Hrúturinn 20. marz til 20. apríl Nýtt ár fær skrykkjóta byrjun hjá hrútnum sem þarf að búa sig undir vandræði eða rugling í tengslum við starfsferil, lífsstíl eða tilhugalíf; ekki er víst að honum takist að koma sínum málum í réttan farveg fyrstu mánuðina.

Hrúturinn 20. mars till 20. apríl

Nýtt ár fær skrykkjóta byrjun hjá hrútnum sem þarf að búa sig undir vandræði eða rugling í tengslum við starfsferil, lífsstíl eða tilhugalíf; ekki er víst að honum takist að koma sínum málum í réttan farveg fyrstu mánuðina. Hann ætti því að nota tímann til þess að horfa inn á við og einbeita sér að skapandi eða andlegum hugðarefnum þar til hægt er að stíga næstu skref. Hrúturinn hefur nægan tíma, þótt eðlislæg óþolinmæðin komi ef til vill í veg fyrir að hann sjái það, ekki síst eftir fyrstu vikuna í mars, en þá nær hann sér á strik á þeim sviðum sem áður voru nefnd. Í júní kemur algerlega óvæntur möguleiki upp með hvelli í lífi hrútsins. Því er best fyrir hann að vera á varðbergi. Sambönd hrútsins við aðrar manneskjur verða helstu vaxtarbroddar hans og leið til þroska á nýju ári, þegar ný tengsl myndast eða hann vex í burtu frá öðrum. Hann hressir hugsanlega upp á gömul sambönd eða endurmótar í samræmi við nýjar þarfir í starfi eða einkalífi. Einhleypi hrúturinn ætti að búa sig undir skuldbindingu sem breytir lífi hans á nýja árinu. Hrútar sem þegar eru lofaðir endurbyggja eða upplifa tilfærslu á valdajafnvægi í núverandi sambandi sem gerbreytir undirstöðum þess. Snurða gæti hlaupið á þráðinn í peningamálum á haustmánuðum, annaðhvort tekst hrútnum ekki að verða sér út um fjármuni sem hann þarfnast eða þá að hann þarf að semja upp á nýtt til þess að geta mætt núverandi skuldbindingum. Á vormánuðum er hugsanlegt að hrúturinn beini orku sinni inn á andlegar eða skapandi brautir. Viðfangsefni tengt vinnu eða heilsu getur af sér nýjar hugmyndir eða venjur sem munu koma til með að leiða til breytinga með tímanum. Á þessu ári á hrúturinn ekki að hika við að takast erfið verkefni á hendur eða gera róttækar breytingar á starfsferlinum.

NAUTIÐ 20. apríl til 21. maí

Nautið byrjar árið með látum og getur átt von á því að ná áfanga sem reynst hefur utan seilingar að undanförnu. Óvissa og ruglingur hafa gert nautinu erfitt fyrir við að leysa vandamál tengd starfsframa eða finna nýjan sjóndeildarhring, enda hefur það ekki vitað hvað það vildi í staðinn fyrir það sem það hefur. Nýir tengiliðir, vinir, ný vitneskja og nýjungar í formi hugmynda, hópa eða viðfangsefna verða ekki bara rúsínan í pylsuendanum, heldur pylsan öll á þessu ári. Nautið ferðast, nemur, víkkar sjóndeildarhringinn eða auðgar líf sitt í gegnum tengslanet, skoðar sjálft sig í stærra samhengi og finnur loks hvar það passar. Það mun hafa heppnina með sér á nýju ári og tækifærin munu ekki láta á sér standa, ef það gætir þess að leyfa hjartanu að ráða för. Samskipti við yfirvald af einhverju tagi reyna ef til vill á þolrif nautsins síðustu vikurnar í maí og það gætti átt erfitt með ákvarðanatöku. Lykillinn að áframhaldandi velgengni felst hins vegar í því að reiða sig á fallvötnin hið innra þar til innsæið og innblásturinn vísa veginn. Naut sem leita lífsfyllingar í tilhugalífinu eða eru á höttunum eftir fjármagni ættu að vera opin fyrir möguleikum sem koma upp á fjarlægum slóðum. Einhleypu nautin finna sér hugsanlega félaga í gegnum ævintýramennsku af einhverju tagi, eða með samskiptum við fólk sem er með annan bakgrunn en það sjálft. Lofuðu nautin víkka sjóndeildarhringinn með ferðalögum, námi eða nýjum vinum eða áhugamálum. Ferðalag eða ný hæfni sem nautið tileinkar sér gæti verið kryddið sem nauðsynlegt er til að hressa upp á tilveruna. Nautið má búa sig undir breytingar sem tengjast vinnu og heilsu í apríl og júní og þarf að leggja meira á sig en venjulega á báðum sviðum með því að takast nýjar skyldur á herðar og taka sér tak hvað varðar mataræði og hreyfingu.

