Þótt opinber umræða erlendis hafi orðið miklu minni við synjun laga um ríkisábyrgð en Íslendingar bjuggust hugsanlega við segir hún eitt og annað nýtt.

Þótt opinber umræða erlendis hafi orðið miklu minni við synjun laga um ríkisábyrgð en Íslendingar bjuggust hugsanlega við segir hún eitt og annað nýtt. Það spretta upp virtir fræðimenn og leiðarahöfundar stórblaða sem hafa allt aðra sýn á málinu en talsmenn Breta og Hollendinga hér á landi, þau Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, höfðu talið fólki trú um. Nánast öllum þessum aðilum, fræðimönnum sem stjórnmálapennum, er það ljóst að lagalegar forsendur greiðsluskyldu eru ekki fyrir hendi. Að minnsta kosti fari því fjarri að sýnt hafi verið fram á hana. Hvort sem menn horfa til leiðara Financial Times eða skrifa The Guardian, Independent eða Wall Street Journal má sjá að allt annar skilningur er á málstað Íslands en þeir sem áttu að gæta hagsmuna okkar hafa haldið fram.

Þetta segir aðeins eina sögu og hún er ekki falleg. Það var jarðvegur fyrir sjónarmið Íslands. Það var skilningur á firnasterkum rökum fyrir málstað þess. En þau rök, sá málstaður og þau sjónarmið hafa hvergi sést fyrr en nú. Forráðamenn ríkisstjórnarinnar sem í síbylju tala um sína miklu og þrotlausu vinnu – eins og aldrei áður hafi verið unnið í Stjórnarráði Íslands – hafa ekki puðað þar sem þurfti. Þau hafa í raun ekki lyft litlafingri til að vinna málstað Íslands fylgi. Og fyrir því er bara ein ástæða. Þau höfðu enga trú á eigin málstað. Það er meinið. Það skynja allir sem á þetta forystufólk hlusta, að þau halda jafnan sjónarmiðum andstæðinganna á lofti. Þetta hefur sést í þinginu og í fjölmiðlum. Þau brugðust frá byrjun þeim málstað sem þeim bar að helga baráttu sína. Það er því rétt sem fram kom hjá forseta Íslands að fyrst með synjun ríkisábyrgðarlaganna örlaði á því að íslenskum sjónarmiðum væri haldið á lofti. Það gerði þó ekki íslenska ríkisstjórnin með alveg dæmalausri tilkynningu sem forsætisráðherrann las upp eftir að ákvörðun forsetans lá fyrir. Þar var annars vegar haldið á lofti hræðsluáróðri og hótunum við þjóðina og hins vegar enn einni langlokunni um hið „þrotlausa“ starf ríkisstjórnarinnar.

Þegar andstæðingar setjast niður við kappskák er ekki auðvelt að spá um leikslok. En hitt er þekkt: Það vinnur enginn skák, sem gefur hana í fyrsta leik.