Halldór Magnússon frá Hnífsdal fæddist 26. nóvember 1929. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 30. desember 2009. Foreldrar hans voru Margrét Halldórsdóttir húsmóðir í Hnífsdal, f. 8.8. 1905, d. 13.9. 1981 og Guðmundur Magnús Guðmundsson íshússtjóri í Hnífsdal, f. 3.12. 1900, d. 20.2. 1974.

Kona Halldórs er Inga Sigurborg Magnúsdóttir verkakona, f. 1.10. 1930 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Guðlaug Steinunn Guðjónsdóttir verkakona í Reykjavík, f. 16.5. 1894, d. 14.2. 1976 og Magnús Sigurðsson múrari í Reykjavík, f. 28.5. 1880, d. 20.10. 1944.

Halldór og Inga gengu í hjónaband 15. mars 1952 og eignuðust þau 5 börn. Þau eru: 1) Margrét, búsett í Færeyjum, f. 3.11. 1951, d. 12.12. 2007, gift Páli Jakobi Breiðaskarð, f. 23.10. 1947. Dóttir þeirra er Karen Pálsdóttir leikskólaliði, f. 26.5. 1979, gift Hilmi Þór Bjarnasyni vélsmiði, f. 11.10. 1979. Börn þeirra eru 1) Valdís Ósk, f. 9.11. 1998, 2) Heiðar Páll, f. 24.3. 2003 og 3) Grétar Máni, f. 5.6. 2008.

2) Magnús Ingi verktaki, f. 16.4. 1955, d. 14.11. 1991, kvæntur Guðbjörgu Hjartardóttur sjúkraliða, f. 29.3. 1955. Börn þeirra eru 1) Halldór Ingi rennismiður, f. 22.6. 1977, kvæntur Lindu Björk Óskarsdóttur sjúkraliðanema, f. 17.8. 1977. Dætur þeirra eru 1) Aníta Líf, f. 19.10. 2002 og 2) Bríet Ósk, f. 1.8. 2008, fyrir átti Linda soninn Benedikt Pál, f. 15.4. 1996. 2) Hjörtur Rúnar stálmiður, f. 2.9.1981 og 3) Helga Guðrún, f. 29.5.1988.

3) Steinunn Björg, f. 12.1. 1963, d. 3.4. 2002, gift Einari Indriðasyni frá Árdal í Bitrufirði, f. 27.8. 1953. Synir þeirra eru 1) Bjarki, f. 30.11. 1990 og 2) Magnús Ingi, f. 12.6. 1994.

4) Helga Rut, f. 21.8. 1965, maki Karl Þór Björnsson verktaki, f. 7.11. 1957 frá Smáhömrum á Ströndum. Dætur þeirra eru 1) Þórdís, f. 3.12. 1991, 2) Kolbrún Ýr, f. 1.11. 1999 og 3) Inga Matthildur, f. 5.2. 2002

5) Sara bókasafns- og upplýsingafræðingur, f. 9.8. 1970, gift Þorfinni P. Eggertssyni vélstjóra, f. 16.12.1971. Börn þeirra eru 1) Kári Freyr, f. 21.1. 1998, 2) Steinar Ingi, f. 16.4. 2002 og 3) Íris Edda, f. 12.5. 2005.

Halldór bjó alla tíð í Hnífsdal utan þau ár sem hann lærði húsgagnasmíði í Reykjavík. Hann vann sem bílstjóri hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, var einnig hjá Vegagerð ríkisins og síðustu starfsárin var hann flugvallarstarfsmaður á Ísafirði. Hann tók þátt í ýmsum félagsstörfum, þar á meðal Slysavarnadeildinni í Hnífsdal og Kíwanisklúbbnum Básum og var hann einn af stofnendum hans. Hann tók auk þess þátt í kórstarfi Kirkjukórs Hnífsdælinga og var þátttakandi í starfi eldri borgara á Ísafirði.

Útförin fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, laugardaginn 9. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku hjartans pabbi minn. Það eru margar hugsanir og ótal minningar sem fara í gegnum huga minn á svona stundum, sumar er dauðans alvara á meðan aðrar eru hlaðnar góðlátlegu gríni og glensi sem þú áttir nóg af. Ég get ekki sagt að þessi sundurlausu minningarbrot mín um þig renni áreynslulaust á blaðið – öðru nær, en ég reyni.

