Áslaug Böðvarsdóttir fæddist í Borgarholti í Stokkseyrarhreppi 28 júní 1929. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi þann 2. janúar síðastliðin.

Foreldrar hennar voru Helgi Guðmundsson frá Rifshalakoti á Rangárvöllum, f. 13. sept 1902, d. 25. sept 1932 og Steinvör Jónsdóttir frá Litla-Steinsholti í Reykjavík, f. 18. jan 1903, d. 27. apr. 1991. Systkini hennar eru: Sigurjón f. 1925, látinn, Bjarni f. 1926, látinn, Gunnar f. 1927, Guðrún Alda f. 1930 og Helga f. 1931, látin. Einnig átti hún 3 fósturbræður Tómas, Þórð og Guðmund Böðvarssyni, sem allir eru látnir. Eftirlifandi eiginmaður Áslaugar er Einar Ólafsson. Börn Áslaugar eru : 1) Kári Böðvars. f. 14 maí 1947, maki Jóhanna H. Óskarsdóttir f. 19. desember 1947, börn þeirra eru Óskar Ingi, Tómar Þór og Anna Margrét.

2) Sigrún Kristín Hilmarsdóttir f. 4. febrúar 1954. Langömmubörn eru 5. Áslaug ólst upp á Stokkseyri en vann og bjó um tíma í Reykjavík og Siglufirði þar sem hún starfaði við ýmis störf, m.a. við aðhlynningu á sjúkrahúsum og við Heyrnleysingjaskólann. Hún fluttist aftur um 1966 á Stokkseyri, vann þar við fiskvinnslustörf og bjó þar til æviloka.

Útför Áslaugar fer fram frá Stokkseyrarkirkju í dag, laugardaginn 9. janúar, og hefst athöfnin kl.15.

Kveðja til móður.

Sofðu unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,

– minn er hugur þungur.

Oft ég svarta sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun best að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

Meðan hallar degi skjótt,

Að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

(Jóhann Sigurjónsson.)

Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér, elsku mamma. Guð geymi þig.

Sigrún Kristín.

Jæja, kæra vinkona, þá er komið að kveðjustund og við þökkum þér fyrir samferðina og allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Það var oft hlegið og gert að gamni sínu á Íragerði, Ása sagði sögur um gamla daga og hvernig allt var þá, hvað húsin hétu og hverjir bjuggu í þeim. Hún var líka með eindæmum léttlynd og hló manna hæst og svo skemmtilega að við gátum varla staðið upp fyrir magaverkjum af hlátri. Þar að auki var söngurinn. Þar var ekki komið að tómum kofunum hjá henni enda spilaði hún á gítar á árum áður. Hún mundi alla texta, hvað höfundarnir hétu og hver söng.

Einu sinni reyndum við á hæfileikana og komum með diska sem heita óskalögin, það voru 40 íslensk gömul lög á honum og spiluðum við hvert lagið á fætur öðru. Aldrei komum við henni á gat og ef hún var efins, þá ráðfærði hún sig við Sigrúnu og var hún ekki síður fróð, enda hafði hún lært af Ásu. Það var fjör á bænum þegar Ása hóf upp raustina með minningarblik í augum. Sigrún var alla tíð dugleg að hjálpa mömmu sinni, og þá sérstaklega þegar hallaði á heilsuna, og gerði það kleift að Ása gat verið lengur heima en ella.

Þegar kom að því að hún þurfti að fara á Kumbaravog komu þau Sigrún og Einar daglega til hennar. Það var einstakt.

Guð geymi þig.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn.)

Einari, Sigrúnu og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Björg Ægisdóttir,

Björg Þorkelsdóttir.