Ingibjörg Gísladóttir fæddist 10. september 1934. Hún andaðist 7. desember síðastliðinn.
Útför Ingibjargar fór fram frá Víðistaðakirkju 16. desember 2009.
Það er komið að kveðjustund. Við kveðjum kæra vinkonu og leikfimisystur til margar ára, hana Ingu, sem fallin er frá svo óvænt og allt of snemma.
Það var fyrir 22 árum að hún mætti í fyrsta leikfimitímann, hæglát og virðuleg með kímni í augum. Hún valdi sér stað í leikfimisalnum, þar sem hún stóð ætíð síðan. Enginn vogaði sér í plássið hennar Ingu, aftast í salnum við gluggann, það var hennar staður. Hún var einnig stofnfélagi í gönguklúbbnum okkar, Fjallafreyjum, þar sem útivist og göngur eru í hávegum hafðar, og þótt Inga tæki ekki mikinn þátt í göngunum okkar síðustu árin, voru útivist, hreyfing og náttúran hennar líf og yndi og ófáar golfferðirnar fór hún erlendis með fjölskyldu sinni. Inga hafði ákafleg góða og hlýja nærveru. Hún var umvefjandi fjölskyldukona sem var vakin og sofin yfir velferð afkomendanna. Við í leikfimihópnum hennar nutum líka góðs af hennar hlýju kímni og væntumþykju. Við kveðjum hana með söknuði og biðjum henni Guðsblessunar í nýjum heimkynnum. Við vitum að hún á eftir að kíkja til okkar í leikfimisalinn og vaka yfir fólkinu sínu, þótt hún sé farin héðan.
Elsku Hjördís og fjölskylda. Guð blessi ykkur og við vottum ykkur öllum okkar innilegustu samúð. Minningin um góða konu lifir.
Í minningu mætrar konu
margt um hugann fer.
Eitt líf með gleði og vonum,
úr heimi er farið hér.
Ég bið að hana taki
og geymi í faðmi sér,
Sá er yfir vakir
og heyrir allt og sér.
(Sv. G.)
Fyrir hönd Fjallafreyja,
Sigríður Skúladóttir.