Samskiptavefur Maðurinn tældi stúlkurnar til sín á vefnum.
Samskiptavefur Maðurinn tældi stúlkurnar til sín á vefnum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður á þrítugsaldri, sem sakaður er um kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum, skuli sæta í gæsluvarðhaldi fram til 3. febrúar.

HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður á þrítugsaldri, sem sakaður er um kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum, skuli sæta í gæsluvarðhaldi fram til 3. febrúar.

Maðurinn komst í kynni við stúlkurnar á Facebook-samskiptavefnum og fékk þær í kjölfarið til að hitta sig.

Í úrskurði héraðsdóms segir m.a. að í skýrslu sem tekin var yfir einni stúlkunni, sem er sextán ára gömul, sé að finna sláandi lýsingar á afar grófum kynmökum sem stúlkan kvaðst hafa verið látin framkvæma gegn vilja sínum.

Maðurinn er einnig grunaður um að hafa a.m.k þrisvar sinnum haft samræði við þrettán ára gamla stúlku, sem við skýrslutöku sagði manninn hafa verið kunnugt um aldur sinn. Jafnframt er hann grunaður um að hafa haft samræði við 14 ára gamla stúlku gegn vilja hennar. Meint brot áttu sér stað í nóvember og desember á síðasta ári.

Í úrskurði héraðsdóms segir að efni sem fannst við rannsókn á tölvu mannsins bendi til „afbrigðilegra kynhvata kærða og augljóst þyki að hann hafi ekki taumhald á þeim“. Fram kemur að ekki leið vika frá því hann var yfirheyrður vegna brota gegn einni stúlku að hann hafði samband við þá næstu.

Meðal þess sem fannst í tölvunni var gróft barnaklám.

Vera kann að fíkniefnaneysla mannsins hafi haft áhrif á afbrigðilegar hvatir hans, segir í úrskurðinum, en maðurinn er einnig grunaður um fjölda annarra brota, svo sem fíkniefnabrot og þjófnað. Það er mat lögreglu að kærði muni halda áfram brotum gangi hann laus á meðan dómsmáli yfir honum er ólokið. hlynurorri@mbl.is