Dóra Hjörleifsdóttir fæddist í Unnarholtskoti 12. september 1921. Hún lést á Heilbrigðisstofnum Suðurlands föstudaginn 25. desember sl.

Foreldrar Dóru voru Hjörleifur Sveinsson, f. 19.2. 1887 í Efra Langholti Hrunamannahreppi, d. 20.12. 1964 og Helga Gísladóttir, f. 15.5. 1886 á Bjöllu í Landssveit, d. 18.3. 1966. Systkini Dóru voru Gísli Hjörleifsson, f. 10.6. 1923, d. 6.7. 1995, Valgerður Hjörleifsdóttir, f. 24.8. 1924, hún býr í Reykjavík.

Dóra giftist Guðna Marel Einarssyni frá Eskifirði, f. 23.11. 1916, d. 16.6. 1998. Dóra og Guðni slitu samvistum. Synir þeirra eru Sigurður Guðnason, f. 9.2. 1956, kona hans er Kristín Ingólfsdóttir, f. 27.9. 1964. Ólafur Guðnason, f. 6.2. 1959, kona hans er Fanney Rut Eiríksdóttir, f. 4.4. 1956. Dætur þeirra eru Anna Dóra fædd 5.3. 1983, sonur hennar er Ólafur Marel Halldórsson, f. 18.10. 2009, Sandra f. 24.2. 1987 og Guðbjörg Ýr, f. 18.6. 1992.

Dóra var húsfreyja í Fagradal í Vopnafirði 1955-1959 en gerðist svo bóndi í Unnarholtskoti í Hrunamannahreppi 1959 og bjó þar mest alla sína ævi. En seinustu ár ævi sinnar bjó Dóra á Dvalarheimilinu Blesastöðum.

Dóra verður jarðsungin frá Hrunakirkju í dag, 9. janúar 2010, og hefst athöfnin kl 14.

Elsku amma mín.

Þær eru ófáar minningarnar sem ég á um þig, öll sumrin í sveitini góðu. Þú útbjóst alltaf hafragraut og linsoðin egg í morgunmat, sagðir að best væri að byrja nýjan dag á góðum og hollum morgunmat, síðan fórum við út og þú beint í gróðurhúsið, garðyrkjan var þitt líf og yndi. Enda var alltaf svo gott að fá grænmetið hennar ömmu og fá að hjálpa við að vigta og pakka gulrótum. Sumrin í sveitinni eru stór partur af æskunni og mun mér alltaf þykja vænt þær minningar.

Þú varst yndisleg amma og ég mun sakna þín sárt.

Læt hér fylgja með sálm sem ég las fyrir þig á aðfangadag nokkrum klukkustundum áður en þú kvaddir þennan heim.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Hvíldu í friði, elsku amma mín.

Þín

Anna Dóra.

Elsku amma mín.

Núna ertu farin úr þessu lífi, sem var þér orðið svo erfitt. En ég á svo margar góðar minningar um þig. Ég var stundum hjá þér í sveitinni á sumrin. Þú sagðir mér sögur úr sveitinni þegar þú varst lítil. Eins sagðirðu mér frá pabba þegar hann var lítill strákur að leiða afa sinn um hlaðið, og þegar þú komst til okkar um jólin þá lastu fyrir okkur systur sögur úr bók sem heitir Sögustund, sem þú keyptir til að lesa fyrir okkur. Eins fórstu alltaf með faðirvorið þegar við fórum að sofa.

Núna líður þér vel á nýjum stað.

Takk fyrir allt, amma mín.

Þín

Sandra.

Elsku amma, mig langar að kveðja þig með bæninni sem þú fórst alltaf með fyrir okkur.

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki,

verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

og fyrirgef oss vorar skuldir,

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið,

mátturinn og dýrðin

að eilífu. Amen.

Þín

Guðbjörg Ýr.

Nú þegar systir mín hefur endanlega kvatt þetta jarðlíf eru margar minningar um samvistir okkar ásæknar. En sú sem kemur skýrast fram er þegar ég, 11 ára gömul, var að byrja nám í barnaskólanum á Flúðum, og systir mín, sem var 14 ára, var búin að sauma á mig skólakjól úr rauðu ullarefni. Ég man hvað ég var ánægð með mig í þessari fallegu flík. Móðir okkar hafði þá kennt Dóru handtökin, en hún var þá strax mjög vandvirk sem svo mjög einkenndi hana alla tíð.Það var lítill aldursmunur á okkur systkinunum, þrjú ár milli okkar systra en tvö ár milli Gísla og hennar. Samt hafði hún það ábyrgðarmikla hlutverk þá ég fyrst man að gæta okkar yngri systkinanna, að við færum okkur ekki að voða í óvitaskap bernskunnar. Ég tel víst að þessi reynsla hennar svona ungrar hafi mótað hana til frambúðar, en hún var fremur alvörugefin alla tíð og bar takmarkalausa umhyggju fyrir okkur þó árin færðust yfir.

Ég minnist leikja okkar systkina við „búið“ okkar sem við stunduðum af miklum áhuga milli þess sem við gegndum ákveðnum skylduverkum við alvöru-búskapinn. Sérstaklega voru eldri systkini mín snemma vel liðtæk við bústörfin.

Ég minnist sameiginlegra hamingjustunda sem við nutum þegar við komum inn, þreytt eftir stórhirðingar, og heyrðum rigninguna dynja á baðstofuþakinu.

Eftir að synir Dóru uxu úr grasi og gerðust dugandi veiðimenn, eins og faðir þeirra, þá hafði hún aðstöðu til að eignast gæsadún sem hún hirti og hreinsaði sjálf. Ekki veit ég hvað margir nutu hlýjunnar (í bókstaflegri merkingu) af þeirri iðju hennar þegar hún gaf sængur og kodda, til bæði skyldra og óskyldra, enda fór hún dult með slíkt.

Ég minnist þess hvað notalegt var fyrir okkur Kjartan að heimsækja Dóru eftir að ég settist að í Reykjavík. Þá var hún venjulega búin að þvo gólfin út úr dyrum, og steikarilmurinn mætti manni þegar inn kom, eða þá pönnukökuilmurinn. Svo var það garðræktin. Ávaxta af því vel stundaða starfi nutu margir og ég fékk þar að mestu birgðir til ársins.

Með þakklæti hugsa ég til allra sem önnuðust systur mína síðustu árin, eftir að kraftar hennar dvínuðu og hún gat ekki lengur verið heima í Unnarholtskoti. Sérstaklega vil ég nefna Guðbjörgu í Birtingaholti sem létti henni lífið árum saman, fyrst á Flúðum og eftir að hún fór að Blesastöðum fór með hana að blanda geði við vini sína á Flúðum þegar þar var opið hús. Hildi á Blesastöðum og starfsliði hennar vil ég einnig senda kveðjur og innilegar þakkir.

Umfram allt hugsa ég til systur minnar með þökk fyrir hvað hún var okkur systkinum sínum, nú þegar hún leggur upp í ferðina á vit almættisins sem hún treysti á. Ferð sem hófst á helgustu nótt ársins, sjálfa jólanóttina.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

(23. Davíðssálmur.)

Valgerður Hjörleifsdóttir.