Guðríður Elísabet Níelsdóttir (Bebí) fæddist á Valshamri í Álftaneshreppi, Mýrasýslu 10.10. 1922. Hún lést á dvalarheimili aldraðra, Borgarnesi 31. desember síðastliðinn, 87 ára að aldri.

Foreldrar hennar voru Soffía Hallgrímsdóttir, f. 21.3. 1887 á Grímsstöðum í Álftaneshreppi, Mýrasýslu, d. 3.6. 1977 í Reykjavík og Níels Guðnason, f. 8.3. 1888 á Valshamri í Álftaneshreppi í Mýrasýslu, d. 27.6. 1975 í Borgarnesi.

Alsystkini Bebíar eru: Indriði Níelsson, f. 30.8. 1913, d. 4.11. 1999, maki Ingunn Hoffmann, f. 29.3. 1916. Guðný Kristrún Níelsdóttir, f. 19.9. 1916, d. 4.12. 2007, maki Stefán Pálsson, f. 13.6. 1915, d. 25.7. 1969. Sigríður Ingibjörg Níelsdóttir, f. 11.8. 1920, maki Guðmundur Pétursson, f. 25.7. 1917, d. 20.11. 2009. Sesselja Soffía Níelsdóttir, f. 30.8. 1924, d. 14.1. 2009. Hálfbræður Bebíar samfeðra, eru: Reynir Ásberg Níelsson, f. 26.4. 1931, maki 1 Karólína Rut Valdimarsdóttir, f. 12.2. 1936, þau slitu samvistum, sambýliskona er Fríður Pétursdóttir, f. 21.3. 1935, og Oddfreyr Ásberg Níelsson, f. 12.10. 1933, d. 29.9. 1971, maki Halldóra Halldórsdóttir, f. 20.10. 1938, d. 13.10. 1979. Fósturbróðir Bebíar var Magnús Sveinsson, f. 6.9. 1906, d. 5.5. 1989, maki 1 Guðný Margrét Björnsdóttir, f. 24.3. 1902, d. 5.6. 1953, maki 2 Guðný Sveinsdóttir, f. 9.4. 1903, d. 6.4.1990.

Bebí gekk í unglingaskólan í Borgarnesi en eftir það stundaði hún nám í Samvinnuskólanum í Reykjavík árin 1941-1943. Síðar var hún tvo vetur í Iðnskólanum í Borgarnesi við hárgreiðslunám.

Bebí hóf störf hjá Landsíma Íslands í Borgarnesi 1943 og vann þar allan sinn starfsaldur allt til 1992. Meðfram vinnu sinni stundaði hún hárgreiðslustörf í frístundum heima við.

Bebí hélt syni sínum og foreldrum heimili í Borgarnesi og annaðist þau til dánardægurs.

Síðari ár bjó hún hjá syni sínum í Borgarnesi þar til hún fór á dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi.

Þar naut hún einstakar umönnunar og alúðar og er starfsfólki færðar sérstakar alúðarþakkir aðstandenda.

Hennar sonur er Guðni Haraldsson rafvirkjameistari og bóndi á Grímstöðum Mýrasýslu, f. 31.1. 1946. Barnabarn Bebíar og sonur Guðna er Hallgrímur Norðdahl Guðnason, f. 17.2. 1996. Barnsmóðir Guðna er Berglind Norðdahl Sigurðardóttir, f. 25.5. 1959.

Útför Bebíar fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 9. janúar 2010 og hefst athöfnin kl. 11.

Það eru ótal margar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um stundirnar sem við Bebí áttum saman. Sterkustu minningarnar eru frá barnæsku minni í Borgarnesi þar sem Bebí var eins og þriðja amma okkar systra. Áður en við fluttum til Reykjavíkur flökkuðum við systur milli húsa á Helgugötunni, milli ömmu Gunnu og Bebíar.

Bebí var alltaf svo yndisleg við okkur, ótrúlega barngóð og alltaf hægt að draga hana í ýmiskonar leiki. Skemmtilegastur var kisuleikurinn þar sem ég 5 ára og Bebí tæplega 70 ára skriðum á fjórum fótum um öll gólf, dásamlegt að einhver fullorðinn væri til í að leika kisu með mér. Einnig gleymi ég því aldrei þegar ég lék mér úti í garði á Helgugötunni og var að búa til „blómasúpu“ innihald hennar samanstóð af vatni, rósablöðum og blöðum af stjúpum sem ég tíndi í garðinum hennar. Stolt færði ég henni afrakstur „eldamennsku“ minnar og bauð henni að smakka. Bebí náði sér í skeið inn í eldhús og fékk sér alvöru bita. Ég varð orðlaus af undrun þar sem vaninn var að fólk tæki „þykjustu-bita“. Eftir smökkunina þakkaði Bebí mér kærlega fyrir þessa frábæru súpu og sagðist hlakka til að smakka matinn minn næst. Við þetta fylltist ég óbilandi trú á eldamennsku minni og hlakkaði gríðarlega til að heilla hana næst með súpu úr alvöru mat. Einnig áttum við dásamlegar stundir saman lesandi Dísu ljósálf, borðandi steikta lifrarpylsu með sykri og svo voru það æðislegu eggjabikararnir sem hún fyllti með súkkulaðidropum handa mér.