Skemmst er að minnast áttræðis afmælis þíns fyrir réttum mánuði síðan. Það var reglulega gaman að koma og vera með ykkur mömmu og öllum á þessum degi. Við Helga systir vorum búnar að fá alla til að vera með í að undirbúa myndasýningu fyrir þig, afmælisbarnið. Við vissum af nokkrum heppilegum myndum í albúmum inni í herbergi hjá þér og þurftum við að pukrast við að „stela“ þeim til að bæta í myndasýninguna þar sem sýndar voru myndir af þér á ýmsum aldri við ýmis tækifæri auk afkomenda þinna og þeirra sem þú gekkst í afastað.

Það er skrítið til þess að hugsa að þú munir ekki taka á móti okkur Brúnastaðagenginu með kossi og útbreidddan faðminn næst þegar við komum á Heiðarbrautina. Búinn að fá leyfi fyrir okkur hjá nágrannanum að fara með fellihýsið yfir lóðina og parkera því bak við húsið þann tíma sem dvöl okkar varir. Undanfarin sumur höfum við farið á „ströndina hennar ömmu“, tekið með okkur nesti, buslað í sjónum og mokað sand. Kannski ekki merkilegt en samveran hlaðin minningum um skemmtilega daga. Fráfall þitt kom mér verulega á óvart því síðustu fréttir af þér nokkuð góðar og þú auk þess búinn að næla þér í frænkur og frændur á meðal starfsfólksins á sjúkrahúsinu. Já það er óhætt að segja að þú hafir verið frændrækinn, minnug þess að þið Gurrý frænka á Ólafsfirði hringduð alltaf í hvort annað á afmælisdögum mæðra ykkar.

Ég hugga mig við það að nú líður þér miklu betur í fótunum og getir hlaupið um á dúnmjúkum skýjum um leið og þú heilsar upp á alla sem þú þekkir þarna hinum megin. Það hefur eflaust verið stuð og stemning þegar þú hittir Möggu, Magnús Inga og Steinunni á ný. Ég get varla ímyndað með fagnaðarfundina. Ég bið þig fyrir sokka til Möggu systur, mér fannst ómögulegt að vita til þess að hún hafi verið berfætt svo lengi. Ég man þegar þið mamma komuð frá Færeyjum eftir að hafa heimsótt Möggu og Palla að þú gekkst í það hjá Félagi eldir borgara að keypt yrði bingóvél. Dúddi bingóstjóri geri ég ráð fyrir.

Ég kveð þig nú elsku pabbi minn og bið góðan Guð að passa mömmu og okkur hin.

Ég trúi á ljós, sem lýsi mér,

á líf og kærleika,

á sigur þess, sem fagurt er,

og sættir mannanna.

Á afl sem stendur ætíð vörð

um allt, sem fagurt er,

á Guð á himni, Guð á jörð

og Guð í sjálfum mér

(Ólafur Gaukur.)

Þín,

Sara.

Þá er komið að kveðjustund, hann Dúddi tengdafaðir minn er látinn og er mér ljúft að minnast hans með nokkrum orðum.

Ég var 17 ára þegar ég fór að venja komur mínar á Heiðarbrautina með syni þínum, honum Magnúsi, sem síðar varð maðurinn minn og faðir þriggja barna. Ég man þegar ég sá þig fyrst, þá fannst mér þú mikill töffari, ég var frekar feimin og talaði sem minnst við þig en það átti eftir að breytast með árunum. Þú varst glaðlegur og gamansamur, áttir auðvelt með að koma fyrir þig orði og áttir marga vini og kunningja og starfaðir í ýmsum félögum og nefndum.

Það er margs að minnast eins og jólanna með ykkur Ingu, þú varst mikið jólabarn og vildir alltaf að við tækjum upp pakkana frá ykkur þegar við komum út eftir á aðfangadagskvöld. Fótbolti og leikir í garðinum, sólað sig á pallinum góða, því sólin skín svo ótrúlega skært í Hnífsdal. Einnig var gott að koma við á Heiðarbrautinni í kaffi og spjall þar sem málin voru rædd og oft var glatt á hjalla.

Elsku Dúddi, okkar kynni hafa verið góð og staðið í rúm 37 ár, bæði í gleði og sorg. Það var mikið áfall þegar Magnús sonur þinn lést aðeins 36 ára gamall, svo Steinunn og síðan Margrét, öll á besta aldri. Það er ótrúlegt að fólk upplifi að missa þrjú af fimm börnum sínum, en þú stóðst eins og klettur, sást um allt sem sneri að kirkjumálum, skriffinnsku og bankamálum. Hafðir þetta allt á hreinu. Þú hefur reynst börnum mínum vel og tekið þeim fagnandi þegar þau hafa heimsótt afa sinn. Einnig dóttur minni sem ég eignaðist með seinni manni mínum, honum Hafþóri. Sagðir að hún yrði auðvitað ein af barnabörnunum. Góð vinátta var áfram og komuð þið Inga oft í Víkina í heimsókn eftir að við fluttum þangað.