TVÍBURINN 21. maí til 20. júní

Fjármunir eru möndullinn sem allt hverfist um á nýju ári, bæði þeir sem tvíburinn á einn og fé sem hann hefur aðgang að eða á í félagi við aðra. Hann á að treysta undirstöður sínar með nýjum eða breyttum áætlunum, ráðgjöfum og félögum. Stundum þarf að tæma bátinn til þess að koma honum aftur á flot. Stundum þarf að draga hann að landi til þess að sinna nauðsynlegum viðgerðum. Brimaldan ber tvíburann að nýjum sjóndeildarhring á nýju ári og aska fortíðarinnar verður að frjósömum jarðvegi nýrra ráðagerða og áætlana. Tvíburinn eflist með félaga sem lumar á réttu aðferðunum og býr yfir sveigjanleika og skilningi en jafnframt nægri staðfestu. Þeir sem finna rétta félagann uppgötva nýja styrkleika og traustar undirstöður fyrir lífið framundan. Leiðin framundan er einungis ætluð þeim hugumstóru og tvíburinn mun þurfa að reiða sig á fleira en sína meðfæddu snilli og viðbragðsflýti til þess að nýta spilin sem hann er með á hendi. Tvíburinn á að einbeita sér að lífsmátanum sem hann vill, en hann þarf að hafa fyrir honum og vilja taka áhættu. Einhverjir tvíburar finna ástina á árinu eða endurnýja ástarsamband, aðrir munu hugsanlega axla aukna ábyrgð vegna barns sem ef til vill er með sérþarfir. Framundan er nýtt líf. Ef tvíburinn vill eitthvað á hann að skuldbinda sig á nýju ári, sama hvað það útheimtir. Núna er tíminn til að marka stefnuna og nema ný lönd. Þótt ábyrgðin hvíli á tvíburanum mun handleiðsla sanns félaga vísa veginn og reynast stuðningurinn sem hann þarf mest á að halda. Hvort sem um er að ræða ástarsamband eða náið samband af öðru tagi á tvíburinn að njóta þeirrar gjafar og jafnvægisins sem það færir og vilja leggja eitthvað á sig. Hann á að leitast við að halda áhyggjum og streituvöldum í lágmarki á nýja árinu og herða sig í markmiðum sem efla huga og líkama.