Eftir að við fjölskyldan fluttum til Reykjavíkur hittumst við sjaldnar en alltaf þegar við komum í Borgarnes heimsóttum við Bebí. Bebí er ein mesta skutla sem ég hef kynnst og á unglingsárum mínum deildum við áhuga okkar á skóm. Hún með gífurlega reynslu af pinnahælum frá stríðsárunum og ég, byrjandinn, druslaðist með hvert nýtt pinnahæla-parið í Borgarnes til að sýna henni og fá viðurkenningu hennar. Ég hef alltaf litið mikið upp til Bebíar á öllum aldursskeiðum ævi minnar og hefur álit hennar ávallt skipt mig miklu máli.

Ég kveð nú með söknuði leikfélaga minn í æsku, ömmu mína og vinkonu hana Bebí.

Þín,

Sigríður Soffía.

Bebí, yndisleg ömmusystir dætra minna, er látin. Hún var þeim eins og besta amma, gerði allt fyrir þær og leyfði næstum því allt. Hún þakkaði mér fyrir það að treysta sér fyrir því að fá að passa þær. Margar stundirnar áttu þær góðar saman þegar Bebí lék sér við þær heima hjá sér á stofugólfinu og oft mátti ekki á milli sjá hver skemmti sér best. Bebí varð vinkona mín, við þekktumst frá fyrri tíð en okkar vinátta dýpkaði er við Níels systursonur hennar tókum saman. Ég ólst upp í sömu götu og hún bjó við í Borgarnesi, en ekki óraði mig fyrir því á unga aldri að lífsþræðir okkar Bebíar ættu eftir að skarast eins og varð seinna á lífsleiðinni.

Bebí var skemmtileg kona sem kunni að gleðjast á góðra vina fundi. Hún var kvöld- og næturmanneskja og þar náðum við mjög vel saman. Ég minnist góðra stunda um og eftir miðnætti á Helgugötu 4 þar sem við ræddum málin yfir sherry-glasi úr fögrum kristal. Það voru góðar og fræðandi stundir þar sem hún sagði mér frá því sem á daga hennar hafði drifið. Hennar ævi var margbrotin, hún stóð sig vel í lífsins ólgusjó og skilaði sínu lífsverki með sóma.

Við fjölskyldan minnumst Bebíar með mikilli hlýju og þökkum af heilum hug vináttu hennar og allt það sem hún gerði fyrir okkur. Minning hennar mun lifa.

Guðna syni hennar og Halla sonarsyni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði, kæra Bebí.

Jónanna Björnsdóttir

Móðursystir okkar, Guðríður Elísabet Níelsdóttir, eða Bebí eins og hún var alltaf kölluð, er látin. Hún kvaddi þennan heim seint á gamlárskvöld, sitjandi í stólnum sínum á Elliheimilinu í Borgarnesi, spariklædd og með skartið sitt eins og henni var líkt, tilbúin að fagna nýju ári, þó minnið hefði gefið sig að miklu leyti. Hún var fædd á Valshamri á Mýrum, næstyngst í systkinahópnum. Elstur var Indriði, síðan komu systurnar Guðný, móðir okkar, og svo Sigríður og Sesselja. Auk þess áttu þau tvo hálfbræður þá Reyni og Oddfrey og uppeldisbróðurinn Magnús. Sigríður er sú eina sem eftir lifir alsystkini sín auk Reynis.

Bebí bjó með ömmu Soffíu og afa Níelsi á Helgugötu í Borgarnesi og þar fæddist sonur hennar Guðni árið 1946. Heimili þeirra var öllum afkomendum afa og ömmu afar mikils virði og ætíð allir velkomnir og gott og gaman að koma, enda gestakomur tíðar. Oft var gist í hverju horni og alltaf jafn vel tekið á móti öllum. Það var okkur ævinlega mikið tilhlökkunarefni að leggja af stað í ferð með foreldrum okkar upp í Borgarnes. Bebí varð síðan stoð og stytta ömmu og afa og tók á móti öllum með glaðværð og góðum veitingum. Borgarnesferðirnar héldu áfram að vera jafn spennandi þegar unglingsárin tóku við og hafa verið það alla tíð. Bebí hafði einstakt lag á að ná góðu sambandi við börn og unglinga. Það var upplifun að koma við á símstöðinni hjá henni, fara út í eyju á fjöru og finna leirinn þrýstast upp á milli tánna, kaupa mjólk og fylgjast með þegar dælt var í brúsann og taka upp kartöflur úti í garði. Guðni sá svo um sleðaferðir og ísjakahlaup.

Já Borgarnes var ævintýraheimur. Þegar okkar börn uxu úr grasi hlökkuðu þau jafnmikið til heimsóknanna í Borgarnes. Það var mikið spilað og spjallað og alltaf voru jafn góðar veitingar á borðum. Og dætur okkar muna vel hvað það var gaman að fá að punta sig með öllum fallegu skartgripunum hennar og ekki var minna gaman fyrir strákana að skoða allt dótið hans Guðna eða fara með Bebí á Bjössaróló.

