti, teygði sig og beygði á alla kanta og glotti út í eitt. Hann notaði líka ýmsa skemmtilega frasa eins og: „Það var nú kátt um kvöldið á Gili, það var hopp, það var hæ, það var hí.“ Samtímis þessum góðu frösum fylgdu gjarna skemmtilegar handahreyfingar og látbragð. Ég man einu sinni eftir okkur saman í umferðinni þar sem hann var í spyrnu við ungan mann á grænu ljósi. Þá var afi kallinn rétt rúmlega sjötugur og eiturhress að vanda. Mjótt var á munum en mig minnir að hann hafi nú þurft að láta í minni pokann að lokum. Það eyðilagði nú ekki sportið fyrir okkur og við skemmtum okkur konunglega. Svo var það einn góðan sólardag að afi hætti um hádegisbil í vinnunni, en þá unnum við félagarnir saman í sælgætisgerðinni Opal. Úti var glampandi sól og allir í sólbaði, þar á meðal samstarfskonurnar. Afi var voðalega ánægður með lífið þegar hann gekk út, vinkaði til okkar, vatt sér inn í Volvoinn sinn (beinskipta sporttýpan 440 GLT), setti í gang, spólaði út af planinu með tilheyrandi látum og brunaði í burtu. Ótrúlegur töffari á áttræðisaldri þar á ferð.

Við afi náðum alltaf mjög vel saman og höfum brallað ótalmargt í gegnum tíðina. Bílferðir voru afar vinsælar hjá okkur bíladelluköppunum, göngutúrar einnig og svo rólegheit í garðinum stóra sem þau hjónin áttu í Akraselinu. Stundum sátum við bara og röbbuðum um gömlu stundirnar í lífi afa sem ekki alltaf var dans á rósum, eða um skólann minn, stelpur og lífið almennt. Við vorum líka ótrúlega flinkir við að rugla og bulla einhverja svakalega steypu sem enginn skildi, ekki einu sinni við sjálfir.

Afi, mig langar svo að hafa þig enn hjá mér, heyra rödd þína, finna andardráttinn, finna lyktina af þér og upplifa vorið með þér, en ég veit að þú ert nú kominn á góðan stað. Bless afi minn kær.

Guðlaugur Jónsson.

Komið er að kveðjustund, elsku afi minn.

Á nýja staðnum þínum er gott að vera, þar ertu laus við verkina sem skertu orðið lífsgæði þín. Hafðu hugfast að fjölskyldan sameinast aftur og þá getum við haldið jólin saman eins og þú hafðir ráðgert þessi jól eins og alltaf. Undirbúningur jólanna var í fullum gangi hjá þér, þú hafðir séð fyrir jólagjöfunum, jólakortunum og varst búinn að kaupa hangikjötið fyrir jóladaginn. Ég vil þakka þér, afi, fyrir allar þær samverustundir sem við áttum og þann tíma sem þú gafst okkur með þér. „Hláturinn lengir lífið,“ trú þín, léttleiki og lífsgleði hefur efalítið hjálpað þér að ná svo háum aldri.

Ég kom inn í fjölskylduna sem fyrsta barnabarn ykkar ömmu þegar ég var eins árs gamall. Mig langar að þakka þér, afi minn, fyrir að taka mér sem þínu barnabarni og fyrir að taka virkan þátt í lífi mínu. Alltaf hef ég fengið hlýju og nóg að borða hjá ykkur ömmu.

Mér er ofarlega í huga hvað þú ert einstaklega góður og virtur maður, afi minn, og hvað þú hefur alltaf viljað öllum vel. Einu gildir hvort um er að ræða fjölskylduna, vinina eða vinnufélagana, alls staðar fer af þér sama orðsporið.

Manstu, afi, sumarið sem við unnum saman í Ópal, því sumri gleymi ég seint. Ótrúlegt var að fylgjast með þér vinna, hvað þú varst samviskusamur og ábyrgðarfullur en á sama tíma léttur í lundu og skemmtilegur. Allir nutu samvista með þér og vildu vera sem næst þér. Ég leit mjög upp til þín og þótti mikið til koma þegar þú komst til mín og baðst mig um að aðstoða þig á lagernum. Ég lærði mikið af þér og reyndi alltaf að vera þér innan handar.