KRABBINN 21. júní til 22. júlí

Starfsvettvangur, mannleg samskipti og málefni fjölskyldunnar verða í brennidepli hjá krabbanum á nýja árinu. Þolraunir krabbans snúast um náin samskipti, hvað hann á, hvernig honum líður og spurnarfornöfnin hver og hvernig. Nýju ári fylgir afl breytinga, sem munu endurskapa hann og tilvist hans með tímanum, sem og samskiptin við þá sem hann tengist og þá sem hann reiðir sig á. Í sumum tilvikum kemur að endalokum, kannski með dramatískum tilþrifum, eða þá að samband rennur sitt skeið náttúrulega á enda. Samskipti við félaga eða náið samstarfsfólk verða með karmískum blæ, krabbinn þarf að hnýta lausa enda og kveða niður drauga svo hann hafi frelsi til þess að fara nýjar leiðir, eða ákveða að skuldbinda sig frekar til þess að fá notið sambands sem virkilega nærir hann. Einhverjir krabbar laðast ef til vill þráfaldlega að einstaklingi eða kringumstæðum sem kenna honum að gefa eða eiga samskipti á nýjan og öðruvísi hátt. Krabbinn á að byrja eitthvað nýtt eða klára dæmið í stað þess að festast í að hugsa um hvort hann eigi að fara til hægri eða vinstri. Valdamiklir og ákafir einstaklingar munu fá augastað á krabbanum, hver af sínum ástæðum. Fram á sjónarsviðið kemur hugsanlega einhver sem þykir krabbinn eftirsóknarverður, eða sem keppinautur, og þá þarf hann að gæta þess að haga sér ekki samkvæmt því sem aðrir vilja eða halda að þeir þurfi. Fólk prófar hann eða fer fram á hluti sem þenja mörk þess sem hann þekkir eða er vanur að gera til hins ýtrasta, í einhverjum tilvikum byrjar krabbinn samband sem breytir lífi hans. Krabbinn fær tök á því að hressa upp á starfsframann á nýja árinu í gegnum tengslanet, með því að breyta til eða færa út kvíarnar eða fara í nám eða ferðast og á að reyna að horfa á hlutina í stóru samhengi megnið af árinu.

LJÓNIÐ 23. júlí til 23. ágúst

Himintunglin örva ljónið til þess að taka yfirvegaða áhættu á nýju ári. Ferðalög, tjáskipti, menntun, viðskipti eða viðskiptaáætlanir verða í brennidepli, það finnur hjá sér hvöt til þess að skipta um staðsetningu, liðsmenn eða jafnvel leikreglur. Ljónið finnur sig knúið til þess að yfirfara og endurnýja daglegar venjur sínar og grafa djúpt eftir rótum tiltekins vandamáls eða til þess að styrkja undirstöðurnar. Róttækar breytingar gera kannski vart við sig í nánu sambandi, rómantískar tilhneigingar, eða hreinn ruglingur og ekki verður alltaf jafn auðvelt að greina þar á milli. Um mitt árið fær ljónið hugsanlega innsýn í eigin framtíð, dyr opnast í fjarska. En eitt er víst og það er að ljónið þarf að skipta um næringu, gildir það jafnt um það sem ætilegt er, áhrif úr umhverfinu, vinnuaðstæður, upplýsingar eða einstaklinga. Ljónið er kattardýr með stíl og á að hafa það í huga í viðleitni sinni við að koma lífi sínu í þann farveg sem það vill. Ef svo virðist sem ekkert gangi upp fyrstu mánuði ársins á ljónið að hægja á sér og endurskoða nálgun sína og aðgerðaáætlun. Hugsanlega finnur það fyrir vonbrigðum eða vonbrigði annarra bitna á því en þolinmæðin er eina nytsamlega dyggðin á meðan þetta ástand varir. Í apríl er ekki óhugsandi að gamlar áhyggjur tengdar peningum eða eyðslu komi upp á yfirborðið á ný. Ef til vill gengur ljónið frá samningi eða greiðsluáætlun, það á að minnsta kosti að fara vandlega yfir eignir og skuldir. Einhverjir í ljónsmerkinu þurfa hugsanlega að fást við nýjar aðstæður tengdar vinnu í lok janúar eða ágúst, sem breyta ábyrgðarhlutverki eða verksviði ljónsins. Aðrir skipta ef til vill um vinnu vegna óánægju með álag eða tilhögun. Hver sem ástæðan er á heilsusamlegt líferni að vera þungamiðjan í öllum ákvörðunum á árinu.

