Pascal Hens
Pascal Hens
Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is AFAR sterkt, en e.t.v. um leið ekki mjög reynt, þýskt landslið mætir því íslenska í tveimur vináttulandsleikjum í handknattleik í Þýskalandi um helgina.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

AFAR sterkt, en e.t.v. um leið ekki mjög reynt, þýskt landslið mætir því íslenska í tveimur vináttulandsleikjum í handknattleik í Þýskalandi um helgina. Fyrri viðureign þjóðanna verður í Nürnberg í dag en sú síðari í Regensburg klukkan 14 á morgun.

Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja, segir að eftir nauman sigur á Austurríki á þriðjudagskvöldið muni reyna verulega á hvers þýska liðið er megnugt í leikjunum tveimur gegn Íslandingum þessa helgina. Ljóst er að fjarvera stórskyttunnar Pascal Hens veikir þýska landsliðið nokkuð en hann gaf ekki kost á sér í landsliðið fyrir Evrópumeistaramótið. Hens hefur glímt við erfið meiðsli af og til frá Ólympíuleikunum í Peking og baðst undan að vera með að þessu sinni.

Markvörðurinn sterki og liðsfélagi Hens hjá HSV Hamburg, Johannes Bitter, tekur heldur ekki þátt í leikjunum við Íslendinga um helgina en vonast til þess að geta verið með þegar út í alvöruna verður komið á EM í Austurríki eftir 10 daga. Bitter fór á dögunum í speglun á olnboga en eymsli í honum hafa gert honum lífið leitt síðustu vikur. Línumaðurinn Sebastian Preiss, liðsfélagi Loga Geirssonar og Vignis Svavarssonar hjá Lemgo, er einnig meiddur og verður ekki með á EM. Hens, Bitter og Preiss voru allir í sigurliði Þjóðverja á HM fyrir þremur árum.

Þýska liðið sem mætir Íslendingum um helgina er skipað eftirtöldum leikmönnum: Carsten Lichtlein (TBV Lemgo, 114), Silvio Heinevetter (Füchse Berlin, 24), eru markverðir.

Hægri hornamenn eru: Stefan Schröder (HSV Hamburg, 43), Christian Sprenger (THW Kiel, 49).

Skyttur hægra megin: Holger Glandorf (TBV Lemgo, 112), Michael Müller (Rhein-Neckar Löwen 32).

Leikstjórnendur: Michael Kraus (TBV Lemgo, 85), Michael Haaß (Frisch Auf Göppingen, 43), Martin Strobel (TBV Lemgo, 36).

Skyttur vinstra megin: Lars Kaufmann (Frisch Auf Göppingen, 81, Sven-Sören Christophersen (HSG Wetzlar, 26) Vinstri hornamenn: Torsten Jansen (HSV Hamburg, 167), Dominik Klein (THW Kiel, 101), Uwe Gensheimer (Rhein-Neckar Löwen, 25).

Línumenn: Oliver Roggisch (Rhein-Neckar Löwen, 123), Christoph Theuerkauf (SC Magdeburg, 15), Manuel Späth (Frisch Auf Göppingen, 12), Matthias Flohr (HSV Hamburg, 1).

Uppselt í Nürnberg

Uppselt er á leik Þjóðverja og Íslendinga í dag en keppnishöllin í Nürnberg rúmar um 8.000 áhorfendur. Þá er nánast uppselt á leikinn í Dónárhöllinni í Regensburg á morgun en hún rúmar 5.500 áhorfendur.

Síðasti landsleikur Þjóðverja áður en þeir halda yfir landamærin til Austurríkis 17. janúar verður í Mannheim á miðvikudagskvöldið. Þá mæta Þjóðverjar Brasilíumönnum. Þýska landsliðið er í riðli með Pólverjum, Slóvenum og Svíum á EM.