Styrkþegar Huginn Þór Arason, Baldur Geir Bragason og Rakel Auðunsdóttur sem mætti fyrir hönd Indíönu, systur sinnar, fengu styrki úr Listasjóði Dungals að þessu sinni.
Styrkþegar Huginn Þór Arason, Baldur Geir Bragason og Rakel Auðunsdóttur sem mætti fyrir hönd Indíönu, systur sinnar, fengu styrki úr Listasjóði Dungals að þessu sinni. — Morgunblaðið/Kristinn
BALDUR Geir Bragason myndlistarmaður hlaut í gær hæsta styrkinn úr Listasjóði Dungals, en þá voru veittir styrkir úr sjóðnum í átjánda sinn. Þrír listamenn hlutu styrk að þessu sinni. Baldur Geir hlaut kr. 500.

BALDUR Geir Bragason myndlistarmaður hlaut í gær hæsta styrkinn úr Listasjóði Dungals, en þá voru veittir styrkir úr sjóðnum í átjánda sinn.

Þrír listamenn hlutu styrk að þessu sinni. Baldur Geir hlaut kr. 500.000 og þá hlutu þau Indíana Auðunsdóttir og Huginn Þór Arason styrki að upphæð 300.000 kr. hvort. Jafnframt mun sjóðurinn kaupa verk af styrkþegum. Listasjóður Dungals sem áður hét Listasjóður Pennans hefur styrkt tugi ungra myndlistarmanna og á safn verka fyrri styrkþega.

Sjóðnum bárust 35 umsóknir að þessu sinni. Í tilkynningu frá stjórn Listasjóðsins segir að gæði umsókna hafi sjaldan verið meiri.

Baldur Geir er búsettur í Neskaupstað og er þar með vinnustofu. Hann útskrifaðist árið 2001 með BA-gráðu frá myndlistardeild LHÍ og stundaði nám við Kunsthochschule Berlin á árunum 2005-2008. Hann hefur tekið þátt í margskonar listverkefnum hér á landi og erlendis. Fyrir ári hélt hann sýninguna Yfirborðskennd í Kling og Bang í Reykjavík og vakti hún talsverða eftirtekt.

Baldur Geir var lukkulegur yfir styrkveitingunni í gær og sagði styrkinn auðvelda sér vinnuna við verkefni sem hann væri að undirbúa.

Ekki að sýna enda barn á leiðinni

„Þetta fer í efniskaup – reddar mér alveg fjárhagslega,“ sagði hann. „Ég er ekki með neina sýningu á prjónunum á þessu ári, enda verður fjölgun í fjölskyldunni í apríl.“

Baldur Geir hefur sýnt víða síðustu ár. „Ég hef verið að sýna svona fjórum sinnum á ári að meðaltali, ef ég tel samsýningar með.“

Indíana útskrifaðist frá myndlistardeild LHÍ vorið 2004 og með meistaragráðu í myndlist frá Slade School of Art í London. Frá því hún lauk námi hefur hún sýnt og starfað erlendis. Indíana vinnur með dægurmenningu og klisjuímyndir, sem hún tengir við form og minni hámenningar í myndbandsverkum og skúlptúrum. Á þessi ári mun hún dvelja í gestavinnustofum og halda sýningar erlendis.

Huginn Þór útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskólans árið 2002. Hann er með meistaragráðu frá Akademie der Bildenden Kunste í Vínarborg. Huginn Þór hefur verið virkur í starfi ynstu kynslóðar listamanna. Auk þess að vinna að eigin listsköpun hefur hann setið í stjórn Nýlistasafnsins og verið sýningastjóri. Í list sinni vinnur Huginn Þór iðulega með sjálfsmyndir og hlutverk og notar fjölbreytta miðla þar sem hann er sjálfur oft hluti af myndefninu.