[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórir Ólafsson , hornamaður Lübbecke , skoraði fallegasta mark ársins í þýsku 1. deildinni í handknattleik að mati sport1.de . Markið skoraði Þórir í leik gegn Flensburg .
Þórir Ólafsson , hornamaður Lübbecke , skoraði fallegasta mark ársins í þýsku 1. deildinni í handknattleik að mati sport1.de . Markið skoraði Þórir í leik gegn Flensburg . Róbert Gunnarsson , Gummersbach , á sjötta fallegasta mark ársins að mati sama miðils. Hægt er að sjá mörkin á mbl.is.

Sebastian Preiß , línumaður þýska handknattleiksliðsins Lemgo og þýska landsliðsins, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir fram á mitt árið 2013. Preiss hefur nánast ekkert leikið með Lemgo á þessari leiktíð vegna meiðsla og getur af þeim sökum ekki leikið með þýska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Austurríki 19. janúar.

Þótt Logi Geirsson og Vignir Svavarsson fái ekki endurnýjaða samninga sína við Lemgo virðast forráðamenn félagsins ekki ætla að leggja árar í bát. Danski landsliðsmarkvörðurinn Kasper Hvidt er sterklega orðaður við Lemgo þessa dagana en hann hefur áhuga á að losna frá FCK í Kaupmannahöfn þar sem félagið stendur höllum fæti og vill lækka laun leikmanna. Hvidt er ekki sáttur við launalækkun og er sagður horfa til Þýskalands .

Fari Hvidt til Lemgo mætir hann harðri samkeppni frá tékkneska landsliðsmarkverðinum Martin Galia sem nýverið framlengdi samning sinn við Lemgo til 2013.

Þá gengu forsvarsmenn Lemgo í gær frá samningi við Manuel Liniger , 28 ára gamlan handknattleiksmann frá Sviss . Liniger, sem er skytta, leikur nú með Kadetten , sama félagi og Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður. Liniger þekkir ágætlega til í þýska handknattleiknum eftir að hafa leikið með Wilhelmshavener frá 2005 til 2007.

Norski landsliðsmaðurinn í handknattleik, Kjetil Strand sem vann sér það til frægðar að skora 19 mörk í landsleik við Íslendinga á Evrópumeistaramótinu í Sviss fyrir tæpum fjórum árum, verður ekki áfram á meðal lærisveina Dags Sigurðssonar í Fücshe Berlin að lokinni þessari leiktíð. Samningur Strand við Berlínarrefina rennur út í vor og segist kappinn reikna með að halda heim til Noregs . Vel komi þó til greina að millilenda í Danmörku eitt keppnistímabil.