Halldór, Gunnar og Jón Lífi og verkum Halldórs Laxness hafa verið gerð verðug skil í ævisögum og sama má nú segja um Jón Leifs. Beðið er sögu Gunnars Gunnarssonar.
Halldór, Gunnar og Jón Lífi og verkum Halldórs Laxness hafa verið gerð verðug skil í ævisögum og sama má nú segja um Jón Leifs. Beðið er sögu Gunnars Gunnarssonar. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Jólaflóðið skilaði mörgum og ólíkum kreppubókum á land. Fræðimenn greindu nýliðna atburði, hver á sinn hátt.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Jólaflóðið skilaði mörgum og ólíkum kreppubókum á land. Fræðimenn greindu nýliðna atburði, hver á sinn hátt. Ljóðskáld á borð við Sindra Freysson, Hauk Má Helgason og Sigurð Pálsson tóku hrunið persónulegum tökum, og það leitaði líka á síður allnokkurra skáldsagna. Eftir syndafallið leitar Huldar Breiðfjörð hreinleikans í Færeyjum í Færeyskum dansi , Gæsku eftir Eirík Örn Norðdahl hefur verið lýst sem „hrunsbók með óvæntum snúningi“ og Bankster eftir Guðmund Óskarsson er sögð „hreinræktuð kreppubók“ – var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna, ef til vill sem fulltrúi kreppuverkanna. Og fleiri spunnu sögur út frá bankahruninu og atburðum á Austurvelli.

Kreppan er hinsvegar ekki áberandi í þeim skáldverkum sem undirrituðum þykir rísa hvað hæst. Í sagnasafni Gyrðis Elíassonar , Milli trjánna , opnast sannkallaðir ævintýraheimar undir lágstemmdu yfirborði þar sem stutt er í fantasíuna. Harmur englanna eftir Jón Kalman Stefánsson gerist fyrir rúmri öld vestur á fjörðum og er magnþrungið verk þar sem litapalettan er eins og í málverki eftir Robert Ryman; öll möguleg blæbrigði af hvítu. Og það er kalt. Þá er ljóðabók Matthíasar Johannessen, Vegur minn til þín , eitt hans mesta og merkasta verk til þessa.

Megintíðindi bókaútgáfunnar síðasta misseri má þó segja að séu þau, að höfundar beina sjónum frá kreppu og dægurþrasi að því sem meira máli skiptir, til langs tíma litið. Að andans jöfrum þjóðarinnar. Merkum listamönnum. Fólki sem skapar listaverk sem lifa af efnahagslegar hræringar; þetta eru bækur um fólk sem gerir okkur að sjálfstæðri – og vonandi stoltri – þjóð. Því á meðan bankajöfrar hafa viljað leggja niður sameiningartákn lítillar þjóðar, tungumálið, og hafa veðsett afkomu okkar, þá eru það listamennirnir sem rísa yfir gjaldþrotin, sýna hver við erum og skapa verk sem þjóðin getur verið stolt af og eru hennar eigin, skuldlaust.

Listamenn og stuðningsmenn þeirra

Á árinu komu út merk verk um listamenn, og um stuðningsmenn listanna. Loksins kom út ævisaga Snorra Sturlusonar, skráð af Óskari Guðmundssyni. Má segja að kominn hafi verið tími til. Pétur Gunnarsson skilaði af sér seinna bindi tvíleiksins um Þórberg Þórðarson. Í Jón Leifs – líf í tónum fléttar Árni Heimir Ingólfsson á eftirminnilegan hátt saman umfjöllun um líf og tónverk tónskáldsins, manns sem segja má að hafi verið jafn erfiður og mörg verk hans eru áheyrnar. Svavari Guðnasyni eru gerð verðug skil með stórri og vandaðri bók á aldarafmælinu, og í Mynd af Ragnari í Smára , eftir Jón Karl Helgason, er brugðið upp eftirminnilegum myndum af listamönnum og Ragnari sjálfum, en hann var listamaður í að styðja við skapandi fólk og sjá til þess að það gat einbeitt sér að sköpuninni.

Ólík efnistök ævisagnaritara

Allar eru þessar ævisögur vandaðar og skrifaðar af metnaði, en höfundarnir fara ólíkar leiðir. Pétur tekur Þórberg og samferðamenn hans persónulegum tökum; segist skrifa skáldfræðisögu og lýsir það aðferðinni ágætlega. Jón Karl fer óvenjulega leið að sínu verki; skoðar ljósmynd af Ragnari í Smára og fólki sem stóð honum nærri og lætur söguna gerast á þremur dögum. Óskar hefur úr annarskonar, og vissulega takmarkaðri, heimildum að moða hvað Snorra varðar en vinnur forvitnilega úr þeim og dregur upp fína aldarfarslýsingu frá tímum Sturlunga. Árni Heimir er hvað hefðbundnastur í tökum sínum á Jóni Leifs en gerir vel.

Fleiri athyglisverðar bækur um fullorðna og merka listamenn komu út fyrir jólin, þótt ekki sé um hefðbundnar ævisögur að ræða. Vert er að minna á Vefti , bók um feril Ásgerðar Búadóttur, og bók um verk Manfreðs Vilhjálmssonar arkitekts. Þessi lesari hefur fagnað öllum þessum góðu bókum, sem hjálpuðu honum að flýja þreytandi dægurþrefið, inn í ólíkt áhugaverðari heima listamanna.