Skuldir Vöruskiptajöfnuður mun rétt svo standa undir vaxtagreiðslum til útlanda á næstu árum.
Skuldir Vöruskiptajöfnuður mun rétt svo standa undir vaxtagreiðslum til útlanda á næstu árum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þess væri óskandi að geta endað árið á jákvæðum hugleiðingum um íslenskt efnahags- og viðskiptalíf, en því miður gefur hinn kaldi raunveruleiki sem við okkur blasir ekki tilefni til mikillar bjartsýni.

Eftir Ívar Pál Jónsson

ivarpall@mbl.is

Þess væri óskandi að geta endað árið á jákvæðum hugleiðingum um íslenskt efnahags- og viðskiptalíf, en því miður gefur hinn kaldi raunveruleiki sem við okkur blasir ekki tilefni til mikillar bjartsýni. Erlend skuldsetning þjóðarbúsins er slík að vöruskipta- og þjónustujöfnuður mun rétt svo standa undir vaxtagreiðslum til útlanda á næstu árum og svo ekki þegar afborganir af Icesave-skuldinni hefjast árið 2016. Þetta segir spá IFS-greiningar okkur og er þó miðað við að vöruskiptajöfnuður verði meiri og jafnari en nokkru sinni fyrr í viðskiptasögu þessarar þjóðar.

Ofan á þetta bætist að atvinnulífið er mestallt komið í hendur ríkisins, beint eða óbeint. Bankarnir, sem ríkið stofnaði í kjölfar efnahagshrunsins í fyrra, hafa tekið ofurskuldsett fyrirtæki yfir. Allur gangur virðist vera á því hvort hlutur ríkisins í þeim er boðinn upp eða hvort ríkisbankarnir taka þá yfir. Í sumum tilfellum er eigendum meira að segja leyft að véla um reksturinn áfram, þrátt fyrir að eiga fyrir löngu að hafa misst eignarhaldið vegna óábyrgs rekstrar sem fólst aðallega í óhóflegum lántökum.

Þannig hljóta sum fyrirtæki, þau sem voru ef til vill verst stödd, fyrirgreiðslu og niðurgreiðslu ríkisbankanna, í samkeppni við félög sem stóðu e.t.v. betur og voru rekin á ábyrgari hátt. Slíkt ástand er auðvitað óþolandi og ýtir ekki undir góðan og ábyrgan rekstur. Hér skortir á skýrar leikreglur, þar sem kveðið er á um að atvinnulífinu skuli sem allra fyrst komið í hendur einkaaðila aftur – leikreglur sem ganga jafnt yfir alla.

Ef þetta væri ekki nóg taka nú um áramótin gildi víðtækar skattahækkanir, sem þrengja verulega að atvinnulífinu og takmarka möguleika okkar á því að hífa okkur upp úr kanínuholunni. Ríkisstjórnin hefur ekki reynst þess megnug að lækka útgjöld ríkisins svo nokkru nemi, jafnvel þótt þau hafi aukist gríðarlega síðustu ár. Með efnahagslægðinni hrynja tekjur ríkisins og eina hugmyndin sem stjórnvöld fá er að auka „tekjuöflun“ með því að hækka tekjuskatt, tryggingagjald og hækka virðisaukaskatt upp í þann hæsta í heimi. Þar að auki er skattkerfið flækt til muna með þrepaskiptingu, skattlagning á arðgreiðslur aukin og svo mætti lengi áfram telja. Þetta kallar maður að slátra mjólkurkúnni.

Staðreyndin er nefnilega sú, eins og vikið var að hér í byrjun, að íslenska hagkerfið þarf að standa undir gríðarlegum erlendum skuldum á næstu árum. Hér þarf að afla gjaldeyris, því vandamálið verður ekki leyst með því að prenta íslenskar krónur. Auknar álögur á einstaklinga og fyrirtæki hjálpa ekki til í því efni. Þaðan af síður verður það þjóðarbúinu til heilla að hefja fyrningu aflaheimilda, eins og búið er að samþykkja að verði gert hinn 1. september á árinu sem nú fer í hönd. Fyrning aflaheimilda grefur undan rekstrargrunni þessa undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar, því útgerðir hafa ekki vissu um að þær hafi nægar aflaheimildir, hyggist þær til dæmis fjárfesta í nýju skipi.

