Þorkell Sigmundsson fæddist í Hælavík á Hornströndum 11. janúar 1925. Hann lést í sjúkraskýlinu í Bolungarvík 28. desember síðastliðinn.

Foreldrar Þorkels voru Sigmundur Ragúel Guðnason, f. 13. desember 1893, d. 6. október 1973, og Bjargey Pétursdóttir, fædd í Hælavík, 5. júní 1902, d. 30. sept 1987. Systkini Þorkels eru.

1) Pétur f. 1. september 1921, d. 23. september 1992. 2) Guðný Hjálmfríður f. 16. september 1922, d. 23. september 2004. 3) Petólína f. 16. septeber 1922, d. 10. október 2006 (þær voru tvíburar). 4) Kjartan f. 22. desember 1927, d. 11. júní 2009. 5) Guðfinna Ásta f. 20. febrúar 1931, d. 9. nóvember 1979. 6) Ingibjörg Unnur f. 20. maí 1933. 7) Trausti f. 24. nóvember 1937, d. 9. ágúst 1989. Eftirlifandi eiginkona Þorkels er Hulda Margrét Eggertsdóttir f. 6. janúar 1935. Foreldrar hennar voru Valborg Guðmundsdóttir f. 1. ágúst 1914, d. 3. ágúst 2004 og Eggert Karvel Haraldsson f. 9. apríl 1904, d. 28. janúar 2002. Þau bjuggu í Bolungarvík. Börn Huldu og Þorkels eru. 1) Eggert Valur f. 9. maí 1952, eiginkona hans var Helga Bjarnadóttir, frá Reykjavík, hún lést 24. júní 2009. Hann á 5 börn þau eru Sunneva, Hulda Margrét, Gísli Valur, Gunnar Örn og Erla Rut og 3 stjúpbörn, Sigríði Margréti, Einar og Bjarna. 2) Guðni Kjartan f. 2. mars 1954, eiginkona hans er Guðrún Guðmundsdóttir frá Ísafirði og þau eiga 3 syni, þeir eru Sigmundur Ragúel, Stefán Atli og Símon Elí. 3) Hulda Margrét f. 6. apríl 1957, sambýlismaður hennar er Guðmundur Sigurvinsson, frá Sæbóli á Ingjaldssandi, hún á 1 son, Þorkel, og 2 stjúpbörn, Ástu Maríu og Sigurvin. 4) Sigmundur Bjargþór f. 27. ágúst 1961, hans kona er Sigríður Björgmundsdóttir frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, þau eiga 2 dætur sem heita Gerður Ágústa og Hugrún Embla. 5) Falur f. 29. október 1963, hans kona er Kristrún Hermannsdóttir frá Þingeyri og eiga þau 4 syni, þeir eru Hermann Ási, Andri Freyr (látinn), Axel Ívar og Eyþór Ingi. 6) Þorkell nafni hans og dóttursonur ólst að mestu upp hjá afa sínum og ömmu.

Langafabörn hans eru orðin 10.

Hulda og Þorkell hófu búskap á Horni í Hornvík árið 1951, og voru síðustu ábúendur í Sléttuhreppi, fluttu þaðan til Bolungarvíkur ári seinna og bjuggu þar upp frá því. Þar stundaði hann ýmis störf, aðallega sjómennsku og lengst af á sínum eigin trillum sem allar báru nafnið Fákur Ís 5.

Þorkell verður jarðsunginn frá Hólskirkju í Bolungarvík laugardaginn 9. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Pabbi minn, þá er komið að leiðarlokum. Ykkur er farið að fækka, harðjöxlunum af Ströndum, sem fæddust og ólust upp í torfbæ við aðstæður sem þýddi ekki að lýsa fyrir barni í dag þannig að það skildi.

Það eru nákvæmlega 85 ár í dag síðan afi Sigmundur batt á sig mannbroddana norður í Hælavík á Ströndum og lagði af stað í 8 til 9 klukkustunda göngu vestur í Aðalvík til þess að sækja ljósmóður því það var að koma að því að amma Bjargey fæddi þig. Slík ferð í þá daga á þessum tíma árs á Hornströndum gat verið lífshættuleg. Það þurfti ekki annað en að veðrið breyttist skyndilega þá var hætta á ferðum í þessari óblíðu náttúru sem getur verið á Hornströndum á vetrum. En þessi ferð afa fyrir 85 árum gekk vel og þú komst í heiminn 11. jan. 1925, stór og hraustur strákur. Veturnir og björgin á Hornströndum hertu ykkur en ég er viss um að þessi undurfögru Hornstrandarsumur hafa gert ykkur ættingja mína úr Hælavík að þeim fagurkerum á íslenska ljóðlist og aðrar fagurbókmenntir sem raun bar vitni. Úr þessum gamla torfbæ í Hælavík komu mörg stórskáld og rithöfundar af þinni kynslóð. Og ekki vafðist það heldur fyrir þér að setja saman góða vísu.

