Ingibjörg Kristjánsdóttir húsmóðir, Bárustíg 6, Sauðárkróki, fæddist 11. september 1922. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 2. janúar síðastliðinn.

Foreldrar Ingibjargar voru Kristján Árnason, f. 1885, d. 1964, bóndi á Krithóli í Skagafirði og kona hans Ingibjörg Jóhannsdóttir, f. 1888, d. 1947. Fósturforeldrar hennar voru Sigurður Þórðarson, f. 1888, d. 1967, alþingismaður og kaupfélagsstjóri frá Nautabúi í Skagafirði og kona hans Ingibjörg Sigfúsdóttir, f. 1890, d. 1965. Systkini Ingibjargar eru: Guðrún, Þuríður, Fjóla, Þuríður, Árni, Þóranna, Haukur og Sverrir. Fjóla er eina systkinið sem enn er á lífi. Fóstursystkini Ingibjargar voru Sigfús og Ingibjörg, bæði látin. Með henni ólst einnig upp Bogga dóttir Sigfúsar.

Ingibjörg giftist 27. maí 1944, Guðjóni Ingimundarsyni, f. 12. janúar 1915. Foreldrar Guðjóns voru Ingimundur Jónsson, f. 1868, d. 1924, bóndi á Svanshóli í Bjarnarfirði og kona hans Ólöf Ingimundardóttir, f. 1877, d. 1952. Ingibjörg og Guðjón eignuðust sjö börn, þau eru: 1) Sigurbjörg, f. 1945, kennari á Sauðárkróki, m. Jón Sigurðsson, börn þeirra: a) Hjördís, m. Hjörtur P. Jónsson, þau eiga 2 börn. Auk þess á Hjördís 2 börn frá fyrra hjónab. b) Brynja Dröfn, m. Friðrik Ö. Haraldsson, þau eiga 2 börn. c) Sigurður Guðjón, m. Guðbjörg Sigurðardóttir, þau eiga einn son. 2) Birgir, f. 1948, læknir í Reykjavík, m. Soffía Svava Daníelsdóttir, börn þeirra: a) Bryndís Eva, m. Tómas O. Ragnarsson, þau eiga 3 dætur. b) Hákon Örn, m. Lilja R. Sigurðardóttir, þau eiga 2 börn. c) Dagmar Ingibjörg. 3) Svanborg, f. 1950, móttökugjaldkeri á Sauðárkróki, m. Sigurjón Gestsson, börn þeirra: a) Ingibjörg Rósa, hún á eina dóttur. b) Gestur. 4) Ingimundur Kristján, f. 1958, tannlæknir á Sauðárkróki, m. Agnes Hulda Agnarsdóttir, börn þeirra: a) Lilja, m. Gísli K. Gunnsteinsson. Lilja á 2 dætur frá fyrra samb. b) Sunna, m. Þorsteinn L. Vigfússon. c) Arna, m. Jóhann Helgason. d) Guðjón, e) Agnar Ingi. 5) Ingibjörg Ólöf, f. 1960, bankastarfsmaður á Sauðárkróki, m. Björn Sigurðsson, börn þeirra: a) Sigurður Arnar, m. Karítas S. Björnsdóttir, b) Þorgerður Eva, m. Tjörvi G. Jónsson, c) Aron Már. 6) Sigurður, f. 1960, verkfræðingur í Reykjavík, m. Steinunn Sigurþórsdóttir, börn þeirra: a) Örn f. 1988, d. 2008, b) Þorgeir. 7) Hrönn f. 1963, leikskólakennari á Sauðárkróki, m. Sigurður Örn Ólafsson, barn þeirra: a) Harpa.

Ingibjörg var í foreldrahúsum til fjögurra ára aldurs en fór þá í fóstur til skyldfólks, þar sem hún ólst upp. Hún lauk hefðbundinni skólagöngu og fór í Kvennaskólann á Blönduósi áður en hún giftist Guðjóni. Þau bjuggu á Sauðárkróki alla sína hjúskapartíð. Hún vann við verslunarstörf en síðan tóku við skyldur og störf á stóru heimili. Hún var félagi í Kirkjukór Sauðárkróks í mörg ár og starfaði í Kvenfélagi Sauðárkróks um árabil. Þá lagði hún ýmsum félögum lið ekki síst þeim sem tengdust félagsstarfi eiginmannsins. Eftir að börnin uxu úr grasi starfaði hún við Sundlaug Sauðárkróks til starfsloka.

Útför Ingibjargar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, laugardaginn 9. janúar 2010 og hefst athöfnin kl. 14.

Við, börnin af Bárustíg 6, viljum við andlát móður okkar minnast hennar með örfáum orðum. Hún var komin úr allstórum hópi systkina sem hún var samferða fyrstu fjögur ár ævinnar en þá fór hún í fóstur hjá ættingjum og ólst þar upp eftir það við gott atlæti. Jafnframt héldust tengsl hennar við foreldra og systkini eins og samgöngur þeirra tíma buðu upp á. Skólaganga var eins og algengt var í sveitum á þessum tíma og hún vann eins og tíðkaðist við almenn sveitastörf.

