Sjötugur Guðmundur R Jónsson eða Gassi heldur upp á sjötugsafmælið með fjölskyldunni á fótboltaleik í London.
Sjötugur Guðmundur R Jónsson eða Gassi heldur upp á sjötugsafmælið með fjölskyldunni á fótboltaleik í London. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Ég er Púlari en þetta var besti kosturinn í stöðunni,“ segir Guðmundur R.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ég er Púlari en þetta var besti kosturinn í stöðunni,“ segir Guðmundur R. Jónsson eða Gassi eins og hann er gjarnan kallaður, um leik Arsenal og Everton, sem hann fer að sjá á Emirates-leikvanginum í London í dag ásamt eiginkonu sinni Kolbrúnu Halldórsdóttur, börnum þeirra og mökum, alls 12 manns. „Ég hef líka taugar til Arsenal,“ bætir hann við, en þau flugu út í gær og koma aftur heim á mánudagskvöld.

Verður ekki betra

Í sjálfu sér þykir ekki tíðindum sækja að Íslendingar fari á fótboltaleik í ensku úrvalsdeildinni, en umrædd ferð á sér sennilega ekki margar hliðstæður. „Í stað þess að halda veislu ákváðum við hjónin að bjóða krökkunum og mökum þeirra upp á eina með öllu, ferð til London, gistingu á góðu hóteli með morgunmat, mat á Emirates klukkan hálfeitt og úr matsalnum beint í stúkuna, en leikurinn byrjar klukkan þrjú,“ segir Gassi, sem verður sjötugur á morgun. „Það er engin kreppa hjá okkur. Ég gekk frá þessu í sumar, borgaði þá hálfa milljón og restina mánuði fyrir brottför. Ég er kominn með allt í hendurnar sem þarf. Miðarnir í matinn og á völlinn biðu eftir okkur á hótelinu og ég get sagt þér eitt: Þetta verður ekki betra.“

Engar áhyggjur af Icesave

Gassi er gallharður KR-ingur. Hann var liðsstjóri og sá um búningana fyrir meistaraflokk karla í tæplega tvo áratugi áður en hann tók við sömu stöðu hjá landsliði karla, þegar Guðjón Þórðarson var ráðinn landsliðsþjálfari, og gegndi henni þar til fyrir fáum árum. Vegna þessara starfa hefur hann séð leiki úti um allan heim, en fyrsta ferðin var einmitt á Highbury, þáverandi heimavöll Arsenal, haustið 1984, þegar QPR og KR léku þar Evrópuleik. „Ég hef þvælst út um allan heim með KR og landsliðinu en þetta er í fyrsta sinn sem ég fer gagngert út til þess að sjá fótboltaleik,“ segir Gassi. „Það er mjög ánægjulegt að geta gert þetta,“ heldur hann áfram. „Auðvitað kostar þetta sitt en maður fer ekki með seðlana með sér í gröfina.“

Samskipti Íslands og Bretlands virðast ekki vera upp á það besta um þessar mundir vegna Icesave, en gamli togarajaxlinn lætur stöðuna ekki hafa áhrif á sig. „Ég hef engar áhyggjur af þessu. Samkvæmt fréttum er mikill meirihluti Breta hlynntur okkur og við förum ekki út til að flagga þjóðerninu.“