Léttvín Hvítvínið hefur unnið á en rauðvínið gefið eftir.
Léttvín Hvítvínið hefur unnið á en rauðvínið gefið eftir. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Sigtrygg Sigtryggsson sisi@mbl.is ÁFENGI var selt fyrir 21 milljarð og 134 milljónir í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í fyrra. Þrátt fyrir samdrátt í áfengissölu í fyrra er þetta mun hærri upphæð en árið 2008.

Eftir Sigtrygg Sigtryggsson

sisi@mbl.is

ÁFENGI var selt fyrir 21 milljarð og 134 milljónir í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í fyrra. Þrátt fyrir samdrátt í áfengissölu í fyrra er þetta mun hærri upphæð en árið 2008. Það ár seldist áfengi fyrir 17,8 milljarða. Skýrist þetta af verðhækkunum sem urðu á áfengi í fyrra. Sölutölur eru með virðisaukaskatti.

Júlímánuður var drýgstur í áfengissölunni, en salan þann mánuð var 2.664 milljónir. Skýringin er sú að föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi í fyrra bar upp á 31. júlí, en sá dagur er gjarnan söluhæsti dagur ársins hjá ÁTVR. Fast á hæla júlí kemur nýliðinn desember en þá seldist áfengi fyrir 2.558 milljónir. Áfengissala í júní og ágúst var einnig drjúg.

Viðskiptavinir ÁTVR í fyrra voru 4.347.818 talsins. Þar sem Íslendingar á áfengiskaupaaldri eru eitthvað á þriðja hundrað þúsundið liggur í hlutarins eðli að margir hafa oft lagt leið sína í vínbúðirnar.

Annatími í árslok

Annasamasti dagur ársins var 30. desember síðastliðinn, en þann dag voru viðskiptavirnirnir 43.659. Næstur í röðinni er föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi, 31. júlí, þegar viðskiptavinir voru 43.257 talsins. Á Þorláksmessu komu 40.794 manns í vínbúðirnar.

Á árinu 2009 voru seldir rúmlega 20 milljón lítrar af áfengi. Uppistaðan í sölunni er bjór sem er nærri 80% af öllu seldu áfengi í landinu. Í lítrum talið var salan 1,4% minni en árið 2008. Sala áfengis árið 2008 jókst um 4,2% í lítrum talið miðað við árið 2007.

Sala rauðvíns dróst saman um 2,5% í fyrra en hvítvín var ein fárra tegunda sem meira var selt af á árinu. Salan þar var 5,1% meiri en árið áður.

Sala lagerbjórs dróst lítillega saman en sala á ókrydduðu brennivíni og vodka var 12% minni. Einn mesti samdráttur ársins var í blönduðum drykkjum en sala þeirra dróst saman um tæplega 37% á árinu.