SIGURÐUR Fannar Sigurjónsson, húsasmíðameistari á Selfossi, hyggur ekki á stór veisluhöld í tilefni þrítugsafmælis síns í dag. „Þetta verður bara lítið, svona fyrir nánustu fjölskyldu,“ segir Sigurður Fannar.

SIGURÐUR Fannar Sigurjónsson, húsasmíðameistari á Selfossi, hyggur ekki á stór veisluhöld í tilefni þrítugsafmælis síns í dag. „Þetta verður bara lítið, svona fyrir nánustu fjölskyldu,“ segir Sigurður Fannar. Ástæðan sé þó ekki sú að hann sé lítið fyrir veisluhald, heldur er einfaldlega of mikið að gera í vinnunni.

„Ég er byggingastjóri vegna stækkunar Edduhótelsins í Vík í Mýrdal,“ útskýrir hann, en unnið er að því að stækka hótelið um 370 m² og á að fjölga herbergjum um ellefu. Vegna byggingarframkvæmdanna var í fyrsta skipti fluttur byggingarkrani til Víkur í lok síðasta árs. „Það er allt á fullu og framkvæmdirnar eru á áætlun.“ Veðurguðirnir hafa reynst framkvæmdunum hliðhollir til þessa og eiga nýju herbergin að komast í notkun í júní. Sigurður Fannar telur sig heppinn að hafa byggingarvinnuna í Vík þó að því fylgi að hann sjái fjölskylduna lítið. „Ég fer heim um helgar,“ segir hann og því óneitanlega heppilegt að afmælisdaginn beri upp á helgi. Þó að ekki verði efnt til stórveislu í dag má þó segja að afmælisfögnuðinum sé aðeins frestað. „Ég ætla að skella mér út til Danmerkur með konunni í lok mánaðarins,“ segir hann að lokum. annaei@mbl.is