Þetta illklífanlega fjall, sem við stöndum nú frammi fyrir, er manngert. Hið almáttuga opinbera hefur mokað í þennan haug af ódrepandi eljusemi, árum og áratugum saman. Rót vandans má rekja til þeirrar peningamálastefnu sem ríkt hefur í alþjóðlega hagkerfinu, þar sem seðlabankastjórar hafa handstýrt verði á fjármagni eftir „aðstæðum“. Þannig gerði seðlabanki Bandaríkjanna fjármagn fast að því ókeypis til að koma í veg fyrir að hagkerfið fengi slæma lendingu eftir hina svokölluðu netbólu árið 2001. Bankinn kom í veg fyrir að þeir sem höfðu skuldsett sig of mikið yrðu gjaldþrota og að hagkerfið lagaði sig að breyttum raunveruleika. Ódýrt eða ókeypis fjármagn flæddi yfir heiminn, meðal annars Ísland. Það nýttu íslenskir bankar sér til hins ýtrasta, í og með í skjóli þess að þeir voru taldir njóta ábyrgðar íslenska ríkisins. Bankakerfið óx langt fram úr íslensku efnahagslífi og bólan sprakk á endanum, þegar bankarnir gátu ekki lengur rúllað skuldabagganum á undan sér með því að taka frekari erlend lán. Nú er íslenska ríkið að leika sama leikinn og bankarnir á sínum tíma, en vonandi ekki með sömu afleiðingum.

UMMÆLI ÁRSINS

Ríkur maður á Bahama

„Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.“

Steingrímur J. Sigfússon

fjármálaráðherra, 23. mars.

„Ef ég sæi fyrir hvernig gengi krónunnar mun þróast væri ég ekki í þessu starfi, heldur ríkur maður á Bahamas.“

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, 10. desember, á kynningarfundi um stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans.

„...ekki líður sá dagur að ég hugsi ekki um þetta Icesave-klúður.“

Björgólfur Thor Björgólfsson, 23. júní, í bréfi til

Illuga Jökulssonar.

„...þegar og ef höftunum verður aflétt...“

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, 22. desember,

um gjaldeyrishöftin.

„Gjaldeyristekjur munu ekki nægja til að greiða niður erlend lán fyrstu árin eftir að afborganir Icesave-samningsins hefjast og myndi erlend skuldastaða fara vaxandi þrátt fyrir að allar gjaldeyristekjur væru nýttar til að greiða af erlendum lánum.“

Sérfræðingar IFS-greiningar, í áhættumati vegna

Icesave-samningsins sem þeir gerðu að ósk

fjárlaganefndar Alþingis og birt var 23. desember.

„Skuldir Álftaness eru ofmetnar.“

Sigurður Magnússon, bæjarstjóri Álftaness, 15. desember.

„Mér finnst þetta um það bil vera síðasta lánið undir sólinni sem ætti að afskrifa fyrr en fullreynt er með innheimtur á því.“

Steingrímur J. Sigfússon 9. júlí, um fréttir

af beiðni Björgólfsfeðga um þriggja milljarða

króna afskriftir hjá Nýja Kaupþingi.

„Ég blanda mér ekki inn í einstök mál í þeim efnum. Ég hvorki má það né get.“

Steingrímur J. Sigfússon 3. nóvember,

spurður um fregnir af hugsanlegum tugmilljarða

afskriftum Haga og 1998 í Nýja Kaupþingi.

„Gjaldeyrishöftin eru að gera okkur að afdal í Evrópu og menn verða að snúa þeirri þróun við sem allra fyrst. Íslenskir sparifjáreigendur eru óttaslegnir og höftin gera það að verkum að þeir geta ekki dreift áhættu sinni. Á sama tíma horfa þeir fram á stórauknar skattaálögur og í ljósi þessa óttast ég að ástandið gæti farið að líkjast því sem var í Austur-Evrópu í gamla daga þegar neðanjarðarhagkerfi kringum gjaldeyrisviðskipti þrifust.“

Margeir Pétursson í viðtali við viðskiptablað

Morgunblaðsins 24. desember.

„Ríkið virðist ekki gera sér grein fyrir alvöru vandamálsins og hefur greinilega ekki forgangsraðað útgjöldunum nægilega.“

Jón Daníelsson, dósent í fjármálum, 29. desember. Greiðslur ríkisins af lánum á næsta ári munu

nema um 40% af tekjum og 60% árið 2011,

miðað við bjartsýnislega spá um þróun

tekna ríkissjóðs á næstu árum.