Á ÞRIÐJUDAG og miðvikudag lét ríkisútvarpið Capacent Gallup gera skoðanakönnun um afstöðu fólks til Icesave-laganna og synjunar forsetans á því að staðfesta þau.

Á ÞRIÐJUDAG og miðvikudag lét ríkisútvarpið Capacent Gallup gera skoðanakönnun um afstöðu fólks til Icesave-laganna og synjunar forsetans á því að staðfesta þau. Því var síðan slegið upp í sjónvarpsfréttum kl 7 um kvöldið, að meirihluti landsmanna (53%) myndi greiða lögunum atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessu var síðan fylgt eftir með því að Helgi Seljan fréttamaður kallaði til sín í Kastljós þá Grétar Þór Eyþórsson prófessor og Birgi Guðmundsson lektor og sagði heldur en ekki hróðugur að þessi skoðanakönnun, sem greint var frá í kvöldfréttum, benti til þess að „það sé soldið að færast á sveif með ríkisstjórninni þetta almenningsálit, sem menn héldu að væri allt í hina áttina“.

Þessu svöruðu háskólamennirnir í samræmi við þær upplýsingar sem þeir höfðu. En vitaskuld varð niðurstaðan röng, af því að þeir vissu ekki, að ríkisútvarpið hafði látið Capacent Gallup spyrja fleiri spurninga, þar sem kvað við annan tón. Frá þeim var síðan sagt í 10-fréttum um kvöldið eða eftir að skýrt hafði verið frá þeim á mbl.is. Þar kom fram, að 67% þjóðarinnar vildu fella Icesave-lögin úr gildi og leita nýrra samninga, en einungis þriðjungur gerði ráð fyrir að ríkisstjórnin lifði út kjörtímabilið. Ummæli Helga Seljans um að almenningsálitið hefði verið „að færast á sveif með ríkisstjórninni“ verða skopleg í þessu ljósi, en sennilega hefur honum ekki verið kunnugt um niðurstöður skoðanakönnunar Gallups í heild sinni fremur en háskólakennurunum.

Höfundur er fyrrverandi forseti Alþingis.