Støre Norska blaðið ABC Nyheter sagði frá fundi Steingríms J. Sigfússonar og Jonas Gahr Støre í gær.
Støre Norska blaðið ABC Nyheter sagði frá fundi Steingríms J. Sigfússonar og Jonas Gahr Støre í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.is ÍSLAND og Íslendingar voru enn töluvert til umræðu í erlendum fjölmiðlum í gær og voru skoðanir skiptar.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

ÍSLAND og Íslendingar voru enn töluvert til umræðu í erlendum fjölmiðlum í gær og voru skoðanir skiptar. Nágrannar okkar á Norðurlöndum eru greinilega ekki allir á einu máli um Icesave-skuldbindingarnar og taka Danir hvað harðasta afstöðu gegn Íslendingum.

Á vefmiðlinum Copenhagen Post Online var í gær vitnað í Piu Kjærsgård, formann danska þjóðarflokksins, um að Danir ættu ekki að veita frekari lán fyrr en ástandið skýrðist. Flokkurinn telur óskynsamlegt að senda hingað peninga ef Íslendinga skorti viljann til að greiða þá peninga til baka. Formaður danska einingarflokksins, Line Barfod, hvatti hins vegar Norðurlandaþjóðirnar í gær til þess að hjálpa Íslendingum og bjóða þeim lán á viðunandi kjörum.

Stuðningur barst hins vegar úr óvæntri átt þegar Lyndon LaRouche sem m.a. er þekktur fyrir að hafa átta sinnum boðið sig fram til embættis Bandaríkjaforseta, lýsti yfir aðdáun á ákvörðun forseta Íslands.

Íslendingar þverir og óraunsæir en heillandi

Í ritstjórnargrein í kanadíska blaðinu The Globe and Mail er Icesave líka gert að umtalsefni og segir höfundur að Íslendingar eigi að taka ábyrgð á mistökum sínum, en þó megi ekki hneppa þá í þrældóm. Það sé sanngjarnt að vísa málinu til þjóðarinnar og óskandi að Íslendingar, Bretar og Hollendingar geti miðlað málum því þetta séu byrðar sem bera þurfi í sameiningu.

Þá reyndist Eva Joly enn einu sinni Íslendingum haukur í horni í gær þegar hún sagði í viðtali við hollenska blaðið Nrc Handelsblad að þarlend yfirvöld hefðu verið kærulaus og reyndu að fela mistök sín í eftirliti með því að einblína á lagalegar skyldur Íslands. Hollendingar ættu ekki að kúga Íslendinga heldur semja af þroska.

Ein forvitnilegustu skrif gærdagsins um Ísland mátti svo lesa í grein Roys Hattersleys, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bretlands, í breska blaðinu The Times . Hattersley beitir fyrir sig félagslegum darwinisma þegar hann ýmist veitist að íslensku „víkingunum“ og hrósar til skiptis. Hann segir skiljanlegt að þar sem forfeður Íslendinga séu ræningjar kippi þeir sér ekki upp við að halda 3,6 milljörðum punda sem aðrir eigi. Þannig séu Íslendingar bæði þverir og óraunsæir í eðli sínu, en það sé líka hluti af persónutöfrum þeirra og ástæða þess að þjóðin hafi þraukað hér á norðlægu skeri. Hann hafi því þrátt fyrir allt heillast af þessari undarlegu þjóð.

Ábyrgðin sé sameiginleg

Ef Íslendingum yrði gert að standa að fullu undir Icesave samsvarar það 12.000 evrum á hvern Íslending (tæpum 2,2 milljónum króna). Kostnaðurinn yrði hinsvegar aðeins 50 evrur (9.000 krónur) á hvern skattgreiðanda í Hollandi og Bretlandi. Þetta kemur fram í bréfi Ann Pettifor og Jeremy Smith hjá breska fyrirtækinu Advocacy International sem birt er í Financial Times í gær. Ann Pettifor er virtur hagfræðingur í Bretlandi og hefur m.a. látið mikið til sín taka við niðurfellingu skulda í þróunarríkjum. Í bréfinu segir að ríkisstjórnir Bretlands og Hollands ættu að fagna ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki Icesave-lögin og nota tækifærið til að draga til baka kröfur um fullar endurgreiðslur. Ósanngjarnt sé að þröngva Íslendingum til að bera allar byrðarnar af endurgreiðslunum. Bretar og Hollendingar eigi að hætta að beita þjóðina efnahagslegum þrýstingi og fallast á sameiginlega ábyrgð þjóðanna á hruninu.