,,ÉG er hrikalega ánægður og stoltur og ég lít á þetta val sem mikla viðurkenningu. Það er draumur allra að vera valinn í landsliðið,“ sagði Ólafur Guðmundsson við Morgunblaðið í gær en hinn 19 ára gamli leikmaður FH er eini nýliðinn í 17 manna æfingahópi íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið sem fram fer í Austurríki í janúar á næsta ári.
Spurður hvort hann hefði átt von á því að verða valinn sagði Ólafur: ,,Það væri mikill hroki að segja að ég hefði átt von á þessu. Landsliðið okkar hefur sjaldan verið jafn sterkt og mikið af mönnum úr að velja. Ég var í 18 manna æfingahópi fyrr í vetur og mér fannst ég standa mig ágætlega þar og ég hef staðið mig nokkuð vel í vetur. Þar af leiðandi fannst mér ég alveg vera inni í myndinni.“ | Íþróttir