Ásta Sigríður Gísladóttir fæddist í Skáleyjum á Breiðafirði 17. desember 1935. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Patreksfirði 22. desember sl.

Foreldrar hennar voru Gísli Einar Jóhannesson f. 1. september 1901, d. 27. janúar 1984 og Sigurborg Ólafsdóttir f. 26. júli 1904, d. 7. mars 1984. Ásta var fjórða í röð sjö systkina sem eru Ólína, Eysteinn, María, Jóhannes, Ólafur og Kristín. Ásta ólst upp í Skáleyjum þangað til hún fór í Húsmæðraskóla að Varmalandi 1955-1956 og útskrifaðist hún með ljósmóðurspróf LMSÍ 30. sept 1960. Fluttist Ásta þá til Patreksfjarðar og þar kynntist hún eiginmanni sínum Sverri Breiðfjörð Guðmundssyni f. 28.2. 1938, d. 4.10. 1998 og giftu þau sig þann 29. júní 1963. Þau eignuðust 5 börn: 1) Guðmundur Lúther f. 14.9. 1962. 2) Sigurborg f 1.5. 1964, maki Loftur Gunnarsson, börn hennar eru 2a) Ásta Sigríður, á hún synina Eyjólf Má og Ágúst Mána. 2b) Jóhann Breiðfjörð, í sambúð með Esther og eiga þau soninn Aðalstein Breiðfjörð 2c) Þorbjörn Þór 2d) Sverrir Pétur, 3) Eyjólfur Breiðfjörð f. 18.2. 1968, d. 4.11. 1989. 4) Heiður Þórunn f. 14.8. 1970. Maki Gísli S. Hafsteinsson og eiga þau börnin 4a) Auði 4b) Sverri Breiðfjörð 4c) Ástu Sigríði 5) Gísli Einar f. 13.7 1976. Maki Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir, eiga þau börnin 5a) Sveinbjörn Styrmi 5b) Arnheiði Breiðfjörð 5c) Guðmund Steinar. Ásta starfaði á Hvítabandinu og Kleppsspítala áður en hún fór í ljósmóðurnám,en starfaði á Patreksfirði allan sinn starfsaldur sem ljósmóðir frá 1960 til 2004 og tók á móti 730 börnum. Einnig sinnti hún í seinni tíð ungbarnaeftirliti og öðrum störfum á heilsugæslustöðinni á Patreksfirði. Ásta söng í kór Parteksfjarðarkirkju frá 1967 og var virk í slysavarnadeildinni Unni, kvennadeild.

Útför Ástu fer fram frá Patreksfjarðarkirkju í dag 9. janúar og hefst kl 13.30.

Elsku mamma, nú ertu loksins komin til hans pabba sem hefur beðið svo lengi eftir þér, en mikið á ég eftir að sakna þín og ykkar.

Þú varst kletturinn minn á erfiðum stundum og hjá mér á mínum bestu stundum. Þegar börnin mín komu í heiminn studdir þú við bakið á okkur verðandi foreldrum, þegar Auður fæddist varst þú sjálf á leið inn á spítala og gast ekki tekið á móti en varst hjá mér hverja mínútu og í huganum. Þegar hann Sverrir fæddist þá varst þú á vaktinni á Patró því hann var ekki nema 10 mínútna gamall þegar þú hringdir og ég gat sagt þér að þú hefðir fengið strák í afmælisgjöf og síðan hef ég alltaf haft þín orð í huga, þetta nær ekki skekkjumörkum, en Sverrir fæddist 17. des. kl 03.40 og þú varst fædd 17. des. kl. 03.30, svo fæddist litla nafnan þín og þá varst þú til staðar og tókst á móti henni. Mikið var ég ánægð að upplifa það.

Margar ferðir komst þú suður og alltaf svo gott að fá þig, geta sest niður og spjallað og þú kunnir svo vel að segja frá og vandaðir svo mál þitt, og eins að koma heim á Brunnana, skoða og grúska og fara svo í búðina með þig og einn bryggjurúnt, það mátti aldrei klikka. Ég gæti endalaust haldið áfram en minningin lifir í hjarta mínu.

Ég veit að þér hefur verið vel tekið hinum megin hjá guði, strákarnir þínir hafa beðið þín og pabbi fremstur og svo strákurinn þinn hann Eyji og hann Hilmar sem var ömmustrákurinn þinn, svo amma og afi í Skáleyjum og amma og afi í Hliðskjálf.

