Frá æfingu Áki Ásgeirsson, sem skapaði þyriltrommuna, með pípu, Jesper Pedersen með trommu og Guðmundur Steinn Gunnarsson með langspil.
Frá æfingu Áki Ásgeirsson, sem skapaði þyriltrommuna, með pípu, Jesper Pedersen með trommu og Guðmundur Steinn Gunnarsson með langspil. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is S.L.Á.T.U.R, Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík, fara aldrei troðnar slóðir, svo mikið er víst. Í kvöld kl.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

S.L.Á.T.U.R, Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík, fara aldrei troðnar slóðir, svo mikið er víst. Í kvöld kl. 20 hefjast Nýárstónleikar samtakanna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, þar sem leikin verður ný tónlist á ný hljóðfæri. Hljóðfæri þessi voru hönnuð og búin til á árunum 2003-2006 og má þar m.a. nefna þránófón (e.k. vítahringsvél sem magnar upp eigintíðni mislangra röra), Airwaves-rör, sleglaspil og millistykkjaspil og einstrenging (þyngsta hljóðfærið á tónleikunum af því strengurinn er svo þykkur).

Það er Áki Ásgeirsson sem mælir fyrir samtökin en hann er iðinn við tón- og hljóðfærasmíð, hefur m.a. skapað þyriltrommuna svonefndu.

Alla leið í allar áttir

– Er einhver leið að lýsa þessari tónlist sem flutt verður?

„Hún er svolítið misjöfn, þetta eru tíu tónskáld með stutt verk þannig að þetta er svolítið fjölbreytt. Í almennum orðum er þetta ný íslensk nútímatónlist. Þetta eru flest tiltölulega ung tónskáld og meðlimir í þessum samtökum, S.L.Á.T.U.R, sem hafa kennt sig við listrænt ágenga tónlist, sem reyna að aðgreina hana frá annarri tónlist með því að ganga lengra, t.d. með því að búa til ný hljóðfæri,“ svarar Áki. Reynt sé að fara alla leið, í allar áttir.

– Hefur tónlistin þá, í einhverjum tilvikum, orðið til um leið og hljóðfærin?

„Já, sko, hún varð það upphaflega og þessi hljóðfæri voru eiginlega skrifuð fyrir eitthvert ákveðið verk. En á þessum tónleikum erum við í fyrsta sinn að endurnýta hljóðfærin, þau hafa orðið til á síðustu fimm árum, u.þ.b,“ segir Áki og nefnir sem dæmi Airwaves-rörin sem búin hafi verið til fyrir Airwaves 2006, fyrir hljómsveitina Hestbak. Þau hafi legið uppi í hillu síðan og nú sé hugmyndin að dusta rykið af öllum þessum S.L.Á.T.U.R.-hljóðfærum.

Hljómsveitin Skmendanikka leikur tónlistina á hin stórmerkilegu hljóðfæri en hún er skipuð Sturlaugi Björnssyni hornleikara, Frank Aarnink slagverksleikara og Róbert Reynissyni rafmagnsgítarleikara.

Heyrn er sögu ríkari.