Flóttaflekinn Sigurður Ólafsson hjá Skipaþjónustunni með hinn veikbyggða farkost flóttamannanna.
Flóttaflekinn Sigurður Ólafsson hjá Skipaþjónustunni með hinn veikbyggða farkost flóttamannanna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur sigrunrosa@mbl.is ÖRYGGISVERÐIR hjá Eimskip ráku upp stór augu um hálfsexleytið í gærmorgun þegar þeir sáu tvo menn á fleka róa í átt að gámaflutningaskipinu Reykjafossi, skipi Eimskipafélagsins.

Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

ÖRYGGISVERÐIR hjá Eimskip ráku upp stór augu um hálfsexleytið í gærmorgun þegar þeir sáu tvo menn á fleka róa í átt að gámaflutningaskipinu Reykjafossi, skipi Eimskipafélagsins. Mennirnir hugðust lauma sér um borð með skipinu, sem var á leið til Norður-Ameríku.

Eltur uppi af hafnsögubáti

Skipverjar leyfðu öðrum manninum að komast um borð og var hann síðan handtekinn þar. Þegar hinn maðurinn sá afdrif félaga síns forðaði hann sér á flekanum. Hann var hins vegar eltur uppi af hafnsögubáti og lögreglu og handtekinn í kjölfarið. Flekinn er gerður úr dekkjaslöngum sem á voru lagðar nokkrar spýtur og þær síðan hnýttar saman með snæri og ýmsu öðru, s.s. vírum. Hann var dreginn til hafnar og er nú í geymslu hjá hafnaryfirvöldum.

Að sögn Halls Árnasonar hjá Faxaflóahöfnum voru mennirnir ekki illa búnir en hiti var um frostmark í gær.

Mennirnir tveir eru hælisleitendur á þrítugsaldri og er annar þeirra frá Albaníu en hinn frá Líbíu. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem Líbíumaðurinn reynir að koma sér úr landi með skipi. Hann reyndi í september að laumast með Reykjafossi til Norður-Ameríku. Skipinu var hins vegar snúið við þegar það var búið að sigla í sólarhring og laumufarþeginn uppgötvaðist.

Í hnotskurn
» Reglum um siglingavernd var breytt árið 2004 og eru mun strangari en áður hvað varðar farminn og aðgangsstýringu til skipafélaga og öryggisgæsla mun meiri.