Þingfundur Lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga um ríkisábyrgð vegna Icesave voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi.
Þingfundur Lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga um ríkisábyrgð vegna Icesave voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Raddir þeirra sem halda því fram með rökum að Íslendingum beri ekki skylda til að greiða Icesave-skuldina verða sífellt háværari. Frásögn Evu Joly styrkir skoðun þeirra sem halda því fram að Bretar og Hollendingar eigi ekki lögbundna fjárkröfu á íslenska skattborgara.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Frásögn Evu Joly af samtölum hennar við þá sem unnu að gerð Evróputilskipunarinnar um innistæðutryggingar, að henni hafi í reynd aldrei verið ætlað að takast á við hrun bankakerfis þjóðar, skýtur styrkum stoðum undir sjónarmið þeirra sem hafa fært fyrir því rök að tryggingaverndin nái ekki yfir hrun fjármálakerfis.

Sérfræðingur sem rætt var við í gær segir ummæli Joly mjög markverð því þau byggist greinilega á samtölum við embættismenn hjá Evrópusambandinu, sem þekki vel tilurð þessara umdeildu reglna um tryggingavernd. Tilskipunum ESB fylgja yfirleitt ekki miklar útskýringar eða greinargerðir, sem hægt er að vísa til þegar reynir á túlkun þeirra. Ummæli Joly falla að öllu leyti að því sem fram kom í umtalaðri skýrslu um innstæðutryggingakerfi, sem unnin var á sínum tíma undir stjórn Jean-Claudes Trichets, núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Þessum reglum ESB var ekki ætlað að eiga við þegar um kerfishrun fjármálaþjónustunnar væri að ræða. Í slíkum tilfellum yrði að grípa til annarra úrræða.

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa fjallað ítarlega um Icesave og réttarstöðu Íslands í blaðagreinum og fært sannfærandi rök fyrir því að tilskipunin sé ekki til þess fallin að mæta stóráföllum eins og bankahruni. Ábyrgð innlánstryggingakerfa á innlánsskuldbindingum takmarkist við það fjármagn sem er í þeim. Í grein sem þeir birtu fyrir réttu ári vísa þeir til áðurnefndrar skýrslu sem unnin var fyrir seðlabanka Frakklands. Litið hafi verið svo á „[...] að frönsku lögin um innlánstryggingarkerfi tækju ekki á aðstæðum eins og bankahruni heldur yrði að beita öðrum aðferðum til að ná til þessa“.

Ítrekaðar yfirlýsingar Wouters Bos, fjármálaráðherra Hollands, gefa raunar þessum sjónarmiðum byr undir báða vængi. Í ræðum sem hann flutti bæði í mars og maí á síðasta ári segir Bos afdráttarlaust, að innstæðutryggingakerfi Evrópulanda hafi ekki verið hannað til að takast á við kerfishrun heldur fall einstakra banka. „[Kerfið] var ekki hannað fyrir allsherjarkreppu kerfisins, heldur fall einstakra banka.“

Þótt aldrei hafi fengist botn í það í umfjöllun stjórnvalda um Icesave-samkomulagið hvort ríkinu væri skylt að taka yfir ábyrgð á innstæðunum sem töpuðust í útibúum íslenskra banka á erlendri grund er því þó haldið til haga í lögunum að þau feli ekki í sér viðurkenningu á að ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingarinnar vegna útibúa Landsbankans.

Magnúst Ingi Erlingsson lögfræðingur færir fyrir því rök í nýlegri Morgunblaðsgrein að ríkisábyrgð á innstæðutryggingum sé í eðli sínu brot á samkeppnisrétti, hún feli í sér ríkisaðstoð til einkarekinna fjármálastofnana.

Þetta er raunar kjarni Icesave-málsins frá upphafi til enda og vekur þá spurningu hvort nokkurt tilefni sé til að nota orðið skuldbindingar í linnulausum umræðum um Icesave.

Sameiginleg ábyrgð

Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands ættu að fagna ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki Icesave-lögin og nota tækifærið til að draga til baka kröfur um fullar endurgreiðslur þessarar fámennu þjóðar. Þetta kemur fram í bréfi Ann Pettifor og Jeremy Smith hjá Advocacy International í Bretlandi sem birt er í Financial Times í gær. Það sé óréttlátt að þröngva þessari fámennu þjóð til að bera allar byrðarnar af endurgreiðslunum (12 þús. evrur á hvern Íslending ígildi 50 evra á hvern skattgreiðanda í Hollandi og Bretlandi). Þjóðirnar eigi að hætta að beita Ísland efnahagslegum þrýstingi og fallast á sameiginlega ábyrgð á hruninu.

Engin skýr skylda hvílir á Íslendingum skv. alþjóðalögum að greiða upp Icesave-skuldina, segir einnig Michael Waibel, doktor við Cambridge-háskóla, í Financial Times í gær. Lögmæti krafna Breta og Hollendinga er ekki skothelt, segir Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóri The Daily Telegraph, og Economist tekur í svipaðan streng. Lagarökin á bak við kröfur á hendur Íslendingum eru óljós og lýst er efasemdum um að ríkisábyrgð geti náð yfir tryggingu innstæðna.