MEYJAN 23. ágúst til 23. september

Meyjan er hvött til þess að herða upp hugann á nýju ári, óstöðugleikinn sem hún kann að hafa upplifað í seinni tíð líður senn hjá. Áhyggjuefni tengt heilsu eða nánu sambandi sem hefur leitt til einmanaleika eða aukinnar ábyrgðar ætti að verða úr sögunni eftir mitt ár. Svo virðist sem meyjan hafi byrjað upp á nýtt á einhvern máta, endurmetið og snyrt líf sitt ef svo má segja, og þar með búið til rými fyrir einstaklinga eða tækifæri sem munu koma til með að gera henni gott. Meyjan mun samt sem áður þurfa að aðlaga sig frekar á nýju ári, þá líklega í hjónabandi eða samskiptum við viðskiptafélaga. Þótt það geti reynst óþægilegt eða streituvaldandi munu breytingarnar leiða til þess að meyjan losnar við eitthvað af hömlunum og skyldunum sem hafa hvílt á henni að undanförnu. Meyjan þarf að leggja nokkuð á sig til þess að auka öryggi sitt á árinu, í flestum tilvikum er um að ræða fjárhagslegt öryggi, en ekki öllum. Endurskipulagning, langtímaáætlanir og naflaskoðun sem leiðir til þess að meyjan finnur ónýttar auðlindir innra með sér eru þýðingarmikil viðfangsefni á næstunni og ekki ólíklegt að örlagaríkar ákvarðanir fylgi í kjölfarið. Þessi vinna getur líka verið ávísun á aukið sjálfstraust og nýtt gildismat. Meyjan fær gott tækifæri til þess að umbreyta sjálfri sér og öðlast aukinn skilning á eigin þörfum, hvernig aðrir eiga að koma fram við hana svo henni finnist hún njóta umhyggju, en það gildir að sama skapi um hvernig hún á að fara að því að sýna öðrum umhyggju. Óvæntar breytingar gætu orðið á fjármálum meyjunnar í júlí og ágúst sem kalla á endurskipulagningu, ekki aðeins í peningamálum heldur á gildismati og því hvernig hún skilgreinir sjálfa sig. Ekki er ólíklegt að meyjan fyllist meiri bjartsýni og von á næstunni.

VOGIN 23. september til 22. október

Vogin virðist eiga mikilvægt ár í vændum, eins og fleiri, þar sem hún verður reiðubúin til þess að taka rækilega til í lífi sínu og beina sjónum að gæðum í stað magns. Nú fer í hönd tímabil sem auðveldar henni að draga úr óreiðu og ringulreið. Þessi orka verður fyrir hendi í rúmlega tvö ár til viðbótar og mun líklega vekja löngun hjá voginni til algerrar endurnýjunar á lífi sínu, þar sem úr sér gengin sambönd, viðhorf og aðferðir verða látin lönd og leið og stefnan sem hún vill taka er metin upp á nýtt. Meiriháttar breytingar tengdar heimili eru ekki ósennilegar, annaðhvort í fjölskyldu eða einkalífi. Svo virðist sem upp komi aðstæður sem krefjast athygli vogarinnar og kalla á umskipti, nánar tiltekið í upphafi nýs árs og einnig í ágúst. Tækifæri til þess að venda sínu kvæði í kross koma upp á sama tíma, sem auðvelda voginni að byrja upp á nýtt þar sem það er nauðsynlegt. Mögulegt er að vogin þurfi að gera skyndilegar eða óvenjulegar breytingar á venjum sínum á vormánuðum og ekki óhugsandi að þær tengist heilsufari. Í júlí er ekki ólíklegt að reyni á sveigjanleika vogarinnar í samskiptum við aðra, ekki síst í parsambandi eða sambandi við viðskiptafélaga. Svo virðist sem einhverjir verði ekki jafn áreiðanlegir og venjulega eða þá að þeir munu hegða sér á óvæntan hátt, einhverra hluta vegna. Þar af leiðandi verður vogin ef til vill undir talsverðum þrýstingi eða þarf að axla meiri ábyrgð en henni þykir þægilegt. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að þetta tímabil getur jafnframt reynst mjög frelsandi, þar eð breytingarnar sem verða auðvelda voginni að horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni eða losa sig undan hömlum sem hún hefur glímt við. Góðar líkur eru á því að ástin verði á vegi einhleypra í vogarmerki í upphafi nýs árs.