Þá er komið að kveðjustund, elsku mamma mín, knúsaðu pabba, Eyja, Himma og ömmur mínar og afa frá mér.

Elska þig og sakna, sofðu vel, elsku mamma mín, guð geymi þig.

Sigurborg

Sverrisdóttir.

Hinn 22. desember síðastliðinn var fallegur hér í firðinum okkar, nánast logn og léttskýjað og töluvert frost, einn af þessum fallegu dögum. Varð hann okkur að lokum erfiður, þó líka léttbær því að þá fékkst þú, elsku mamma mín, hvíldina löngu. Þó að söknuðurinn sé sár er að því léttir að hugsa um hve yndisleg og hjartahlý móðir þú varst okkur systkinum og amma barnabörnum þínum. Eru mér þau símtöl minnisstæð þegar þú hringdir heim til mín til þess sérstaklega að tala við Arnheiði mína því þá sat hún inni í sínu herbergi og þið vinkonur sunguð saman í símann og þið töluðuð um dúkkurnar hennar og þær sem þú áttir í æsku.

Þú fylgdist ávallt vel með barnabörnum þínum, einnig langömmubörnum, alveg fram undir það síðasta. Brostir með útrétta hönd alltaf þegar þau litlu komu að rúmi þínu. Þó að þú gætir ekki orðið talað sá ég að litlu börnin glöddu þig mjög. Þú gast alltaf gert það erfiða svo léttbært og þú kunnir ráð við flestu. Þó svo að ég hafi ekki alltaf verið sammála ýmsum ráðleggingunum þínum skil ég þær margar núna sem foreldri.

Í húmorinn var oft svo stutt hjá þér og eins jákvæðnina yfir öllu. Minnist ég sögu sem ég sagði þér er ég kom heim úr brúðkaupsferðinni minni og sagði þér frá þessum breska flotta veitingastað sem við Nanna fórum á. Var dekrað við okkur hjón á þeim stað og varla þurftum við að hreyfa okkur til annars en að borða það sem var á boðstólum, hvað þá að hengja upp yfirhafnir okkar, allt gerðu þjónarnir fyrir okkur nýgiftu hjónin. Þegar ég sagði þér að þegar við vorum að fara út af veitingastaðnum hafi þjónninn meira segja komið með jakkana okkar og klætt okkur í spurðir þú: „Og renndu þeir upp buxnaklaufinni hjá ykkur líka?“ Já, húmorinn var í lagi hjá þér, mamma mín, og er hann alveg fenginn úr þinni sveit. Sjaldan minnist ég þess að sjá þig öðruvísi en í góðu skapi sitjandi heima á Brunnunum að leggja kapal eða prjóna á okkur eða barnabörnin. Þá settist ég niður með þér yfir kaffi og spjalli og oft flaug hugur þinn heim í Skáleyjar og hlustaði maður á sögur þaðan um þín bernskubrek frá því er þú áttir þar heima með afa og ömmu og systkinum þínum sem þér þótti svo vænt um. Er varla sá dagur til að þú hafir ekki talað um þau eða sagt mér sögur um þau. En skáldið sagði: „Eitt sinn verða allir menn að deyja.“ Og það kom að þér, mamma mín, þó að ég sé ekki beint sáttur við að þú skyldir fara. Þó að ég viti með sjálfum mér að þú vildir það sjálf, orðin þetta veik og lúin, búin að skila öllu því sem lífið heimtar af okkur. Þú ferð ánægð með þitt líf og öll þau afrek sem þú áorkaðir, 730 börn sem þú tókst á móti og ólst upp okkur 5 systkinin af mikilli ástúð.

Þú komst í þennan heim í ljósi hátíðanna og ferð úr honum í ljósi hátíðanna og í því ljósi bíða þeir sem við söknum öll svo mikið. Pabbi gamli, Eyjólfur bróðir og auðvitað foreldrar þínir og er ég viss um að þeir fagnaðarfundir munu seint enda. Ég þakka þér fyrir allt, mamma mín, og þín minning í huga okkar skín.

Þinn sonur,

Gísli Einar og

fjölskylda.

Elsku amma, mig langar svo að skrifa eitthvað fallegt en næ engan veginn að opna mig. Nú veit ég að þér líður vel og ert í góðum höndum hjá afa og Eyja frænda. Þó að við hérna megin söknum þín rosalega mikið og eigum frekar bágt þessa dagana finnst okkur voða gott að vita af þér hjá þeim.

