Murdoch Gamaldags þáttur.
Murdoch Gamaldags þáttur.
MAÐUR á ekki að taka raunveruleikann of hátíðlega. Ef manni líkar hann ekki þá á maður að skapa sinn eigin innri veruleika sem byggist á skemmtun og fegurð og gleyma sér í honum.

MAÐUR á ekki að taka raunveruleikann of hátíðlega. Ef manni líkar hann ekki þá á maður að skapa sinn eigin innri veruleika sem byggist á skemmtun og fegurð og gleyma sér í honum.

Stundum fær maður góða hjálp við þetta frá fjölmiðlum þegar notalegur og rómantískur heimur birtist á sjónvarpsskjánum, eins og til dæmis í kanadísku þáttunum Morðgátur Murdochs sem RÚV hefur sýnt af og til á miðvikudagskvöldum. Þetta er gamaldags glæpaþáttur sem gerist um aldamótin 1900. Kurteisir og sjarmerandi karlmenn ganga um með hatta og fallegar konur eru í síðkjólum og allir ferðast um í hestvögnum. Þarna eru líka ástir og sterkar tilfinningar, eins og eiga að vera í lífinu sjálfu en eru þar ekki nægilega oft. Að vísu eru einnig morð, en þau eru frekar snyrtileg og koma manni því ekki í uppnám. Það er enginn nútímalegur subbuskapur í þessum þáttum, eins og er í bresku sakamálamyndunum þar sem óðir fjöldamorðingjar ganga lausir og myrða þannig að maður leggst dauðhræddur til svefns eftir áhorfið.

Það sem er gamaldags fyllir mann iðulega ljúfri öryggiskennd sem ekki veitir af í hinum hryssingslega íslenska raunveruleika.

Kolbrún Bergþórsdóttir