Ég varðveiti minninguna um þig í hjarta mér þar til við hittumst næst, afi minn. Hafðu það sem allra best.

Ástarkveðjur,

Bjarni Þór.

Um hver áramót sit ég við útvarpið og hlusta á sálm séra Valdimars Briem:

„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, nú gengin er sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er runnið á eilífðar braut, en minning þess víst skal þó vaka.“

Þegar ég hlusta á sálminn leyfi ég mér að dvelja í fortíðinni um stund og hugsa um liðna tíð. Að þessu sinni mun ég sérstaklega hugsa til þeirra fjölmörgu minninga sem ég á um afa. Afa minn sem var alltaf til staðar í lífi mínu. Afa sem gaukaði að mér litlum miðum með þakkar- eða uppörvunarorðum þegar ég hafði aðstoðað hann við eitthvað eða hann sá að ég var döpur. Á þessari stundu fengi ég svo sannarlega miða frá afa með uppörvunarorðum: „Sólveig mín, látum ljósið vísa okkur veginn.“

Sem barn leit ég upp til afa. Hann fékk mig til að brosa, sagði skemmtilegar sögur, tók þátt í leikjum, kom með í ferðalög, hlýjaði köldum höndum, nefndi hluti skrýtnum nöfnum og sprellaði í afmælum. Betri afa var ekki hægt að eiga. Einu reglurnar sem ég þurfti að muna þegar ég hitti ömmu og afa var að heilsa, kveðja og þakka fyrir mig... og jú, ekki leika mér í kringum fína dótið í stofunni þeirra. Þegar ég varð eldri lærði ég að meta afa á annan hátt. Við fórum að tala hvort við annað sem jafningjar og áttum stundum saman „tveggja manna tal“ eins og afi kallaði það, en þá ræddum við um allt milli himins og jarðar. Það gat verið málefni líðandi stundar, rifja upp gamlar minningar, trúin á Guð eða einfaldlega að hlæja saman að einhverju sem okkur þótti fyndið. Ég hafði alltaf jafngaman af þessum stundum þar sem afi var oft hnyttinn í tilsvörum auk þess að koma stundum með góðar ráðleggingar. Mér leið sjaldan eins og ég væri að tala við mann sem væri 64 árum eldri en ég. Einu stundirnar sem ég upplifði aldursbilið var þegar hann rifjaði upp gamlar minningar. Margar þeirra voru stórfenglegar, aðrar skemmtilegar en sýndu svo sannarlega að afi hafði upplifað tímana tvenna. Afi sagði mjög skemmtilega frá og fengu margar frásagnirnar mig til að brosa. Undir lokin vissi afi að hans tími hér á jörð væri að styttast og ræddum við þau tímamót. Eins og mér fannst það erfitt að halda aftur af tárunum á þeirri stundu er ég glöð í dag að hafa átt samtalið við afa. Við trúum því bæði að eftir þessa jarðvist förum við til Guðs og þar trúi ég að afi sé í dag. Samtalið endaði því á orðunum: „Afi, ég mun sakna þín mikið en verðum við bara ekki að segja að við sjáumst seinna?“ Afi var sammála því. Já, afa sakna ég mikið. Því með honum tapaði ég miklum vini en umfram allt afa sem mér þótti svo vænt um. Ég er þó þakklát fyrir öll þau ár sem við áttum saman. Minningarnar um hann munu lifa áfram og ég mun vitna í þennan merka mann um ókomna tíð.

Elsku afi minn, takk fyrir allt. Við sjáumst.

Þitt barnabarn,

Sólveig.

