Víkverja finnst stundum notalegt að fara í kirkju og það gerði hann síðast á aðfangadag. Jólamessan var hátíðleg að vanda en þó var eitt sem truflaði Víkverja mjög og sneri það reyndar ekki að kirkjunni heldur að kirkjugestum.

Víkverja finnst stundum notalegt að fara í kirkju og það gerði hann síðast á aðfangadag. Jólamessan var hátíðleg að vanda en þó var eitt sem truflaði Víkverja mjög og sneri það reyndar ekki að kirkjunni heldur að kirkjugestum.

Á fremsta bekk sátu foreldrar með þrjú börn á aldrinum 2-8 ára og höfðu þau afar takmarkaðan áhuga á messuhaldinu eins og kannski gefur að skilja með ung börn. Foreldrarnir hefðu því kannski mátt íhuga að setjast með börnin aftarlega þar sem minni truflun yrði af þeim en alveg fremst, þar sem þau höfðu allra athygli á hlaupum sínum fram og aftur kirkjugólfið og jafnvel upp í predikunarstólinn.

Víkverji hefur fullan skilning á stöðu foreldra sem eiga erfitt með að ráða við eirðarlaus börn, en í þessu tilfelli gerðu foreldrarnir ekki nokkra einustu tilraun til þess að róa börnin og skiptu sér ekkert af hamaganginum í þeim. Steininn tók úr þegar tvö þau yngstu voru farin að hlaupa hring eftir hring í kringum mannhæðarháan kertastjaka með sex logandi kertum og studdu sig við hann um leið svo litlu mátti muna að hann ylti um koll. Þetta varð til þess að predikunin fór alveg fyrir ofan garð og neðan hjá Víkverja, sem hafði áhyggjur af því að logandi kertin féllu á kirkjugesti fremstu bekkja, allt þar til tvær ókunnugar konur skökkuðu loks leikinn. Foreldrarnir hins vegar skiptu sér ekkert af leik barnanna.

Annars reynir Víkverji allajafna að fyllast ekki heilagri vandlætingu yfir hegðan samborgara sinna því allir eru jú breyskir – ekki síst hann sjálfur. Þessi eilífa hneykslan sem fólk er svo viljugt að tjá með formælingum á netinu er óskaplega þreytandi að mati Víkverja, jafnvel þótt hann þusi stundum aðeins á innsoginu sjálfur.