Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur sigrunrosa@mbl.

Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

RÁÐAMENN í Noregi og Danmörku tilkynntu í þarlendum fjölmiðlum í gær að lánagreiðslur til Íslands yrðu ekki stöðvaðar og haldið yrði áfram að vinna að efnahagsáætluninni í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ekki fengust þó skýr svör um hvaða áhrif það hefði ef Icesave-lögunum yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hitti í gær fjármálaráðherra Noregs, Sigbjörn Johnsen, og utanríkisráðherra, Jonas Gahr Störe, til að ræða þá stöðu sem komin er upp eftir að forseti synjaði Icesave-lögum staðfestingar. Þaðan hélt hann til fundar við Claus Hjort Frederiksen, fjármálaráðherra Danmerkur.

Steingrímur var ánægður með ferðina í gærkvöldi og sagði undirtektirnar í Noregi hafa verið mjög góðar en hann hefði fundið fyrir miklum velvilja í garð Íslendinga. Sömu sögu var að segja í Danmörku. „Eftir að vera búinn að ná þessum tveimur fundum og símtali við sænska fjármálaráðherrann í gær og þann finnska í dag tel ég að við séum búin að gera nokkurn veginn það sem við gátum gert.“

Þegar spurt er hvort áframhaldandi lánafyrirgreiðsla sé háð skilyrðum segir fjármálaráðherra ráðherrana hafa viljað fá það staðfest að Íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar, þrátt fyrir ákvörðun forsetans.

Steingrímur segir það mjög skýrt af hálfu Norðmanna að þeir líti svo á að íslensk stjórnvöld séu búin að gera það sem hægt sé að ætlast til af þeim. Því eigi ekki að láta ákvörðun forsetans trufla ferlið. Fallist hinar Norðurlandaþjóðirnar á þann skilning sé það mjög mikilvægt, en nú eigi þær eftir að bera sig saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Tjáðu sig ekki um afleiðingar neitunar

Norrænir fjölmiðlar greina frá heimsókn fjármálaráðherra til Noregs og Danmerkur í gær. Börsen hefur eftir fjármálaráðherra Dana að Steingrímur hafi lofað að Íslendingar stæðu við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Fréttastofa Reuters hefur eftir finnska fjármálaráðuneytinu að áframhaldandi lánafyrirgreiðsla frá Finnum væri háð því að Íslendingar stæðu við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Slíkt yrði einnig gert í samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Hvorki utanríkisráðherra Noregs í Aftenposten né fjármálaráðherra Danmerkur í Börsen vildu tjá sig um framhaldið ef Íslendingar höfnuðu Icesave-lögum. Í Dagens Nyheter kom fram að Anders Borg, fjármálaráðherra Svía, hefði rætt við Steingrím í síma á fimmtudag en opinber afstaða Svía virðist ekki hafa komið fram ennþá.