Ég kynntist þér fyrst fyrir alvöru í ágúst 2005 þegar ég og Margrét, barnabarn þitt, tókum saman. Ég hafði vitað af bæði Margréti og þér löngu fyrr. Ég hafði séð þér nokkrum sinnum bregða fyrir á Brautinni frá 1996 þegar ég var að heimsækja Gumma sem bjó í næsta húsi við dóttur þína. Ég man að þú varst alltaf svo flottur í tauinu. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa kynnst þér. Þú og Margrét þín áttuð stóran þátt í því að mér og Margréti tókst að eignast okkar fyrstu íbúð. Ástarþakkir fyrir það Guðlaugur minn. Við gerðum einnig ýmislegt saman. Við fórum í tvær flottar utanlandsferðir. Önnur ferðin var til Tenerife. Það var frábært ferðalag. Við fórum m.a. í skoðunarferð með skútu á höfrungaslóðir. Í þeirri siglingu fannst skipstjóranum að þú værir rétti maðurinn til að leysa hann af við stýrið. Við fórum einnig í minigolf og áttum góðan dag þar. Það þarf varla að spyrja hver vann mótið með yfirburðum. Mér er einnig minnisstætt eitt kvöld þegar ég, Margrét og Tóti, vinur minn, ákváðum að kíkja í kaffi til þín í Árskógana. Þegar við komum sagðir þú: „Jæja, krakkar mínir, það er ekkert í skrallvarpinu (þitt orð yfir sjónvarp). Nú förum við í keilu.“ Við trúðum varla því sem við heyrðum. Ætlaði gamli maðurinn að fara með okkur í keilu, það yrði eitthvað skrautlegt og líklega algjört burst hugsaði ég. Nei, það var alls ekki, því þú varst með hæstu stigin þetta kvöld með tvær eða þrjár fellur og leystir glennur af fagmennsku þrátt fyrir að þetta væri þín fyrsta keiluferð. Síðari utanlandsferðin var farin í ágúst 2008 til Parísar. Þá varstu á nítugasta aldursári en ferðin var vel heppnuð. Við skoðuðum það merkilegasta í París; Eiffelturninn, kirkjur og þú gafst unga fólkinu ekkert eftir í lestarferðunum. Margrét þín fór á hjúkrunarheimilið Eir árið 2006 og það var erfitt fyrir þig að vera einn heima eftir 58 ára hjónaband en þið voruð gift í 61 ár. Síðustu mánuðina varstu orðinn mjög hjartveikur og var frábært að upplifa það þegar þú fluttir sjálfur inn á Eir hinn 4. nóvember sl. og fékkst loksins að flytja inn til konunnar þinnar eftir allan þennan aðskilnað. Þið voruð eins og nýgift þessar sex vikur sem þið áttuð saman. Svo var komið að kveðjustund þegar ég, Margrét og Helga Eygló komum til þín á Eir að kvöldi 18. desember. Við áttum gott spjall saman en mig óraði ekki fyrir því að það væri komið að endalokunum því þú hefur rifið þig upp úr veikindunum áður. Þú vissir þó betur, að kallið væri komið, því þú varst búinn að græja allt fyrir jólahátíðina, skrifa jólakortin, kaupa jólagjafir og skipuleggja jólamatinn fyrir fjölskylduna eins og alltaf. Þegar við kvöddum þig um kvöldið sagðir þú við Margréti: „Jæja, ég kveð,“ en Margrét sagði: „Nei, nei, afi minn, jólin eru að koma,“ en þú vissir að kallið var komið. Við hugsum um Margréti þína og takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.

Minning þín lifir í hjarta okkar og Guð veri með þér.

Aðalsteinn Líndal Gíslason.

Í dag kveðjum við Guðlaug Eyjólfsson, fyrrverandi verkstjóra. Með honum er genginn einn af þeim mönnum sem á fyrri helmingi síðustu aldar brutust úr viðjum fásinnis og fátæktar og lögðu grunninn að þeirri velferð sem við búum við í dag. Hans kynslóð ólst upp við nægjusemi, nýtni, sparsemi, vinnusemi og trúmennsku. Það voru þessi gildi sem voru í hávegum höfð á æskuárum hans. Fylgdi hann þeim alla tíð.

Guðlaugur stundaði sjómennsku frá Vestmannaeyjum sem vélstjóri. Síðustu starfsárin var hann verkstjóri hjá Sælgætisgerðinni Ópal.

Hann gerðist félagi hjá Verkstjórafélagi Reykjavíkur 1979. Hann var alla tíð afar stéttvís, sótti fundi félagsins allvel. Hann hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og ræddum við oft um málefni verkstjórastéttarinnar og þau mál sem honum voru hugleikin.