SPORÐDREKINN 23. október til 21. nóvember

Svo virðist sem komið sé að kaflaskiptum hjá sporðdrekanum á nýju ári, hann losnar út úr aðstæðum sem hann hefur þurft að glíma við undanfarin misseri, hugsanleg tengdar vini, hópi sem hann tilheyrir eða barni annarrar manneskju. Hann gæti þurft að hnýta lausa enda sem tengjast fyrrgreindum aðstæðum snemma á árinu, en eftir það fær hann ráðrúm til þess að búa sig undir nýtt skeið í lífinu sem brátt verður innan seilingar. Þar sem um er að ræða undirbúningstímabil, ekki endilega nýtt upphaf þarf sporðdrekinn að gæta sín á því að reyna ekki að flýta fyrir þróuninni. Hann þarf að ganga í gegnum vissa atburði, öðlast skilning og jafnvel einhvers konar uppljómun sem mun auðvelda honum að ákveða í hvaða átt hann á að stefna síðar meir, þegar þar að kemur. Óvænt eða óvenjuleg þróun sem gæti orðið í júlí eða ágúst mun líklega opna nýjar leiðir af einhverju tagi eða auka skilning sporðdrekans á sjálfum sér, annaðhvort á sál eða líkama. Aukið innsæi gæti hugsanlega orðið til í janúar eða febrúar eða síðari hluta ágústmánaðar, í framhaldi af spennutímabili þar sem lífsviðhorfi sporðdrekans og skilningi hans á sjálfum sér og því sem knýr hann áfram er ögrað. Ekki er ólíklegt að hann endurmeti samband sitt við aðra, hugsanlega við systkini, eða önnur sambönd þar sem stuðningur er fyrir hendi á báða bóga. Einkalífið, fjölskyldan og eignir sporðdrekans eru líkleg uppspretta tækifæra og hamingju í lífi sporðdrekans á næstunni, í það minnsta fyrstu vikur ársins. Þá er rétti tíminn til að laga ágreining sem mögulega hefur komið upp, reyna að stækka fjölskylduna eða flytja í stærra húsnæði. Í júní er ekki ósennilegt að annríki aukist til muna í lífi sporðdrekans og að breytingar verði á daglegum venjum, annaðhvort vegna aukinna verkefna eða heilsufars.

