Skart Ekki hentar að selja alla gripi í brotamálm. Sumt ber að varðveita.
Skart Ekki hentar að selja alla gripi í brotamálm. Sumt ber að varðveita. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is VIÐSKIPTI með gull standa í blóma í kreppunni og nokkrir auglýsa að þeir kaupi gull, bæði lærðir gullsmíðameistarar og fleiri. Gullverð er enda hátt núna.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

VIÐSKIPTI með gull standa í blóma í kreppunni og nokkrir auglýsa að þeir kaupi gull, bæði lærðir gullsmíðameistarar og fleiri. Gullverð er enda hátt núna.

Flestir kaupendur gulls, í samráði við lögreglu, skrá viðskiptin undir nafni og sannreyna að seljandinn sé sá sem hann segist vera. „Viðskiptin ganga þannig fyrir sig að þeir eru með blöð sem viðkomandi þarf að fylla út, um sjálfan sig, staðfesta með undirskrift að gullið sé hans eign og ekki sé um þýfi að ræða,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vakni grunsemdir um að ekki sé allt með felldu sé lögreglan látin vita. Ómar Smári segir að þetta sé aðeins eitt og eitt tilvik, flestir þjófar reyni að koma þýfinu úr landi til að selja það þar.

„Ef það koma grunsamlegir menn inn til mín spyr ég þá að nafni. Þá labba þeir yfirleitt strax út,“ segir Magnús Steinþórsson gullsmíðameistari. Hann segist nokkrum sinnum hafa fengið inn til sín grunsamlegt fólk en aldrei keypt af því. Síðan hafi það fólk hætt að koma til hans.

Hákon Ísfeld Jónsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Jóns og Óskars, segir að auk eyðublaðanna séu öryggismyndavélar í búðinni svo allir sem komi þangað inn sjáist á mynd. Einnig vilji þeir ekki borga í lausum seðlum, frekar leggja inn á bankareikning. Helst komi til greina að neita fólki um viðskipti ef það er til dæmis í annarlegu ástandi eða komi óeðlilega oft með mikið magn af skartgripum. Þau tilvik séu hins vegar afar fá. Það fólk viti að ekkert verði keypt af því og það komi því ekki inn til þeirra.

Þeir sem komi til að selja gull séu yfirleitt eldra fólk sem á mikið af skartgripum frá löngum tíma.

Gullverð er hátt

Verð á gulli hefur hækkað mikið hér á landi á síðustu tveimur árum. Algengt var árið 2007 að gullsmiðir keyptu brotagull á sex til sjöhundruð krónur, fyrir hvert gramm af fjórtán karata gulli. Samkvæmt upplýsingum frá Jóni og Óskari er nú algengara að grammið kosti í kringum 1.500 krónur og leggst þar saman bæði meiri eftirspurn eftir gulli og lægra gengi krónunnar.

Hins vegar þarf fólk að vara sig á því að bjóða nýlega og óslitna skartgripi til sölu sem brotamálm, enda gæti vel fengist miklu hærra verð fyrir þá sem slíka, en ekki eftir vigt. Hið sama gildir um gamla erfða- eða fjölskyldugripi.