Hún fluttist á unglingsárum ásamt fósturforeldrum frá Nautabúi í Skagafirði út á Sauðárkrók og kynntist þar eiginmanni sínum Guðjóni Ingimundarsyni. Hún lauk prófi frá Kvennaskólanum á Blönduósi árið 1944 og sama vor giftist hún Guðjóni. Eftir það komum við börnin í heiminn hvert af öðru, það elsta 1945, það yngsta 1963, sjö að tölu. Með stækkandi heimili var það hennar hlutskipti að sjá að mestu um rekstur þess og uppeldi okkar barnanna. Hún var hæglát og vinnusöm, aldrei að flýta sér og átti alltaf stund aflögu fyrir okkur börnin og seinna meir barnabörnin og barnabarnabörnin sem með tímanum urðu fjölmörg. Með sinni hæglátu og yfirveguðu framkomu innrætti hún okkur sín eigin gildi sem vonandi hafa fylgt okkur, heiðarleiki, vinnusemi, þrautseygja, virðing við náungann og að virða skuli skoðanir annarra. Ekki tíðkaðist að illa væri talað um aðra eða að hún notaði blótsyrði. Dómharka var ekki til í hennar háttum. Á stóru heimili þurfti að vinna langan dag, oft vakað fram á nætur og vaknað snemma á morgnana. Upp úr jólapökkunum komu oft gjafir sem unnar höfðu verið á nóttunni, þegar enginn sá til. Ef hún settist niður var hún oftast með prjóna eða aðra handavinnu að gera eitthvað nytsamlegt.

Við viljum þakka henni fyrir allt og öll þau góðu áhrif og lífsspeki sem hún miðlaði til okkar með sinni óbilandi hógværð og hlýju, þannig settri fram að maður varð ekki var við að þarna fóru leiðbeiningar sem síðar urðu okkar eigin viðhorf og venjur. Betri mömmu hefðum við systkinin sjö ekki getað hugsað okkur.

Mamma, ég man þá daga,

man þína hvítu sterku hönd.

Ein kunni hún allt að laga

og opna hlið í drauma lönd.

Stoltari en stormaveldin,

sterkari en élja kveldin

varði hún æskueldinn,

árdaga og fagra strönd.

Góða ég sé þú grætur.

Grátperla skín á vanga þér.

Vakir þú veik um nætur,

vakir og biður fyrir mér.

Mamma, þitt móðurhjarta

mildara en sólin bjarta

sendir í húmið svarta

sólskinið hvar ég fer.

(Friðrik Hansen.)

Síðasta rúma árið dvaldi mamma á Deild 2 á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og hlaut þar góða umönnun sem við færum kærar þakkir fyrir. Börnin sjö,

Sigurbjörg, Birgir, Svanborg, Ingimundur, Ingibjörg, Sigurður og Hrönn Guðjónsbörn.

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.

Ég kvaddi gamla árið tregalaust en nú kveð ég Boggu tengdamóður mína með söknuði. Hún kvaddi að kvöldi 2. janúar, hægt og hljótt eins og hennar var háttur. Bogga var fædd og uppalin í Skagafirði. Hún var ein af níu systkinum, foreldrar hennar bjuggu við kröpp kjör og þegar Bogga var á fimmta ári var hún send í fóstur til frændfólks síns á Nautabúi og ólst þar upp. Hún unni fósturforeldrum sínum en saknaði engu að síður sárt foreldra sinna og systkina. Eftir hefðbundna skólagöngu vann hún við ýmis störf og menntaði sig í Kvennaskólanum á Blönduósi. Lýðveldisárið 1944 giftist Bogga Guðjóni Ingimundarsyni, þau stofnuðu heimili á Króknum og bjuggu þar öll sín búskaparár. Börnin urðu sjö, uppeldi þeirra kom mest í hennar hlut sem hún rækti af alúð.

Bogga var vönduð kona, heil og hlý, hafði góða nærveru. Hún var næm og skynjaði þarfir þeirra sem hún umgekkst. Hún var ráðagóð en lét lítið á því bera. Bogga var miðjan í sinni stóru fjölskyldu og með Guðjóni skapaði hún samheldni og samstöðu fjölskyldunnar sem vonandi verður viðhaldið. Í eldhúsinu á Bárustígnum var oft glatt á hjalla þegar börnin og fjölskyldur þeirra litu inn í kaffi og spjall, pönnukökurnar og kleinurnar hennar Boggu voru líka ósviknar.

Það er ekki langt síðan ég var spurð hvort ég væri „heppin“ með tengdamömmu. Ef hægt er að vera heppin eða óheppin í þeim efnum þá hef ég sannarlega verið heppin.

Nú skilja leiðir ég kveð Boggu með virðingu og þakklæti fyrir góða og gefandi samfylgd.

Steinunn Sigurþórsdóttir.

Í dag fylgi ég ömmu Boggu til hinstu hvílu. Það ætti ekki að koma á óvart þegar kona á níræðisaldri kveður þetta líf en þannig er það nú samt, maður er aldrei undir það búinn að kveðja. Amma var hlý kona, prúðmannleg í framkomu og yfirlætislaus. Hún var alltaf áhugasöm um það sem var að gerast hjá fjölskyldunni sinni og gladdist með okkur barnabörnunum yfir afrekum okkar, alveg sama hversu smávægileg þau voru. Hún hafði einstaklega góða nærveru, það fundu allir sem umgengust hana.

Frá því ég man eftir mér hefur amma verið stór hluti af mínu lífi. Ömmur eru það gjarnan en þessi amma var alveg sérstök. Mér finnst það hafa gert mig að betri manneskju að umgangast hana. Eins og dóttir mín sagði: „maður finnur svo vel fyrir hjartanu sínu þegar maður er hjá ömmu Boggu“.

Ég er heppin að hafa átt kost á því að njóta samvista við hana síðustu árin.

Ég vil þakka ömmu minni samfylgdina og allt sem hún hefur gefið mér.

Minning hennar lifir í hjarta mínu.

Ingibjörg Rósa.