Ég þakka Guðlaugi Eyjólfssyni fyrir vegferð hans og votta Margréti, börnum og barnabörnum mína dýpstu samúð.

Veri hann að eilífu Guði falinn.

Aðalsteinn Dalmann Októsson.

Elsku Guðlaugur, okkur langar að þakka þær góðu stundir er við áttum með þér. Fyrstu kynnin í Ópal þar sem þú vannst í 30 ár og sást um brjóstsykurs- og karamellugerð af þinni snilld eða rjómatoffí sem var í uppáhaldi. Þú varst með þetta allt á tæru og eiginlega bragðast þetta sælgæti ekki eins vel nú og þegar það var í þínum höndum. Stundum skruppum við saman á kaffihús og vinátta okkar hélst þar til þú kvaddir. Við hittumst þrisvar á ári í kringum afmælin okkar og alltaf hringdir þú og óskaðir okkur til hamingju með daginn. Við fórum í Perluna eða einhvern annan huggulegan stað og þá mættir þú glansandi fínn í jakkafötum, með bindi og af þinni hugulsemi alltaf færandi hendi. Við sátum yfir kaffibolla og ræddum um lífið og tilveruna og tíminn flaug áfram. Við áttum margar góðar stundir. Við munum sakna þinnar tryggu vináttu og erfitt verður að fá ekki símhringingu frá þér á næsta afmæli.

Við biðjum Guð að gefa fjölskyldu þinni styrk í sorginni.

Nú ertu farinn elsku vinur minn.

Frá okkar veröld lausn fékk andi þinn.

Á himinsboga blika stjörnur tvær.

Hve brosi í augum þínum líkjast þær.

Nú gengur þú til fundar Frelsarans.

Friðargjafans, náðar sérhvers manns.

Þar englar biðja í bláum himingeim

og bíða þess þú komir heim.

(Svava Strandberg)

Takk fyrir allt.

Elín og Sigurlaug.

Stutt viðkynni sem skilja eftir góðar minningar, minningar um mann sem var einstakt ljúfmenni. Hann var glaðlyndur og skemmtilegur heim að sækja. Hann átti auðvelt með að setja sig inn í umræðu um menn og málefni, var réttsýnn og víðsýnn. Guðlaugur mundi tímana tvenna og hafði kynnst mörgum hliðum mannlífsins, erfiðum jafnt sem léttum og ljúfum. Eflaust voru það bæði sterk trú og lífsins skóli Guðlaugs sem mótaði og menntaði hann á þann veg að hann leit afar raunsætt og án fordóma á alla hluti og setti sig inn í málefni sem voru flókin og breytileg. Það var honum hugleikið hvernig íslensk þjóð gæti verið sjálfstæð áfram og hvernig mætti virkja það afl sem býr í fólkinu í landinu ásamt því hvernig þeir verst stæðu gætu fengið sem bestan stuðning.

Guðlaugur var alinn upp við sjóinn. Hann fór ungur að vinna fyrir sér til sjós og tengdust margar góðar minningar hans sjónum á einhvern hátt. Það var ævintýri líkast að sjá Guðlaug, þá fast að níræðu, koma í fjöruna í Höfnum þar sem hann átti heima sem barn. Þegar hann kom út úr bílnum og gekk að sjávarmálinu, og upplifði sjávarilminn og sjávarniðinn, þá var eins og hann umbreyttist í ungling sem hljóp um og hoppaði stein af steini, tíndi skeljar og geislaði af áhuga og ánægju.

Guðlaugur var vakandi yfir velferð fjölskyldunnar og ávallt að hugsa um hvernig hann gæti sem best stutt þau gæfuspor sem hver og einn hugðist stíga. Guðlaugur og Margrét höfðu verið samferða í lífinu í rúm sextíu ár. Þau voru samhent og dugleg en lífið var ekki alltaf auðvelt vegna heilsu hennar. Guðlaugur stóð alltaf vaktina og studdi konu sína og sýndi henni einstaka umhyggju og veitti henni styrk. Hún hefur misst mikið og bið ég henni guðsblessunar. Ég trúi og vona að heimkoma Guðlaugs til æðri heimkynna hafi verið góð og friðsæl og honum líði vel.

Þórkatla.