Gunnlaugur Jónsson
Gunnlaugur Jónsson
Eftir Gunnlaug Jónsson: "Þannig snertir Icesave-málið kjarna bankahrunsins."

ÖLL fjármál snúast um meðferð fjár og ábyrgð á þeirri meðferð. Sá sem leggur peninga á reikning í banka eða lánar þeim banka fé með öðrum hætti tekur áhættu. Hann veðjar á banka, sem gæti farið á hausinn, þannig að peningarnir tapist. Þetta á hann að vita. Í eðlilegum fjármálaheimi myndi tvennt fylgja þessari ábyrgð á meðferð fjár: í fyrsta lagi þarf sá sem í hlut á að kynna sér viðkomandi banka nægjanlega vel til að vita að honum sé treystandi og í öðru lagi tapar hann peningum sínum ef illa fer.

Ábyrgð og afleiðingar aftengd

En nú er fjármálaheimurinn ekki alveg eðlilegur. Sá sem tekur ákvörðun um lán til banka ber ekki alltaf ábyrgð í þeim skilningi að hann geti tapað peningunum ef bankinn fer á hausinn. Ábyrgð og afleiðingar hafa verið aftengd. Þess í stað þarf einhver annar að þola afleiðingarnar, kannski ófætt barn í öðru landi, sem hefur ekkert með ákvörðunina að gera. Við þessar aðstæður hverfur nauðsyn viðkomandi á að gæta fjár síns, meðal annars með því að kynna sér þann banka vel sem hann treystir fyrir peningum sínum.

Icesave vodka

Líkja má þessu við að menn gætu drukkið Icesave vodka ómælt og þyrftu ekki að hafa áhyggjur af skorpulifur eða öðrum fylgifiskum drykkjunnar. Það fái hana einhver annar. Víst er að fleiri myndu drekka óhóflega ef þeir gætu velt afleiðingunum yfir á aðra.

Ríkisábyrgð á bönkum veldur of miklu trausti

Fjármálastofnanir heimsins nutu of mikils trausts. Það liggur fyrir. Þær nutu mikils trausts vegna hugmynda um ríkisábyrgð víða um heim. Mikilvægastur var Seðlabanki Bandaríkjanna við að skapa traust á fjármálakerfinu með því að lofa því að pumpa peningum í fjármálakerfið ef eitthvað alvarlegt bjátaði á. Á Íslandi skipti einnig miklu máli að fjárfestar og matsfyrirtæki trúðu á formlega og óformlega ríkisábyrgð á bönkunum, eins og tekið var fram berum orðum í matsskýrslum. Þannig gátu bankarnir farið óvarlega en fengið samt alltaf nægt fjármagn.

Trú á ríkisábyrgð á lánum til bankanna var þannig mikilvægasta orsök bankahrunsins. Þannig snertir Icesave-málið kjarna bankahrunsins. Með samningum við Breta og Hollendinga er reynt að standa við það sem sumir trúðu, án fullnægjandi lagastoðar, að ríkið myndi hlaupa undir bagga.

Er að undra þótt fjármálakerfi heimsins hafi verið að hruni komið? Ábyrgð og afleiðingar hafa verið aðskilin.

Plástrar sem losna

Reynt hefur verið að bæta fyrir þessa aftengingu ábyrgðar og afleiðinga með miklu regluverki víða um heim, miklu eftirliti opinberra stofnana og mati lánshæfismatsfyrirtækja sem bankarnir kosta sjálfir. Það brást. Slíkt eftirlit hefur alltaf og mun alltaf bregðast, bæði á Íslandi og annars staðar. Það er barnaleg klisja að tala um að eftirlit hafi vantað. Það er hins vegar rétt að það hafi verið vanmáttugt. Það er í eðli sínu vanmáttugt, því eftirlitsfólkið þarf ekki að bera tapið sjálft ef illa fer og hefur ekki fullkomið vald til að koma í veg fyrir lán til banka sem það treystir ekki. Hjá fjármagnseigandanum, ólíkt eftirlitsfólkinu, getur þetta tvennt aftur á móti farið saman og gerir það ef engar hugmyndir um ríkisábyrgð eru til staðar.

Að „taka ábyrgð“ – frá þeim sem á að bera hana

Nú er svo komið að við getum valið í megindráttum tvær leiðir: sagt við fjármagnseigendur að þeir verði sjálfir að bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og það sé siðlaust að láta meðal annars saklaus börn okkar bera afleiðingar gjörða þeirra – eða við getum gert hið siðlausa, „tekið ábyrgð“ – eins og það er kallað, og losað fjármagnseigendur við ábyrgðina á sínum eigin ákvörðunum um fé sitt. Þannig tökum við þátt í því að leggja grunninn að næsta hruni.

Það er rangt að komast svo að orði að „við Íslendingar“ eigum að bera ábyrgð á „gjörðum okkar“, þ.e. gjörðum Landsbankans. Flestir Íslendingar höfðu ekkert með rekstur Landsbankans að gera. Þeir sem treystu bankanum fyrir fé, voru mun meiri þátttakendur í áhættutöku hans en þeir sem búa í námunda við höfuðstöðvar hans. Þeir sem ákváðu að taka áhættuna eiga að bera ábyrgð á henni en ekki íslenskir skattgreiðendur.

Höfundur er framkvæmdastjóri.