Þrettándinn Álfahirðin ásamt kóngi og drottingu á leið á Þrettándafagnað.
Þrettándinn Álfahirðin ásamt kóngi og drottingu á leið á Þrettándafagnað. — Morgunblaðið/Andrés Skúlason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýtt ár heilsaði íbúum Djúpavogshrepps með einstöku blíðviðri eftir mikla flugeldafimleika um áramót. Þrettándabrenna var síðan á sínum stað þar sem jólahátíðin var kvödd að sinni með flugeldasýningu í boði Björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi.

Nýtt ár heilsaði íbúum Djúpavogshrepps með einstöku blíðviðri eftir mikla flugeldafimleika um áramót. Þrettándabrenna var síðan á sínum stað þar sem jólahátíðin var kvödd að sinni með flugeldasýningu í boði Björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps afgreiddi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins áður en jólahátíðin gekk í garð. Sveitarstjórn vill stíga varlega inn í árið 2010 í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í efnahagslífinu, gert er því ráð fyrir minniháttar framkvæmdum á árinu af hálfu sveitarfélagsins. Sveitarstjórnin vísar hins vegar til þess í fjárhagsáætlun að staðan verði endurmetin strax í mars-mánuði næstkomandi og þá kunni að verða teknar nýjar ákvarðanir um framkvæmdir ef fjárhagslegt svigrúm verði til staðar.

Djúpavogshreppur hefur á síðustu tveimur árum unnið að uppbyggingu á svokölluðu Faktorshúsi á Djúpavogi og hægt og bítandi er að komast mynd á þá framkvæmd. Faktorshúsið sem stendur við hlið menningarhússins Löngubúðar, og mun verða mikil bæjarprýði, skipar stóran sess í 420 ára verslunarsögu Djúpavogs og eru uppi væntingar að hægt verði að taka húsið í notkun á árinu 2012 eða 2013.

Í húsinu er meðal annars stefnt á að hafa upplýsingamiðstöð, safnastarfsemi, vinnustofu og sömuleiðis aðstöðu að sumrinu fyrir gesti skemmtiferðaskipa, en húsið stendur steinsnar frá gömlu trébryggjunni við voginn þar sem umtalsverður fjöldi erlendra gesta hefur stigið á land á síðustu árum.

Samgöngumál eru íbúum Djúpavogshrepps ofarlega í huga eins og öðrum íbúum í hinum dreifðari byggðum. Samkvæmt áætlunum samgönguyfirvalda átti að bjóða út framkvæmdir við nýjan Axarveg á síðastliðnu hausti en þeim framkvæmdum hefur hinsvegar verið seinkað um óákveðinn tíma. Undirbúningsvinna vegna framkvæmdarinnar um Öxi er hinsvegar á lokastigi hjá vegagerðinni og því verður ekkert að vanbúnaði þegar efnahagsleg skilyrði skapast að hefjast handa um þessa mjög svo þjóðhagslega hagkvæmu samgöngubót.

Atvinnumál eru með ágætum um þessar mundir í Djúpavogshreppi en þó var það sveitarfélaginu og starfsfólki Dvalarheimilisins Helgafells áfall þegar þeirri stofnun var lokað fyrirvaralaust um mitt síðasta ár. Sveitarfélagið vinnur nú að því að finna lausn og nýja nýtingarmöguleika á húsnæði dvalarheimilisins í þágu eldri borgara á svæðinu í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og eru bundnar vonir við að sú vinna skili tilætluðum árangri þegar líður á árið.

Svokallaðar strandveiðar eru nýtt útgerðarmynstur í sjávarútvegi og af samtölum á bryggjunni að marka eru umtalsverðar líkur á að smábátaflotinn á Djúpavogi muni stækka verulega vegna strandveiðanna og eru því uppi væntingar um að það verði mikið líf á hafnarsvæðinu á komandi sumri. Fiskvinnslufyrirtækið Vísir hf. hefur sem áður haldið uppi kraftmikilli vinnslu á staðnum og er grunnstoðin í atvinnulegu tilliti.

Frá september síðastliðnum til áramóta var landaður botnfiskafli sem fór um Djúpavogshöfn samtals 6. 227 tonn og má því sannarlega segja að mikil verðmæti til handa þjóðarbúinu hafi flætt um Djúpavog á síðustu mánuðum.

Andrés Skúlason fréttaritari