[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikin og teiknuð. Leikstjóri: Betty Thomas. Aðalleikarar: David Cross, Zachary Lervy, Jason Lee. Með enskum og íslenskum röddum. 88 mín. Bandaríkin. 2009.

Það eru liðin ein 50 ár frá því tónskáldið Ross Bagdasasarian eldri, samdi fyrsta „íkorna“-lagið sitt. Fyrirbrigðið lagði heiminn að fótum sér og það þótti verulega fyndið að taka undir skrækar raddirnar sem urðu til í vélbúnaði hljóðveranna. Það heyrðist í þeim af og til, ekki síst í sjónvarpi, svo „íkornarnir“ féllu aldrei í gleymsku og dá. 2007 datt bjartsýnum og hugmyndaríkum framleiðanda í hug að nota hinar glaðbeittu fígúrur sem grundvöll leikinnar og teiknaðrar myndar um þessa undarlegu söngfugla. Nú er allt orðið framkvæmanlegt með hjálp stafrænu tækninnar og í sem fæstum orðum, þá varð hún ein vinsælasta mynd ársins, flestum á óvart. Sem þýðir aðeins eitt: Framhaldsmynd.

Hér er hún mætt með öllum sínum skrækjum, brellum og uppátækjum og þannig búið um hnútana að það er deginum ljósara að bíógestir eru ekki búnir að fá að sjá og heyra það síðasta til þessara vinalegu skoffína. Það er nefnilega búið að finna handa þeim ómissandi félagsskap kven-íkorna söngstjarnanna, Skrækjanna. Saman leggja þau undir sig heiminn og fjölga sér, hvað annað?

Ólíklegir til vinsælda ruddu íkornarnir sér leið á toppinn með frummyndinni og framhaldið stefnir á svipaðan hæðarpunkt.

Alvin og íkornarnir 2

hefur sama sjarma til að bera og forverinn, það er eitthvað svo sætt og vinalegt við kvikindin að smáfólkið hrín af einskærri kátínu og hún reynir ekki um of á þolrif þeirra eldri og ég er viss um að þeir geta hugsað sér að sjá eina til viðbótar.

Ástæðulaust að tíunda efnisþráðinn til hlítar, en myndin hefst á rokktónleikum með með íkornunum Teódóri, Alvin og Seville, það er ekki verið að glíma við einhverja aukvisa heldur sjálfa Kinks. Giggið endar með smáslysi og ekki gott að segja hvað verður úr þessu einstaka tríói þegar Skrækjurnar bjarga málunum.

Leikstjórinn er hin margreynda Betty Thomas, sem keyrir myndina áfram af miklu fjöri og kátínu svo jafnvel afar og ömmur og pabbar og mömmur halda vöku sinni og ró.

saebjorn@heimsnet.is

Hinir fræknu Badasarian-feðgar

ROSS Badasarian hitti heldur betur naglann á höfuðið þegar hann lét tækjabúnað í hljóðveri frumflytja nokkur lög árið 1958. Hér kvað við nýjan, skrækan og vélrænan tón, sem olli mikilli hrifningu. Einkum á meðal yngri áheyrenda en „flytjendurnir“, sem voru kallaðir Alvin and the Chipmonks, náðu til mun breiðari áheyrendahóps, komust í 1. sæti vinsældalistans með laginu Don't be Late. Röskum áratug síðar lést Ross og sonur hans tók við fyrirtækinu árið 1972. Universal samdi við hann um gerð sjónvarpsþátta á 10. áratugnum, þeir voru klúður. Það var ekki fyrr en 2007 að Alvin og íkornarnir náðu að leggja undir sig heiminn hjá kvikmyndaverinu Fox.

Sæbjörn Valdimarsson

Höf.: Sæbjörn Valdimarsson