Ég minnist þess alltaf hvernig þú gast þulið upp utanbókar heilu kvæðabálkana eftir Davíð Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum og fleiri mæt íslensk ljóðskáld og skipti þá ekki máli hvort við vorum heima í stofu eða úti á Kvíarmiði á skaki.

En nú er komið að tímamótum, pabbi minn. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær við kvöddumst í síðasta sinn, en ég kveð þig núna og veit að þú ert á góðum stað og kveður fyrir þá sem hlusta vilja.

Eggert Valur.

Elsku pabbi minn.

Nú þegar komið er að kveðjustund koma fram í hugann minningar frá æskunni.

Það er sunnudagsmorgunn, lítil hnáta svona fjögra til fimm ára með hárborða í ljósum krullum, í sparikjól, hvítum sokkabuxum og hvítum bomsum utan yfir spariskóna, réttir litla hönd í átt að stórum, sterkum og hlýjum lófa pabba síns og saman ganga þau hönd í hönd niður lautina í áttina að brjótnum. Þar liggur trillan hans bundin við festar. Þetta er sunnudagsgöngutúr feðginanna, hún að reyna að ganga í takt við þennan stórstíga pabba sinn sem tekst ekki alltaf. Síðan er ferðinni haldið heim til mömmu í hádegismat. Þetta var öryggi æskunnar. Árin líða svo undur fljótt. Pabbi minn var mikill hagyrðingur og grínisti, gerði vísur og ljóð bæði um sig og aðra. Mig langa að koma með vísu sem hann gerði um mig.

Þegar Margrét fetar fold

finnst mér tröll úr hömrum vakið.

Undir tveggja metra mold

myndi ég þekkja fótatakið.

Illvígur sjúkdómur, heilabilun, lagði hann að lokum að velli en samt fannst manni örla fyrir að hann þekkti mann stundum, þá kom blik í fallegu bláu augun hans.

Takk fyrir allt, pabbi minn, og góður Guð verndi þig og mömmu og alla ættingja og vini í sorginni. Þín elskandi dóttir

Hulda Margrét.

Ég fór oft til ömmu og afa í Bolungarvík á sumrin þegar ég var lítil. Mér fannst það alltaf svo spennandi að koma vestur og við frænkurnar vorum að skottast á milli húsa þar sem allt föðurfólkið mitt bjó þarna meira eða minna.

Ég og afi Keli náðum mjög vel saman. Hann sagði mér oft frá því þegar hann kom í heimsókn á Sperðil og ég var um 3-4 ára. Ég var í lopapeysu sem náði niður á hné og í stígvélum með krullurnar út í loftið og ég tók í höndina á honum mjög ábúðarfull og bauðst til að sýna honum landareignina. Ég man eftir því að ég straujaði alltaf tóbaksklútana hans og mér fannst það ótrúlega gaman, því voru það mikil vonbrigði þegar ég kom eitt sumarið og afi var hættur að taka í nefið.

Það er einhvern veginn þannig að þegar fólkið manns kveður að þá fer maður að hugsa til baka og það koma fram þessar litlu minningar sem ylja manni. Besta sagan og kannski sú sem afi mundi lengst eftir þegar hann var farinn að gleyma var að eitt sumarið þegar ég var búin að biðja mikið um að fá að fara einn túr með honum á sjó. Hann svaraði því yfirleitt ekki, hummaði það fram af sér. Ég held að hann hafi ekki haldið að þessi prinsessa úr Reykjavík sem svaf til hádegis og borðaði kanilsykur á hafragraut hefði eitthvað að gera út á sjó. En einn daginn var bræla og ég vöknuð eitthvað fyrir hádegi. Ágætisveður samt. Hulda Magga var í heimsókn og einhvern veginn tókst henni og ömmu að telja afa á að fara með mig eitthvað út á bátnum. Ég var klædd í allskonar föt, settir á mig margir sjóveikiplástrar og svo lagt í hann upp úr hádegi. Ég held að afi hafi gefið eftir með það í huga að gera mig nógu sjóveika svo ég myndi aldrei biðja um þetta aftur. Svo var bara engin bræla og við fiskuðum heilmikið. Um áttaleytið komum við til baka, stelpan ekkert sjóveik. En þegar við komum að bryggjunni til að landa, var mér orðið svo mál að pissa að ég þurfti að rjúka beint heim á Traðarstíginn til að komast á klósettið. Málið var að ég sá ekkert klósett í sómabátnum og ekki var ég strákur og gat ekki pissað út fyrir í sjóinn og ég þorði ekki að spyrja afa þannig ég hélt bara í mér. Mig langaði svo að landa með honum en ég gleymi aldrei hvað stóð á nótunni sem hann kom með heim, 491 kg. Ég fékk meira segja smáhlut.

Afa fannst oft gaman að rifja þetta upp og mest hissa var hann á hvað við veiddum mikið. Elsku afi Keli, takk fyrir góðar stundir. Ég vona að þú sért kominn á betri stað og hvílir í friði.

Elsku amma mín, ég votta þér mína dýpstu samúð og allri fjölskyldunni. Kveðja,

Hulda Margrét

Eggertsdóttir