Tiger Woods
Tiger Woods
MARGIR sérfræðingar sem skrifa um golfíþróttina í Bandaríkjunum telja það líklegt að Tiger Woods taki ekki þátt í Mastersmótinu á Augusta-vellinum í apríl. Og margir þeirra telja að Woods taki sér frí frá keppni allt árið 2010.

MARGIR sérfræðingar sem skrifa um golfíþróttina í Bandaríkjunum telja það líklegt að Tiger Woods taki ekki þátt í Mastersmótinu á Augusta-vellinum í apríl. Og margir þeirra telja að Woods taki sér frí frá keppni allt árið 2010.

Það er fyrsta stórmótið af alls fjórum á þessu ári. Jeff Rude pistlahöfundur á fréttavefnum golfweek.com telur allt eins líklegt að Woods taki ekki fram golfkylfurnar á árinu 2010. Í samtali Rude við atvinnukylfinginn John Cook sem er góður vinur Tiger Woods segir Cook m.a. að Woods þurfi tíma til að vinna úr þeim vandamálum sem hann hefur komið sér í.

„Ef Tiger Woods og eiginkona hans Elin ákveða að reyna að leysa úr málunum þá gæti það tekið langan tíma. Ef þau ákveða að skilja þá gæti Tiger Woods tekið þá ákvörðun að mæta til leiks strax í kjölfarið,“ segir Cook m.a í viðtalinu.

Woods hefur ekkert tjáð sig við fjölmiðla eftir að fjölmiðlar greindu frá meintu framhjáhaldi Woods og hjónabandserjum í lok síðasta árs. Woods hefur unnið 14 stórmót á ferlinum en aðeins Jack Nicklaus hefur fagnað sigri oftar á stórmótum, eða alls 18 sinnum. seth@mbl.is