Íbúi Mánaðarleigan sem Hjalti Jónasson greiðir fyrir íbúð við Brúnaveg hefur hækkað úr 180 þúsund krónum í ríflega 200 þúsund. Hann segir þetta taka í, en kvartar þó ekki, enda líkar honum staðurinn og sambýlið afar vel.
Íbúi Mánaðarleigan sem Hjalti Jónasson greiðir fyrir íbúð við Brúnaveg hefur hækkað úr 180 þúsund krónum í ríflega 200 þúsund. Hann segir þetta taka í, en kvartar þó ekki, enda líkar honum staðurinn og sambýlið afar vel. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurð Boga Sævarsson sbs@mbl.is „VISSULEGA er upphæðin há en ég vissi vel að hverju ég gekk þegar ég flutti hingað inn.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

sbs@mbl.is

„VISSULEGA er upphæðin há en ég vissi vel að hverju ég gekk þegar ég flutti hingað inn. Leiguverðið hefur hækkað í samræmi við vísitölu sem heldur er að hægja á sér núna og því eygi ég lækkun,“ segir Hjalti Jónasson, íbúi í Brúnavegi 9 í Reykjavík.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur leiguverð í þjónustuíbúðum aldraðra í fjölbýlishúsi við Brúnaveg í Reykjavík hækkað mikið undanfarið. Íbúðirnar eru í eigu Naustavarar, dótturfélags Sjómannadagsráðs sem á og rekur Hrafnistu. Dæmi er um að mánaðarleiga fyrir tveggja herbergja íbúð við Brúnaveg sé 242 þúsund á mánuði, en íbúð á almennum markaði í Reykjavík mætti leigja fyrir um 100 þúsund krónur.

Fullljóst að leiga gæti hækkað

„Þegar ég flutti hingað inn fyrir tæpum tveimur árum borgaði ég 180 þúsund krónur á mánuði fyrir íbúðina en núna er upphæðin nokkuð vel yfir 200 þúsund krónur. Þegar ég undirritaði leigusamning á sínum tíma var mér fulljóst að hækkaði vísitalan gæti leiguverðið þróast á þennan veg. Ég get því engum kennt um nema sjálfum mér og er þó ekki með neinar ásakanir heldur, því mér líður afskaplega vel hér. Þetta er rólegt umhverfi og afskiptalífið,“ segir Hjalti sem var kennari og síðar skólastjóri, fyrst í Austurbæjarskólaskóla og síðar Seljaskóla.

Hjalti segir því ekki að leyna að hin háu leigugjöld taki í, þar sem hann hafi aðeins ellilífeyrinn. „Ég kemst hins vegar af og vil vera hérna, því annað betra býðst ekki.“

Það kostar nánast sama að leigja þjónustuíbúð við Brúnaveg og að búa í herbergi á ágætu hóteli í Reykjavík. Í dæminu sem Morgublaðið vitnaði til í gær er mánaðarleiga fyrir 76 fermetra íbúð 242 þúsund krónur á mánuði. Centerhotels, sem starfrækir fimm gistihús í miðborg Reykjavíkur, er nú með tilboð þar sem hægt er að fá gistingu í eins manns herbergi og morgunverð fyrir 44 evrur eða 8.000 þúsund krónur. Það gerir 240 þúsund kr. yfir heilan mánuð eða sama og mánaðarleiga í umræddum þjónustuíbúðum.

Verðum að endurskoða umhverfið

„Húsið við Brúnaveg var byggt þegar aðstæður voru aðrar og leigusamningar taka mið af því. Því er ljóst að endurskoða þarf umhverfið sem starfað er eftir þótt ég sjái ekki útfærsluna fyrir núna,“ segir Guðmundur Hallvarðsson, formaður sjómannadagsráðs.

Meðan góðærið var í algleymi lét sjómannadagsráð byggja fjölbýlishús með leiguíbúðum bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík. „Hugmyndafræðin var sú að fólk 60 ára og eldra gæti losað sig við stærri eignir og flutt í þjónustuíbúð. Gæti losað um peninga og notað þá sem uppbót á eigin lífeyri og borgað leigu með vaxtatekjun. Síðan þetta var hefur margt hins vegar breyst. Áður höfðu 50% af vaxtartekjum skerðingaráhrif á ellilífeyri og tekjutryggingu. Vextir hafa lækkað og hækkað í 18% og margir þeir sem áttu peninga á vöxtum töpuðu í hruninu.“

Guðmundur viðurkennir að talsvert sé að borga um og yfir 200 þúsund krónur á mánuði fyrir leiguíbúð. Þó verði að taka fram að leigan fylgi aðeins vístölu og aðrir þættir sem vegið geti til hækkunar, svo sem tryggingar, hafi ekki verið teknir inn í breytuna.

www.mbl.is/sjonvarp

230 þúsund fyrir 80 fermetra