Tilræðismaðurinn Umar Farouk Abdulmutallab er í fangelsi FBI.
Tilræðismaðurinn Umar Farouk Abdulmutallab er í fangelsi FBI. — Reuters
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is BRESK yfirvöld óttast að Jemen sé orðið að vígi nýrrar kynslóðar hryðjuverkamanna sem tengjast al-Qaeda.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

BRESK yfirvöld óttast að Jemen sé orðið að vígi nýrrar kynslóðar hryðjuverkamanna sem tengjast al-Qaeda. Vitað er að nokkrir breskir ríkisborgarar hafa fengið þjálfun í hryðjuverkum í leynilegum búðum í Jemen á árinu, að því er breska dagblaðið The Guardian hefur eftir embættismönnum í London.

Nígeríumaðurinn Umar Farouk Abdulmutallab, sem reyndi að sprengja farþegaþotu í loft upp á leiðinni til Detroit í Bandaríkjunum, er á meðal þeirra sem hafa verið í þjálfunarbúðunum í Jemen. Hann er nú í fangelsi bandarísku alríkislögreglunnar í Michigan-ríki og sagði við yfirheyrslu að hann væri einn af mörgum ungum mönnum sem hefðu fengið þjálfun í sprengjutilræðum og hygðust sprengja bandarískar farþegaþotur í loft upp, að sögn bandaríska sjónvarpsins ABC .

Yfirvöld í Jemen staðfestu í gær að Abdulmutallab hefði dvalið þar í landi frá ágúst þar til í byrjun þessa mánaðar.

Hótar fleiri hryðjuverkum

Hreyfing sem nefnist al-Qaeda á Arabíuskaga gaf í gær út yfirlýsingu þar sem hún kvaðst hafa staðið fyrir tilrauninni til að sprengja farþegaþotuna í loft upp yfir Detroit á jóladag. Hreyfingin starfar í Jemen og Sádi-Arabíu og er undir stjórn fyrrverandi aðstoðarmanns hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Ladens.

Hreyfingin sagði að tilraun Nígeríumannsins hefði mistekist vegna „tæknilegs vandamáls“. Hún hótaði fleiri sprengjutilræðum á Vesturlöndum á næstunni til að hefna loftárása sem stjórnarher Jemens hefur gert á stöðvar meintra liðsmanna al-Qaeda með aðstoð bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Hermt er að minnst 60 manns hafi fallið í loftárásum í austurhluta Jemens 17. og 24. desember.

Lofar að yfirvöld elti uppi ofstækismennina

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hét því í gær að þarlend yfirvöld myndu elta uppi alla ofbeldis- og öfgamenn sem ógnuðu Bandaríkjunum „hvort sem þeir koma frá Afganistan eða Pakistan, Jemen eða Sómalíu eða hvar sem þeir leggja á ráðin um árásir á Bandaríkin“.

Áður hafði Janet Napolitano, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, krafist svara við því hvers vegna Umar Farouk Abdulmutallab komst í flugvél til Bandaríkjanna með sprengju innanklæða þótt nafn hans hefði verið sett á gátlista yfir þá sem kynnu að tengjast hryðjuverkasamtökum.