Æ, amma, hvar ertu? Æ, ansaðu mér.

Því ég er að gráta og kalla eftir þér.

Fórstu út úr bænum eða fórstu út á haf?

Eða fórstu til Jesú í sæluna þar?

Þín ömmustelpa,

Ásta Sig.

Stefánsdóttir.

Ásta systir mín var næst mér í aldri af hópnum og leikfélagi minn um aðra fram. Vegna þess hve smá hún var vexti þegar ég man fyrst var hún ekkert stærri en ég og reyndar var ég fljótt kominn með vinninginn. Tók því kannski stundum á mig göslameiri hlutverkin, sem einnig kann að hafa stafað af eðlismun. Leikir okkar voru eftirmyndir af búskap fullorðinna, sem við lifðum og hrærðumst í. Verkaskipting milli karla og kvenna var á hreinu. Sú er mín minning.

Ásta var snemma næm á umhverfið og tilveruna. Lagin að færa það, sem fyrir augu og eyru bar í skoplegan búning segði hún frá. Hlýddi á ræður manna, rök, boðskap, þrætur, raus. Skilaði öllu inn í frásögnina. Raddir, fas, orð, áherslur, allt skilaði sér á sviðið. Mörgum minnisstætt.

Æskustörfin móta unglinginn við aukna ábyrgð. Sumarkrakkarnir að sunnan voru yngri og vafalaust þurftu þeir oft nokkurs með, fjarri sínum nánustu og misframfærnir. Ég þekki þess dæmi að á fullorðinsárum hafa sum borið þann vitnisburð að til Ástu hafi jafnan verið best að leita ef nokkurs var vant.

Gamli stimpillinn „Ásta hetja“ varð annað en flimtingamál, en rifjaðist upp okkur sem þekktum þegar hún óbuguð án þess að gráta stóð, sem jarðfastur klettur yfir moldum drengsins síns. Hún sagði mér seinna að kannski hefði hún haldið fjölskyldunni í tilfinningalegri spennitreyju með því að geta ekki grátið þá. Seinna losnaði um það og yfir hvolfdust tómleikaáhrif hinna köldu staðreynda. Hún nefndi Eyjólf oft og ef til vill má ætla að hún hafi tregað hann því meir sem lengra leið. Hún sá hann í svip og fasi yngri drengjanna sinna og fór ekki í neinar grafgötur með að henni þótti hann oft í fylgd með þeim frændum sínum. Gott þótti henni það og gæfumerki þeirra.

Hún Ásta systir mín efaðist ekki um framhaldslífið. Kannski horfði hún með eftirvæntingu til vistaskipta. Mér þykja hrein ósköp hversu hægt og bítandi dró af henni síðustu árin. Hennar var „heimvon helg“. Í næstsíðustu viku hennar lífs kom ég daglega til hennar á sjúkrahús. Hún var að mestu í dái. Einu sinni leit hún þó á mig, brosti, rétti mér höndina, hélt í hönd mér augnabliksstund, sagði ekkert. Þökk sé fyrir þessa stund. Það var fallegt og réttlátt tiltæki sjómanna á Patreksfirði að hylla ljósmæðurnar sínar á sjómannadaginn síðasta. Þessar tvær ljósmæður, sem höfðu fengið þá í lúkurnar flesta við komuna í þennan heim. Flesta í nú starfandi kynslóð þeirrar stéttar og allra þar í plássinu. Einnig er notalegt að finna, ef nöfn þeirra hjóna Ástu og Sverris ber á góma í viðtali við Patreksfirðing, að þá andar hvarvetna til þeirra hlýju. Ljósmóðurina Ástu Gísladóttur og „alt muligt mannen“ Sverri Guðmundsson var gott að eiga að grönnum og sveitungum. Óáreitin, hjálpsöm, yfirlætislaus. Til þeirra bera allir hlýjan hug.

Á vetrarsólhvörfum, daginn sem sól tekur að hækka sinn gang verma okkar slóð og lýsa kvaddi hún samfylgd okkar, ljósmóðirin. Ljósmóðirin, fegursta starfsheiti sem íslensk tunga á. Var það ekki táknrænt?

Jóhannes Geir Gíslason,

Skáleyjum.

mbl.is/minningar