GESTIR þáttarins Orð skulu standa í dag eru Jóhann Alfreð Kristinsson laganemi og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur. Þau fást m.a. við „monsaralegur“ og „hasla sér völl“.

GESTIR þáttarins Orð skulu standa í dag eru Jóhann Alfreð Kristinsson laganemi og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur. Þau fást m.a. við „monsaralegur“ og „hasla sér völl“.

Fyrriparturinn er svona:

Nú er úti frost og fönn

fimbulvetur ríkir.

Um áramótahelgina var fyrriparturinn þjófstolinn:

Nú árið er liðið í aldanna skaut

og aldrei það kemur til baka.

Í þættinum botnaði Bragi Valdimar Skúlason:

Langlundargeðið að lokum svo þraut

því linnulaust skíturinn yfir það flaut,

þótt ekkert það ynni til saka.

Davíð Þór Jónsson vitnaði í vísindamenn sem segja alheiminn ekki einu sinni kominn á miðjan aldur:

En það ætti ekki að valda þér angist né þraut,

því enn er af nógu að taka.

Guðmundur Pálsson:

Á bátsskrifli leku í burtu það flaut

með blótsyrði á vörum og volæðistaut,

fegið hratt frá þessum klaka.

Úr hópi hlustenda botnaði Þorkell Skúlason í Kópavogi:

Það grætur víst enginn þau örlög það hlaut

sem urðu þess valdandi að allt fór í graut,

en svei því í ljósfælinn Laka.

Tómas Tómasson:

Skuldirnar hverfa nú bráðum á braut

bökuð þá aftur mun kaka.

Hlustendur geta sent botna og tillögur að fyrripörtum í ord@ruv.is eða til Orð skulu standa, Ríkisútvarpinu, Efstaleiti 1, 150 Reykjavík.