HAGSMUNIR neytenda vega þyngra en hagsmunir svínaræktenda þegar kemur að því að veita upplýsingar um heilbrigði framleiðslunnar til smásala, þ.e. kjötvinnslna.

HAGSMUNIR neytenda vega þyngra en hagsmunir svínaræktenda þegar kemur að því að veita upplýsingar um heilbrigði framleiðslunnar til smásala, þ.e. kjötvinnslna. Þetta var megininntak úrskurðar sem kveðinn var upp af úrskurðarnefnd upplýsingamála í máli Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) gegn Matvælastofnun þann 22. desember sl.

Ólafur Reynir Guðmundsson lögfræðingur SVÞ, segir úrskurðinn marka tímamót í sögu neytendaverndar á Íslandi. SVÞ hélt því fram að mikilvægt væri að verslanir og kjötvinnslur hefðu ávallt upplýsingar um hvar mengað kjöt væri að finna. Hins vegar sögðu framleiðendur afleiðingar sýkingar tímabundnar og yfirleitt vægar, á meðan neikvæður orðrómur á markaði gæti lifað lengi. Þá gætu slíkar upplýsingar haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu framleiðenda ef þeir færu að selja kjöt sem „hreint.“

Úrskurðarnefndin taldi slík sjónarmið þó ekki vega þyngra en réttur neytenda til upplýsinga um heilbrigði dýra sem selt er kjöt af á almennum markaði.

Úrskurður úrskurðarnefndar upplýsingamála er endanlegur en hægt að vísa honum til dómstóla kjósi Matvælastofnun það.

sigrunrosa@mbl.is

Í hnotskurn
» Matvælastofnun safnar saman sýnum þar sem salmonella hefur greinst og geymir upplýsingar um það.
» Á sumum búum koma þær oftar upp en annars staðar og á nokkrum árum myndast mynstur sem kjövinnslur mega nú óska eftir að sjá.