FÉLAGSMENN í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) skoruðu á félagsfundi sem haldinn var í fyrrakvöld á samninganefnd félagsins að skoða aðgerðir til að knýja á um að gengið verði frá kjarasamningum við félagið sem fyrst.

FÉLAGSMENN í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) skoruðu á félagsfundi sem haldinn var í fyrrakvöld á samninganefnd félagsins að skoða aðgerðir til að knýja á um að gengið verði frá kjarasamningum við félagið sem fyrst.

Ottó Eiríksson, formaður FÍF, segir þetta einfaldlega áskorun frá félagsmönnum sem séu sumir orðnir þreyttir á litlum samningsvilja hjá ríkinu. Hins vegar hafi stjórnin ekki ákveðið neinn aðgerðapakka hvað sem verði.

Kröfur flugumferðarstjóra snúi helst að innri breytingum á launamálum og fyrirkomulagi þeirra. Það strandi hins vegar á því að ríkið vilji ekki taka á sig aukinn kostnað.

Ottó segir kjarasamninga FÍF hafa verið lausa frá því í lok október á síðasta ári. Sáttasemjari hafi fundað með deiluaðilum en eins og er sé enginn fundur bókaður. Hann á þó von á að eitthvað gerist eftir helgina, þar sem nú hafi verið unnið að ýmsum útreikningum vegna tillagna um kjarasamninginn.

sigrunrosa@mbl.is