BOGMAÐURINN 22. nóvember til 21. desember

Bogmaðurinn kveður árið með trukki og dýfu og byrjar fyrsta daginn kannski nokkuð laskaður, að loknum eftirminnilegum gleðskap. Árið sem nú fer í hönd markar hins vegar upphafið að nýjum 12 ára lærdóms- og lífsreynslukafla. Hvað eða hver sem verður á vegi bogmannsins síðari helming janúar gæti reynst hvatinn sem blæs honum í brjóst löngun til þess að leggja út í nýtt framtak af einhverju tagi. Möguleikinn á varanlegum breytingum á lífi hans er í farvatninu. Hvort sem um er að ræða nýtt fyrirtæki eða annan starfsvettvang mun bogmaðurinn tileinka sér nýja færni, annaðhvort með formlegri menntun eða ítarlegri þjálfun. Aðstæður verða jafnframt hagstæðar til langferða á nýja árinu, sem og fyrir skriftir, útgáfu eða stöðuhækkun. Nú er svo sannarlega rétti tíminn til þess að fara yfir á næsta stig og eflaust mun bogmaðurinn víkka sjóndeildarhringinn svo um munar. Menning og andleg hugðarefni fá hugsanlega meira vægi á heimili bogmannsins á nýja árinu og líklegt að hann dusti rykið af þekkingu sem legið hefur í láginni, dragi fram gamlar bækur og taki aftur til við jóga og hugleiðslu, svo dæmi sé tekið, eða álíka. Einnig virðist liggja fyrir bogmanninum að stækka við sig á nýju ári, hann mun að líkindum selja eitthvað sem tengist heimilinu eða heimilið sjálft og ef svo fer verður niðurstaðan honum furðanlega hagstæð og fjölskyldan og fjölskyldumál verða í brennidepli. Margir í bogmannsmerki finna hjá sér hvöt til þess að festa ráð sitt á nýju ári á meðan aðrir leggja út í nýtt ástarævintýri eða binda skyndilega enda á ástarsamband. Óvenjulegar og óhefðbundnar aðstæður og persónur í tilhugalífinu munu vekja áhuga bogmannsins. Hann ætti að vera heilsuhraustur á nýju ári, ekki síst ef hann heldur sig við sína hefðbundnu íþróttaiðkunar- og heilsuræktarrútínu.

STEINGEITIN 22. desember til 20. janúar

Alheimurinn virðist verða fremur vinveittur steingeitinni á nýju ári sem verður engu að síður fremur karmískt. Árið byrjar með fullu tungli í krabba á gamlárskvöld sem gæti leitt til óvenju mikillar tilfinningasemi. Áherslan verður á sjálfsmynd steingeitarinnar og parsambönd þetta árið. Á nýju ári ætti steingeitin að þróa þekkingu sína og færni á tölvur eða önnur tæki. Samskipti og ferðalög munu aukast, sem stækkar tengslanetið og ýtir undir skipti á hugmyndum og upplýsingum. Listræn færni og rithöfundarhæfileikar fá byr undir báða vængi. Líklegt er að steingeitin fái verðskuldaða viðurkenningu á árinu, en öllum vegtyllum mun fylgja aukin ábyrgð. Hún mun neyðast til þess að láta alla sóun lönd og leið og gefa vonlausar aðstæður upp á bátinn, til þess að bera eitthvað nytsamlegra og stöðugra úr býtum. Ef steingeitin hefur ekki sett sér langtímamarkmið eða borið skynbragð á örlög sín munu kringumstæður neyða hana til þess að skoða stefnuna sem hún á að taka í framtíðinni af ábyrgð. Þótt hún megi vissulega reiða sig á visku og leiðsögn annarra, væru það mistök að láta aðra um að taka ákvarðanirnar. Steingeitin á líka að forðast að falla í þá freistni að kenna öðrum um mistök eða rangar athafnir í fortíðinni, sama hversu vel henni líður með það. Hún mun ekki komast upp með að varpa sökinni á aðra en sjálfa sig. Það á sérstaklega við ef steingeitin hefur farið illa með trúnaðarstöðu eða vald. Með því að sætta sig við afleiðingar gerða sinna og taka í taumana í eigin lífi vaknar ábyrgðin og þroskinn sem hefja hana á æðra stig, þar sem raunverulega verður hægt að öðlast sanna velgengni og sátt. Steingeitin þarf hugsanlega að horfast í augu við gömul vonbrigði, mistök eða vanrækslu af einhverju tagi, en þá mun hún jafnframt fá annað tækifæri.