Hvíl í friði.

Guðbjörg Hjartardóttir.

Elsku afi Dúddi. Nú ertu farinn frá okkur og orðinn að engli hjá Guði. Við vitum að nú líður þér miklu betur í fótunum þínum. Við munum alltaf sakna þín og geymum minninguna um þig í hjartanu okkar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þín afabörn,

Kolbrún Ýr, Inga Matthildur, Kári Freyr, Steinar Ingi og Íris Edda.

Elsku afi, ekki óraði okkur fyrir því að þurfa að kveðja þig núna, rúmum mánuði eftir afmælið þitt, þar sem þú varst svo glaður og ánægður en jafnframt undrandi yfir því hve margir komu og samglöddust með þér. Aldrei munum við gleyma þér, elsku afi, sem alltaf tókst á móti okkur með bros á vör og opinn faðminn, tilbúinn að knúsa okkur. Aldrei munum við gleyma samverustundunum þar sem við spjölluðum um heima og geima í stofunni á Heiðarbrautinni.

Þegar við hugsum til þín koma svo margar skemmtilegar minningar upp í hugann, tíminn sem Þórdís bjó hjá ykkur, jólin með ykkur ömmu, sólböðin á pallinum, píanóspileríið, eldhússpjallið og í leiðinni gæddi maður sér á guðdómlega góða bakkelsinu hennar ömmu. Þú varst svo mikill húmoristi og komst okkur alltaf til að brosa. Mikið eigum við eftir að sakna þín.

Nú er kallið komið og þú lagstur til hvíldar. Alveg erum við þess vissar að pabbi, Steina og Magga hafa tekið vel á móti þér og núna getið þið feðginin hlegið saman á ný. Við biðjum góðan Guð að blessa þig, elsku hjartans afi okkar.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn.)

Þínar afastelpur,

Helga Guðrún Magnúsdóttir

Elsku hjartans afi minn. Hvað getur maður sagt á svona stundu? Það er ótrúlega margt sem flýgur um kollinn á manni þegar maður hugsar til baka um öll þessi ár sem hafa liðið. En nú ertu bara allt í einu farinn frá okkur, bara sisvona. Þetta er skrýtin og sorgleg tilfinning fyrir okkur öll hin sem þekktum þig og þykir svo vænt um þig og mun ávallt gera.

Þau eru nú ótrúlega mörg skiptin sem við, mamma og pabbi komum úteftir til þín og ömmu, bara svona til að kíkja og þegar eitthvað var um að vera. Grínið var nú líka alltaf logandi í öllum, sem var bara gaman og við gátum hlegið saman að því sem kom út úr okkur.

Okkur Hirti fannst oft svo gaman að vera á ganginum hjá herbergjunum að klifra upp veginn eins og mig minnir að við kölluðum það. Þá klifruðum við upp milli skápa og veggjar og það var alveg þrusustuð hjá okkur frændsystkinum.

En nú, elsku afi, ertu kominn á annað stað, hjá Guði og englunum sem munu hugsa afar vel um þig og þér á eftir að líða vel og vera áhyggjulaus hvert svo sem leið þín liggur þarna hinumegin við. Én ég veit að ég á eftir að sakna þín óskaplega mikið og raddar þinnar í gegnum símann því við spjölluðum nú annað slagið saman í gegnum síma.

Hvíl í friði, elsku besti afi minn. Hugur minn verður ávallt hjá þér þótt þú sért farinn frá okkur og ég mun ávallt geta huggað mig við minningarnar sem lifa í hjörtum okkar.

Elsku amma mín, Helga og Sara, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Við vitum nú að afi er kominn á góðan stað og honum á eftir að líða vel og þjáist ei meir.

Ég óska þér friðar.

Drifhvítur máninn færi þér djúpan

frið.

Grasið gróskugrænt færi þér

djúpan frið.

Moldin brún og væn færi þér djúpan frið.

Skýjuð döggin færi þér djúpan

frið.

Heiðblár himininn færi þér djúpan

frið.

Aldan síkvik færi þér djúpan frið.

Andvarinn ljúfi færi þér djúpan

frið.

Kyrrðin á jörðu færi þér djúpan

frið.

(Fiona Macleod)

Þín afastelpa,

Karen.