DAVID Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, fullvissaði utanríkisráðherra Íslands í símtali á fimmtudaginn um að þrátt fyrir stöðuna í Icesave-málinu myndi Bretland áfram styðja ESB-umsókn Íslands.

DAVID Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, fullvissaði utanríkisráðherra Íslands í símtali á fimmtudaginn um að þrátt fyrir stöðuna í Icesave-málinu myndi Bretland áfram styðja ESB-umsókn Íslands. Íslenski ráðherrann ætlaði svo sannarlega ekki að láta nappa sig fundargerðarlausan af þessum fundi eins og gagnrýnt hefur verið harðlega og tók glaðbeittur fram í viðtali við Lundúnablaðið Daily Mail að hann hefði fengið sérstakt leyfi Milibands til þess að greina opinberlega frá þessari staðreynd. Í ljós kom að þetta þótti nokkuð fréttnæmt í Bretlandi, einkum fyrir þær sakir að ummæli Milibands stönguðust á við fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra Bretlands um þetta efni.

En þessar fréttir vöktu með mér áhyggjur. Skyldi utanríkisráðherrann okkar ekki örugglega hafa munað eftir að ræða líka breytta stöðu Icesave-málsins og sjónarmið Íslands á þessum ágæta símafundi – fór nokkuð allur tíminn í að telja Breta á að styðja ESB-umsóknina? Það sagði til að mynda ekkert um það í fréttinni hvort utanríkisráðherra okkar hefði spurt kollega sinn hvort Bretar myndu neyta aflsmunar sem stórþjóð og standa í vegi fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég bíð spennt eftir frekari fréttum. Á ekki örugglega líka eftir að koma fram að Bretar ætli ekki að standa í vegi fyrir AGS-endurskoðuninni – fékk ekki utanríkisráðherra örugglega líka leyfi hins breska kollega síns til að greina frá því opinberlega?

Höfundur er alþingismaður.