George Orwell Fjallar um lygina í ritgerðarsafni sínu, Stjórnmál og bókmenntir, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir jólin.
George Orwell Fjallar um lygina í ritgerðarsafni sínu, Stjórnmál og bókmenntir, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir jólin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lygin er eitt af viðfangsefnum George Orwells í ritgerðunum, sem komu út í þýðingu Ugga Jónssonar í lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins undir heitinu Stjórnmál og bókmenntir nú fyrir jólin.

Lygin er eitt af viðfangsefnum George Orwells í ritgerðunum, sem komu út í þýðingu Ugga Jónssonar í lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins undir heitinu Stjórnmál og bókmenntir nú fyrir jólin. Orwell talar af yfirvegun og varar ítrekað við blindu bókstafstrúarinnar. Þótt tilefnið sé atburðir í samtíma Orwells – borgarastyrjöldin á Spáni eða stjórnarfarið í ráðstjórnarríkjunum.

Orwell er þekktastur fyrir skáldverk sín, þá sérstaklega 1984 og Dýrabæ (sem fyrst kom út á íslensku undir heitinu Félagi Napóleon), en hann var mjög afkastamikill blaðamaður. Í ritgerðum sínum varar hann við málkækjum og orðaleppum, boðar einfaldan stíl og skýra hugsun.

Orwell finnur að því að hvort sem menn eru til hægri eða vinstri sjái þeir aðeins löst á málflutningi andstæðingsins, en séu aldrei tilbúnir að viðurkenna eigin galla og mistök.

Hins vegar sé það svo í „þessum síbreytilega, draumkennda heimi, þar sem svart verður hugsanlega hvítt á morgun og veðrið í gær getur breyst samkvæmt tilskipun, er í raun og veru aðeins tvennt sem verður til bjargar. Annað er að hversu mjög sem maður afneitar sannleikanum, heldur sannleikurinn áfram að vera til“, skrifar hann.

Orwell var sósíalisti, en hann var trúr orðum sínum og gat farið óvægnum orðum um málflutning sósíalista. Eins og Róbert H. Haraldsson orðar það í formála bókarinnar skefur Orwell „ekki utan af hlutunum eða mildar orð sín til að þóknast þeim sem aðhyllast sömu hugsjón og hann sjálfur“.

Nú er þess beðið að rannsóknarnefnd Alþingis skrifi sögu hrunsins eins og það verði hin endanlega útgáfa, afgerandi og skýr. Orwell hafði sínar efasemdir um getu manna til að taka á sögunni. Í ritgerð sinni Litið um öxl á spænska borgarastríðið veltir hann fyrir sér hver eigi að skrifa sögu stríðsins og hvernig það eigi að vera hægt því að bæði liðsmenn Francos og lýðveldisstjórnin hafi verið dugleg við að ljúga.

„Frá andfasísku sjónarhorni gæti maður skrifað sögu stríðsins sem væri í grófum dráttum sannleikanum samkvæm, en það yrði flokkshollustusaga, óáreiðanleg í öllum smáatriðum. Þegar upp er staðið verður samt einhvers konar saga skrifuð, og þegar þeir sem í raun muna eftir stríðinu eru dánir verður hún almennt viðurkennd. Það gildir því einu hvernig að er farið, að endingu verður lygin að sannleika.“

Það er forvitnilegt í ljósi verka sitjandi ríkisstjórnar á Íslandi að lesa orð Orwells um vinstristjórnir: „Það er nánast ófrávíkjanlegt að vinstristjórnir valda stuðningsmönnum sínum vonbrigðum vegna þess að jafnvel þegar hægt er að koma í kring þeirri hagsæld sem þær hafa lofað, er alltaf þörf á ónotalegu aðlögunartímabili sem lítið hefur verið minnst á fyrirfram. Þessa dagana sjáum við okkar eigin ríkisstjórn, í örvæntingu í efnahagslegum þrengingum, þar sem hún er í raun að berjast gegn sínum eigin fortíðaráróðri.“

Sumar athugasemdir eru tímabærar, aðrar ótímabærar. Þótt skrif Orwells séu frá annarri öld eiga þau heima í fyrri flokknum. kbl@mbl.is

Karl Blöndal