Sigurður Ingimundarson
Sigurður Ingimundarson
„ÞAÐ má horfa á þessa ákvörðun KKÍ frá mörgum hliðum.

„ÞAÐ má horfa á þessa ákvörðun KKÍ frá mörgum hliðum. Sem þjálfara finnst mér þetta ekkert flott ákvörðun en stjórnin hefur legið yfir þessu máli áður en ákvörðunin var tekin og hún hefur ekki verið auðveld,“ sagði Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik, um samþykkt stjórnar KKÍ að senda ekki A-landslið karla og kvenna til þátttöku í Evrópukeppni landsliða næstu tvö árin.

„Fyrirkomulagið á Evrópukeppninni er ómögulegt, ekki bara að okkar mati, heldur margra þjóða sem eru á svipuðu róli og við. Það er sniðið að þörfum fimmtán stærstu körfuknattleiksþjóðanna en lítt horft til hagsmuna heildarinnar,“ sagði Sigurður sem undirstrikar að árangur íslenska landsliðsins í Evrópukeppninni hafi verið afar góður.

„Það er algjörlega glatað að í jafn stórri íþrótt og körfuknattleikurinn er skuli þurfa að grípa til þessa úrræðis að senda landsliðið ekki til keppni á Evrópumótinu. En það er alveg ljóst að KKÍ tekur ekki þessa ákvörðun að gamni sínu,“ segir Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik.

iben@mbl.is