Bebí var hávaxin, glæsileg og ávallt vel og fallega klædd. Það geislaði af henni þegar hún gekk um götur Borgarness og til og frá símstöðinni, þar sem hún vann alla sína starfsævi. Jafnframt var hún hárgreiðslukona og vann við það að hluta.

Þegar við kveðjum Bebí frænku okkar og minnumst allra skemmtilegu stundanna á Helgugötunni þá erum við að tala um fjórar kynslóðir sem nutu einstakrar gestrisni og félagsskapar þeirra í rúm 60 ár. Fyrir það verður seint þakkað. En yndislegt að eiga jafn góðar minningar um aldraða frænku sem nú hefur kvatt okkur með reisn.

Hildur, Soffía og

Páll Stefánsbörn.

Nú hefur Bebí náð sambandi við Almættið. Hún kunni svo sem listina við að ná sambandi enda starfaði hún á símstöðinni í Borgarnesi. Það lék dýrðarljómi um Bebí og mig dreymdi um að vera símamær eins og hún. Bebí fín og falleg með heyrnartól á höfðinu svarar hressilega –„miðstöð“– og með fádæma leikni stingur hún snúru í eitt af óendanlega mörgum götum stöðvarinnar, ýtir á takka og tengir þannig saman fólk landshorna á milli. Þegar heim var komið náði ég mér í prjóna, breytti stóru útvarpstæki í símstöð, stakk prjónunum í götin, ýtti á takkana og kallaði hátt; miðstöð, miðstöð.

Bebí hafði yndi af fötum og litum og var sjálf litríkari en regnboginn. Og ekki var hún skoðanalaus hún Bebí, það hvein oft í henni. Stundum varð hún öskureið en jafnskjótt var hún var farin að hlæja. Hún var líka mikil sagnakona. Hún lýsti ferðalögum, klæðum, veisluföngum, söng og fólki þannig að allt stóð manni ljóslifandi fyrir augum. Bebí var stór, sterk og glæsileg og umfram allt óendanlega skemmtileg. Og enginn bjó til betri mat en hún. Hversdagsmatur varð að veislumat og betri steiktan fisk hef ég aldrei bragðað. Bebí trúði mér fyrir því að leyndarmálið væri örlítill sykur. Lambalæri og lunda var allra best að fá en þar sem Bebí bjó yfir einstökum sannfæringarkrafti þá fékk hún mig til að háma í mig hjörtu og nýru, og tómata sem ég hafði óbeit á. Hún fékk mig meira að segja til að borða selshreyfa! Maður sagði ekki nei við Bebí, þannig var nú það.

Bebí og spilastokkurinn voru eitt. Hún kenndi mér spilakapla og gaf sér iðulega tíma til að spila við litla stelpu Ólsen Ólsen, lönguvitleysu, svarta Pétur. Börn elskuðu Bebí. Hún hafði alltaf tíma til að spjalla, kenna, segja sögur og gantast. Það að hengja upp þvott, strauja og týna rifsber varð að skemmtidagskrá með Bebí. Að taka upp kartöflur varð að stórkostlegu ævintýri, að ekki sé talað um að sjóða svo smælkið og borða með smjöri, sem Bebí, réttilega, taldi bráðhollt og talaði ætíð ákaft gegn smjörlíki sem viðbiti.

Engan hef ég hitt sem gat vakað lengur en Bebí. En hún gat líka sofnað þegar hún vildi. Svona var hún ákveðin. Hún ákvað líka að deyja ekki þegar hún fyrir mörgum árum fékk krabbamein. Hún hætti að vísu að reykja en tilkynnti um leið að ef að hún færi að fitna myndi hún byrja að reykja samstundis aftur. Sala á fílterslausum Camel bar aldrei sitt barr eftir að Bebí hætti að reykja. Ég hélt satt að segja að Bebí yrði hundrað ára enda af langlífu og hraustu fólki komin. Þess vegna vil ég meina að hún hafi dáið um aldur fram. En núna er hún farin á vit Allamalla og Jéddúa mía eins og hún hlæjandi kallaði oft Almættið og Jesús. Það þyrfti stórskáld til að skrifa um Bebí. Hún var miðstöð samskipta og lita. Nú lífgar hún upp á himininn. Regnboginn er strax orðinn litríkari og stjörnurnar skína skærar. Þannig að kannski þarf alls ekki stórskáld til að skrifa um hana. Það þarf bara að líta á litrík blóm, regnboga og stjörnur himinsins til að minnast hennar.

Svanbjörg H. Einarsdóttir.

Hinsta kveðja

Elsku Bebí.

Samveruna þér við þökkum

þýðlega af huga klökkum

af augum svífa saknaðs tár.

Farðu sæl til sólarheima

samhuga við munum geyma

minning þín um æviár.

(RGK)

Ingibjörg (Imba) og fjölskylda.