Guðmundur Þ. Guðmundsson
Guðmundur Þ. Guðmundsson
,,ÞETTA voru heilmikil heilabrot. Ég var búinn að velta þessu fyrir mér í langan tíma og það er alltaf erfitt að velja á milli leikmanna.

,,ÞETTA voru heilmikil heilabrot. Ég var búinn að velta þessu fyrir mér í langan tíma og það er alltaf erfitt að velja á milli leikmanna. Það eru alltaf einhverjir sem eru fyrir utan hópinn sem gætu alveg eins verið í honum og þannig verður það alltaf,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari við Morgunblaðið í gær skömmu eftir að hann hafði kunngert 17 manna landsliðshóp sem hann er búinn að velja fyrir EM. Guðmundur segir að nokkrir óvissuþættir séu til staðar.

,,Þórir Ólafsson og Logi Geirsson eru kannski smá spurningamerki og það verður að koma í ljós hvernig þeim reiðir af. Þórir er búinn að hvíla undanfarnar vikur en er á réttri leið og það lítur vel út með hann. Hvað Loga varðar verður bara að koma í ljós þegar hann mætir til æfinga hver raunveruleg staðan á honum er,“ sagði Guðmundur en Þórir hefur átt við meiðsli að stríða í kálfa og Logi í öxl.

Möguleiki á breytingum

Takist íslenska landsliðinu að komast í milliriðla getur Guðmundur skipt út tveimur leikmönnum og skipt einum út til viðbótar takist landsliðinu að komast alla leik í undanúrslit.

,,Í fyrsta skipti er boðið upp á að skipta út leikmönnum og það er verulegur kostur. Þá má vel vera að það verði breyting á hópnum, annað hvort núna í undirbúningnum eða eftir riðlakeppnina,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Spurður út í valið á nýliðanum Ólafi Guðmundssyni sagði Guðmundur: ,,Þegar ég hef valið þessa hópa hef ég alltaf haft einn til tvo unga leikmenn með. Ég hef fylgst mjög vel með deildinni hér heima í gegnum sporttv.is og sjónvarpið og þar hef ég séð Ólaf standa sig mjög vel og ég var mjög ánægður með hann á æfingunum með landsliðinu fyrr í vetur. Ólafur er ekki bara góður sóknarmaður heldur getur hann spilað góða vörn og er mjög fjölhæfur leikmaður. Ég ákvað að taka hann inn í hópinn sem sýnir að það eru leikmenn heima í deildinni sem svo sannarlega banka á dyrnar.“

Lokaundirbúningur landsliðsins fyrir Evrópumótið hefst á mánudaginn en áður en flautað verður til leiks í Austurríki leikur liðið fimm leiki. ,,Við munum æfa tvisvar á dag frá og með mánudegi. Þetta verður stíft æfingaprógramm og síðan taka við fimm leikir. Þar gefst okkur tækifæri til að fínpússa hlutina og koma liðinu í gott stand fyrir Evrópumótið,“ sagði Guðmundur.

gummih@mbl.is