Uppstokkun Barack Obama forseti tilkynnir breytingar á öryggiskerfinu í ávarpi til þjóðarinnar.
Uppstokkun Barack Obama forseti tilkynnir breytingar á öryggiskerfinu í ávarpi til þjóðarinnar. — Reuters
BARACK Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að breytingar verði gerðar á öflun, dreifingu og úrvinnslu upplýsinga um meinta hryðjuverkamenn til að hindra að þeir geti laumað sprengjum inn í farþegaþotur sem flogið er til Bandaríkjanna.

BARACK Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að breytingar verði gerðar á öflun, dreifingu og úrvinnslu upplýsinga um meinta hryðjuverkamenn til að hindra að þeir geti laumað sprengjum inn í farþegaþotur sem flogið er til Bandaríkjanna.

Obama sagði í ávarpi til þjóðarinnar í fyrrakvöld að bandarísk yfirvöld hygðust bæta við hundruðum vopnaðra flugvarða í farþegaþotur og fjölga háþróuðum vopnaleitartækjum á flugvöllum. Þá myndi utanríkisráðuneytið endurskoða vinnureglur sínar til að torvelda fólki, sem tengist hryðjuverkasamtökum, að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.

Forsetinn fyrirskipaði breytingarnar vegna máls 23 ára Nígeríumanns, Umars Farouks Abdulmutallabs, sem reyndi að sprengja farþegaþotu á leið til Detroit með sprengiefni sem var falið í nærfatnaði hans. Nígeríumaðurinn kom fyrir rétt í fyrsta skipti í Detroit í gær.

Nafn Abdulmutallabs var á bandarískum gátlista yfir hugsanlega félaga í hryðjuverkasamtökum, en á þeim lista eru um 550.000 nöfn. Nígeríumaðurinn var hins vegar ekki á styttri lista yfir þá sem bannað er að ferðast til Bandaríkjanna. Rannsókn á málinu hefur leitt í ljós að röng stafsetning á nafni Abdulmutallabs varð til þess að utanríkisráðuneytið taldi ranglega að hann væri ekki með gilda vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. bogi@mbl.is

Í hnotskurn
» Obama sagði að rannsókn á máli Abdulmutallabs hefði leitt í ljós að bandarískar öryggisstofnanir hefðu haft nægar upplýsingar til að geta hindrað hryðjuverkatilraun Nígeríumannsins. Úrvinnslu og dreifingu upplýsinganna hefði hins vegar verið ábótavant og úr því yrði bætt.
» Janet Napolitano, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, skoraði á önnur ríki að auka eftirlit á flugvöllum og benti á að farþegar frá 17 löndum voru í þotunni sem reynt var að granda.