VATNSBERINN 21. janúar til 19. febrúar

Komandi ár verður ár vinsælda og áhrifa í lífi flestra vatnsbera, sem og árið sem auðveldar þeim að láta til sín taka. Nýtt ár ætti að verða öflugt hjá flestum sem eru í vatnsberamerkinu. Persónutöfrar og segulmagn vatnsberans er með mesta móti, hann heldur sig á beinu brautinni og verður yfirleitt léttur í lundu. Hjálpsemi hans vex á árinu, sem og áhugi á andlegum málefnum, og heilbrigt sjónarhorn á lífið og tilveruna kemur í veg fyrir að álag og annir hversdagsins nái of miklum tökum á honum. Áhugi vatnsberans á því að víkka sjóndeildarhringinn vex, hugsanlega með aukinni menntun, ferðalögum eða kynnum af öðrum menningarsvæðum og heimspeki. Með honum blundar þráin eftir róttækum breytingum á því hvernig hann sækist eftir því sem hann vill fá út úr lífinu. Kannski er vatnsberinn að spá í breytingar á útliti sínu eða framkomu. Ekki er ólíklegt að þróun verði í fjármálum eða í einkalífi, en líklegra að staðan verði óbreytt hvað varðar starfsvettvang. Reyndar má búast við því að ástarlífið blómstri ef vatnsberinn finnur fleiri skapandi leiðir til þess að tjá sig. Vatnsberinn heldur áfram á réttri leið í peningamálum á árinu og nær tökum á útgjöldum sínum, ekki síst frá apríl fram á mitt ár, en þá mun hann eiga auðveldara með að draga úr kostnaði. Frá og með ágúst er upplagt að endurskipuleggja fjármálin og byrja samningaviðræður. Vatnsberinn fær tækifæri sem leiða til aukins þroska í samskiptum við aðra í ársbyrjun, ekki væri vitlaust að taka sum sambönd til endurskoðunar og meta önnur úr fjarlægð. Hann á ekki að hika við að draga sig út úr aðstæðum sem á einhvern hátt þrengja að honum persónulega. Stærstu skrefin á þroskabrautinni verða tekin frá apríl fram í september og í október fær vatnsberinn tækifæri til þess að sjá viðleitni sína bera ávöxt.

FISKURINN 19. febrúar til 20. mars

Fiskurinn á fyrirtaks ár í vændum, persónuleiki hans nýtur sín til hins ýtrasta og himintunglin ýta undir hans náttúrulega þokka. Honum mun líka auðnast að betrumbæta líf sitt svo um munar, því máttur drauma hans margfaldast. Framundan er heillatími þar sem heimurinn lætur í ljós velþóknun sína á einstökum hæfileikum fisksins sem og útliti. Hann þarf hins vegar að gæta sín á því að reyna ekki um of að ganga í augun á öðrum, með mikillæti eða með því að vilja sýnast meiri en hann er. Það er líka alger óþarfi, fólki mun hvort eð er þykja fiskurinn framúrskarandi. Fiskurinn þarf að gæta þess að bæta ekki á sig um of í öllum gleðskapnum, en ef hann getur haldið aftur af sér munu heilsa hans og vellíðan ekki bíða skaða af. Fiskar sem gengið hafa of nærri sér undanfarin misseri mættu hins vegar vel við því að fá smákjöt á beinin. Ágætis tækifæri blasa við fiskinum í peningamálum frá og með júnímánuði, en hann þarf samt að gæta þess að eyða ekki um of. Síðsumars ætti hann að einbeita sér að einhverju sem hefur verið að angra hann og greiða úr því, ekki síst um miðjan ágúst. Fiskurinn á óvenjulegt og örlagaríkt ár í vændum. Tilhugalífið ætti að verða líflegt frá og með ágúst en fiskar sem eru í sambandi mega eiga von á vandræðum heima fyrir á sama tíma og ættu því að fara varlega. Heimili og fjölskylda verða ekki jafn ofarlega í forgangsröðinni á árinu og venjulega því að þessu sinni ætlar fiskurinn að einbeita sér að sjálfum sér og sínum eigin þörfum. Ef ætlunin er að byrja í líkamsrækt er mars besti tíminn en fiskar sem hafa tilhneigingu til svartsýni og sótthræðslu ættu að fara varlega frá og með apríl og muna að hindranir hafa tilgang og leiða til lækningar, ef maður yfirstígur þær.